Undirskriftir Friðrik Pálsson hótelhaldari og Njáll Trausti Friðbertsson flugumferðarstjóri eru formenn félagsins Hjartað í Vatnsmýri.
Undirskriftir Friðrik Pálsson hótelhaldari og Njáll Trausti Friðbertsson flugumferðarstjóri eru formenn félagsins Hjartað í Vatnsmýri. — Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson
„Þetta gerist hraðar en við þorðum að vona,“ segir Friðrik Pálsson hótelhaldari og annar formanna félagsins Hjartað í Vatnsmýrinni. Félagið hóf undirskriftasöfnun þann 16.

„Þetta gerist hraðar en við þorðum að vona,“ segir Friðrik Pálsson hótelhaldari og annar formanna félagsins Hjartað í Vatnsmýrinni. Félagið hóf undirskriftasöfnun þann 16. ágúst þar sem skorað er á Reykjavíkurborg og Alþingi að tryggja öllum landsmönnum óskerta flugstarfsemi í Vatnsmýri til framtíðar og eru undirskriftir nú um 25 þúsund talsins.

„Við höfum fengið afskaplega jákvæðar undirtektir og sérstaklega er ánægjulegt hvað fólk er þakklátt fyrir að fá tækifæri til þess að tjá skoðun sína með þessum hætti,“ segir Friðrik og útskýrir ástæðuna fyrir því að farið var af stað með undirskriftasöfnunina.

„Okkur fannst vera ákveðin slagsíða á þessari umræðu, að henni væri stýrt af svolítið þröngum hópi innan borgarkerfisins en með þessum hætti vonumst við til að landsmenn allir fái tækifæri til að sýna skoðun sína.“

Friðrik segir að margir sem skrifi undir hafi áhyggjur af áframhaldandi sjúkraflugi. „En þar að auki eru einnig margir sem skrifa undir vegna þess að þeir telja flugvöllinn vera okkar aðalsamgönguæð. Við höfum auðvitað ekki járnbrautir heldur verðum við að reiða okkur á bíla og flugvélar. Síðan eru auðvitað margir Reykvíkingar sem skynja það mjög sterkt að völlurinn sé mikilvægur í atvinnulegu tilliti fyrir borgarbúa. Þessi þrenn rök standa upp úr hjá þeim sem hafa talað við mig.“

Friðrik segir viðbrögðin hafa komið hvaðanæva af landinu. „Við höfum ekki yfirsýn yfir hvaðan þeir eru sem hafa skrifað undir, en þeir sem hafa talað við okkur eru bæði Reykvíkingar og fólk sem býr annars staðar á landinu.“ bmo@mbl.is