[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjölnismenn hafa ráðið Grétar Eiríksson sem þjálfara meistaraflokks karla í handbolta og hann mun því stýra liðinu í 1. deildinni í vetur.

Fjölnismenn hafa ráðið Grétar Eiríksson sem þjálfara meistaraflokks karla í handbolta og hann mun því stýra liðinu í 1. deildinni í vetur. Grétari til fulltingis verða reynsluboltinn Boris Bjarni Akbachev og Guðmundur Rúnar Guðmundsson sem mun áfram stýra yngri flokkum félagsins. Grétar er uppalinn Fjölnismaður og hefur leikið með liðinu undanfarin ár. Hann er að jafna sig af slæmum meiðslum frá síðustu leiktíð og mun leika með liðinu samhliða þjálfuninni þegar hann hefur náð sér af þeim. Keppni í 1. deild hefst 20. september en útlit er fyrir að þar keppi tíu lið um tvö laus sæti í efstu deild.

Arsenal ætlar að reyna að kaupa franska miðjumanninn Yohan Cabaye frá Newcastle áður en félagaskiptaglugganum verður lokað í lok mánaðar samkvæmt Sky Sports en Arsenal þarf sárlega á liðsstyrk að halda fyrir átökin í úrvalsdeildinni í vetur.

Enski miðjumaðurinn Scott Parker mun leika með Fulham í ensku úrvalsdeildinni í vetur en félagið hefur gengið frá kaupum á kappanum frá öðru Lundúnafélagi, Tottenham. Tottenham hafði áður samþykkt tilboð frá B-deildarfélaginu QPR en nú er orðið ljóst að Parker mun spila fyrir Fulham. Hann skrifaði undir samning til þriggja ára fyrir félagið en kaupverðið er ekki gefið upp. Parker, sem er 32 ára, er alinn upp hjá Charlton en hefur einnig leikið með Norwich, Chelsea, Newcastle og West Ham. Hann kom til Tottenham árið 2011.

André Villas-Boas , knattspyrnustjóri Tottenham, fullyrðir að félagið hafi ekki lokið sér af á félagaskiptamarkaðnum og þar á bæ ætli menn að styrkja sig enn frekar áður en glugganum verður lokað 31. ágúst. Tottenham hefur nú þegar fengið til sín brasilíska miðjumanninn Paulinho , Belgann Nacer Chadli , Etienne Capoue og spænska framherjann Roberto Soldado sem félagið borgaði metfé fyrir. „Við höfum ekki lokið okkur af. Ég tel okkur vera með góðan hóp og augljóslega höfum við látið finna fyrir okkur á markaðnum. En við viljum bæta við og það er möguleiki á því,“ segir Villas-Boas.

Alex Pastoor , þjálfari hollenska úrvalsdeildarliðsins NEC Nijmegen sem Guðlaugur Victor Pálsson leikur með, var í gær rekinn í kjölfar slæmra úrslita í byrjun leiktíðar. NEC er í neðsta sæti deildarinnar án stiga eftir þrjár umferðir og búið að fá á sig 14 mörk eða næstum því fimm mörk að meðaltali í leik.

Enska úrvalsdeildarliðið Southampton gekk í gær frá kaupum á ítalska framherjanum Pablo Osvaldo frá Roma. Dýrlingarnir borga 15 milljónir punda fyrir leikmanninn en það er félagsmet. Metið var ekki gamalt því fyrr í sumar borgaði Southampton 12,5 milljónir punda fyrir miðjumanninn Victor Wanyama sem það fékk frá Celtic í Skotlandi. Osvaldo skoraði 16 mörk fyrir Roma í ítölsku A-deildinni á síðustu leiktíð.