— Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hörður Ægisson hordur@mbl.is Líklegast er talið að íslensk stjórnvöld muni ráða Eirík S.

Hörður Ægisson

hordur@mbl.is

Líklegast er talið að íslensk stjórnvöld muni ráða Eirík S. Svavarsson hæstaréttarlögmann sem verkefnastjóra til að leiða vinnu sérfræðingahóps við afnám fjármagnshafta og hafa umsjón með samskiptum við erlenda kröfuhafa föllnu bankanna. Þetta herma heimildir Morgunblaðsins, en Eiríkur var einn af forsvarsmönnum InDefence-hópsins sem barðist gegn samþykkt Icesave-samninganna.

Í samtali við Morgunblaðið vildi Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður forsætisráðherra, ekki staðfesta að búið væri að ganga frá ráðningu verkefnastjóra. Enn væri ekki búið að taka ákvörðun um hvernig sérfræðingahópurinn verður endanlega skipaður. Hins vegar ættu þau mál að skýrast síðar í vikunni.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa stjórnvöld einnig sett sig í samband við Sigurbjörn Þorkelsson, sem hefur starfað á alþjóðlegum fjármálamörkuðum í tvo áratugi, og leitað eftir því að hann komi með einhverjum hætti að vinnu sérfræðingahópsins um afnám hafta. Til stendur að Sigurbjörn flytji til Íslands eftir áramót.

Sigurbjörn hætti síðastliðið vor störfum hjá Barclays Capital þar sem hann hafði verið framkvæmdastjóri verðbréfaviðskipta bankans í Evrópu, Asíu, Miðausturlöndum og Afríku frá árinu 2010. Áður hafði hann einnig starfað sem framkvæmdastjóri og yfirmaður afleiðuviðskipta bandaríska fjárfestingabankans Lehman Brothers í Asíu fram til ársins 2008.

Markmiðið með skipan sérfræðingahópsins er að einfalda stjórnsýslu þeirra mála er varða áætlun um afnám hafta. Auk þess að vinna að því að uppfæra núverandi áætlun um afnám hafta, sem hefur verið í gildi frá því í mars 2011mun hópurinn því jafnframt vinna náið með stofnunum og ráðuneytum og samræma aðgerðir þeirra.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er ennfremur talið sennilegt að ráðinn verði erlendur sérfræðingur til að veita hópnum ráðgjöf.