Mannréttindi 113.000 mál bíða dómstólsins og þar af eru 20 frá Íslandi. Reynt hefur verið að bregðast við málafjöldanum með virkum aðgerðum.
Mannréttindi 113.000 mál bíða dómstólsins og þar af eru 20 frá Íslandi. Reynt hefur verið að bregðast við málafjöldanum með virkum aðgerðum. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FRÉTTASKÝRING Áslaug A. Sigurbjörnsdóttir aslaug@mbl.is Tuttugu mál frá Íslandi bíða nú úrlausnar Mannréttindadómstóls Evrópu, en alls eru það rúmlega 113.000 mál sem bíða úrlausnar af hálfu dómstólsins.

FRÉTTASKÝRING

Áslaug A. Sigurbjörnsdóttir

aslaug@mbl.is

Tuttugu mál frá Íslandi bíða nú úrlausnar Mannréttindadómstóls Evrópu, en alls eru það rúmlega 113.000 mál sem bíða úrlausnar af hálfu dómstólsins. Flest málin eru kærur frá einstaklingum í Rússlandi, Ítalíu og Tyrklandi.

„Óhóflegur fjöldi mála bíður úrlausnar frá aðildarríkjunum,“ segir Róbert R. Spanó, prófessor, sem hefur störf sem dómari við Mannréttindadómstól Evrópu í byrjun nóvember.

Fimm íslensk mál hafa nú þegar hlotið meðferð það sem af er ári. Frá því að mál er kært og þar til efnisleg niðurstaða liggur fyrir geta liðið þrjú til fjögur ár, vegna þess fjölda mála sem bíður meðferðar.

Tekur kærur alvarlega

„Málafjöldinn hefur þróast gríðarlega hratt á undanförnum áratug. Það má rekja til aukinnar þekkingar á störfum dómstólsins og stækkunar lögsögunnar með fleiri aðildarríkjum til austurs, fleiri nýfrjálsum ríkjum þar sem ýmislegt vantar upp á svo að mannréttindaástandið sé í samræmi við þær lágmarkskröfur sem sáttmálinn gerir ráð fyrir,“ segir Róbert og bætir við að þar sem dómstóllinn hafi léð ákvæðunum mikið efnislegt vægi, þá hafi borgararnir í þessum ríkjum talið tilefni til að leita til hans. „Dómstóllinn hefur sýnt að hann taki kærur sem berast frá borgurunum alvarlega.“

Réttur borgaranna

Reynt hefur verið að bregðast við málafjöldanum með virkum aðgerðum og hafa breytingar verið gerðar á sáttmálanum. „Verið er að auka möguleika dómstólsins til að leysa úr því á frumstigum hvort mál skuli sæta efnismeðferð. Nú geta t.d. einstakir dómarar vísað tilteknum málum frá dómstólnum,“ segir Róbert. Þá segir hann að einnig hafi þau skilyrði sem þarf til þess að mál séu tekin til efnismeðferðar verið þrengd og gert er ráð fyrir frekari þrengingu. „Þá er fyrirhugað að þrengja málshöfðunarfrest úr sex mánuðum í fjóra, en sá viðauki hefur ekki tekið gildi.“

Róbert segir mikla umræðu hafa verið undanfarið um framtíð dómstólsins og þar hafi komið ljóst fram að grundvallarforsenda fyrir störfum hans sé þessi einstaklingsbundni réttur borgaranna til að bera mál undir dómstólinn. „Frá honum verður ekki vikið í nánustu framtíð, leitað verður ávallt annarra leiða til að dómstóllinn geti tekist á við þennan málafjölda.“

Fleiri mál um eignarrétt

Mannréttindasáttmálinn gengur út frá því að tiltekin efnisleg réttindi eru varin. Þau álitaefni sem koma fyrir dómstólinn snúa að hefðbundnum borgaralegum og stjórnmálalegum réttindum. „Álitaefni sem snúa að vernd gegn pyndingum og annarri ómannúðlegri meðferð eru stór þáttur í störfum hans, síðan eru mál sem snúa að réttlátri málsmeðferð og tjáningarfrelsi mjög fyrirferðarmikil,“ segir Róbert, en hann telur fyrirsjáanlegt að málum er snúa að vernd eignarréttar muni að einhverju leyti fjölga. „Það eru mál er varða hvernig aðildarríkin hafa brugðist við þeim aðstæðum sem uppi eru vegna hinnar alþjóðlegu fjármálakrísu. Það er ekki útilokað að reyna muni á í ríkara mæli í framtíðinni hvernig slíkar aðgerðir aðildarríkjanna samrýmast friðhelgi eignarréttar.“

Vantar djúpa þekkingu

„Dómstólar í aðildarríkjunum hafa frumskylduna að tryggja að borgarar aðildarríkjanna njóti þeirra mannréttinda sem Mannréttindasáttmálinn gerir ráð fyrir. Mannréttindadómstóllinn er einungis kerfi sem er til vara við dómskerfi aðildarríkjanna,“ segir Róbert R. Spanó. Hann telur skotra á það að íslenskir dómstólar hafi nægjanlega djúpa þekkingu á dómaframkvæmd dómstólsins og efnisákvæðum sáttmálans. „Það er verkefni íslenska dómkerfisins að bæta það með aukinni endurmenntun og að dómarar sýni frumkvæði í því að efla þekkingu sína á dómaframkvæmd dómstólsins. Ég tel að ljá þurfi atkvæðum sáttmálans meira vægi við úrlausn mála hér í landi,“ segir Róbert sem telur að ef aðildarríkin taki þessu alvarlega megi vænta þess að málum fyrir Mannréttindadómstólnum fækki.