Stjarna Ófáir mættu til að sjá Usain Bolt á Ólympíuvellinum í Moskvu.
Stjarna Ófáir mættu til að sjá Usain Bolt á Ólympíuvellinum í Moskvu. — AFP
Ekki eru allir sammála um hvort mætingin hafi verið góð eða slæm á heimsmeistaramótið í frjálsíþróttum sem lauk í Moskvu á sunnudaginn var.

Ekki eru allir sammála um hvort mætingin hafi verið góð eða slæm á heimsmeistaramótið í frjálsíþróttum sem lauk í Moskvu á sunnudaginn var. Ýmsum spekingum, lýsendum og sumum keppendum fannst stúkan á Luzhniki-vellinum ekki nægilega þétt setin en alþjóðafrjálsíþróttasambandið, IAAF, er afar ánægt með mætinguna.

Í frétt á heimasíðu sambandsins segir að rétt tæplega 270.000 manns hafi mætt á úrslitakvöldin átta en það gerir 33.000 manns að meðaltali á hverju kvöldi. Fleiri voru þó þegar Yelena Isinbayeva tryggði sér heimsmeistaratitilinn þannig að nokkur munur var á mætingu milli kvölda.

Luzhniki-völlurinn tekur 80.000 manns í sæti en honum var breytt þannig að hann tæki aðeins 50.000 manns. Þrátt fyrir það tókst aldrei að fylla völlinn. Lokakvöldið var opnað fyrir 60.000 áhorfendur en þá mættu 44.000 manns.

Þegar heiðurs- og boðsgestir eru teknir með ásamt fjölmiðlamönnum og íþróttafólki voru ríflega 396.000 viðstaddir úrslitakvöldin átta á einhverjum tímapunkti eða um 50.000 að meðaltali. Mætingin var aðeins betri en í Daegu í Suður-Kóreu fyrir tveimur árum en þá mættu alls 261.000 áhorfendur á úrslitakvöldin.

Alþjóðafrjálsíþróttasambandið er í skýjunum yfir breytingum á keppnisfyrirkomulaginu sem það telur nú fela í sér mun meiri spennu og dramatík á hverju kvöldi. Það var fyrst notað á HM í Daegu 2011 og aftur á Ólympíuleikunum í London í fyrra. tomas@mbl.is