Stefanía Sigrún Eggertsdóttir Nielson fæddist 25. febrúar 1935 í Sveinskoti, Álftanesi. Hún lést á heimili dóttur sinnar í Bandaríkjunum 10. júní 2013.

Foreldrar hennar voru hjónin Eggert Sveinbjörn Davíðsson, f. 8. apríl 1901, d. 4. september 1952, og Rósbjörg Sigurðardóttir, f. 16. nóvember 1910, d. 13. febrúar 2005. Eftirlifandi eiginmaður hennar er Einer Rosener Nielson, f. 13. janúar 1932, danskrar ættar. Börn þeirra eru Eggert Einer Rosener Nielson, kvæntur Michelle Lyn Nielson, og Else Harriett Rosener Edwards, gift William Dwain Edwards. Barnabörnin eru Else Rosener Bonfield, Elizabeth Ruth Bonfield, Stefania Jane Dodd og Taylor Russell, Briana Russell og Eggert Thomas Nielson. Systkini Stefaníu eru Erla Eggertsdóttir og Hallgeir Eggertsson, hann er látinn.

Stefanía Sigrún ólst upp með fjölskyldu sinni í Reykjavík. Hún útskrifaðist úr Kvennaskólanum í Reykjavík vorið 1952. Vann fyrsta árið við skrifstofustörf, fór sem au pair til London og starfaði sem flugfreyja hjá Flugfélagi Íslands næstu árin. Stefanía Sigrún giftist eftirlifandi eiginmanni sínum 1. nóvember 1955. Fyrstu fimm hjúskaparárin bjuggu þau hjón hér á Íslandi, en fluttu þá til Washington DC, Bandaríkjunum. Stefanía Sigrún bjó ásamt fjölskyldu sinni í Japan í sex ár vegna starfa Einer. Síðustu árin hafa þau hjón búið í Round Hill, Virginia. Stefanía Sigrún var heimavinnandi húsmóðir alla tíð, var virk í félagsstarfi eins og félagi Íslendinga í Washington DC og gegndi formennsku þess um tíma. Hún var meðlimur í Vienna Women's club, Vienna Womens's Garden club, Vienna's Lion's club og Danis club. Þessi störf gefa mynd af áhugasviði hennar. Hún var mikil hannyrðakona og blómagarðurinn hennar var hennar stolt og yndi. Minningarathöfn um Stefaníu Sigrúnu verður í Kapellu Fossvogskirkju í dag, 20. ágúst 2013, og hefst athöfnin kl. 13.

Nú þegar ég kveð systur mína Stefaníu Sigrúnu, Rúnu eins og hún var kölluð, hinstu kveðju og hugsa til baka þá er það góð minning og þrátt fyrir búsetu hennar erlendis meira en fimmtíu ár höfum við notið ánægulegra samvista við hana og fjölskyldu hennar í ríkum mæli. Ferðir hennar heim til Íslands voru tíðar. Hún naut þess að ferðast um landið og kynna börnum sínum land og þjóð og enn halda börn hennar áfram að koma með sínar fjölskyldur til landsins, og sonur hennar hefur sest hér að með sína fjölskyldu.

Æskuárin í Skerjafirði voru ljúf. Í minningunni var alltaf sól og þá klæddumst við kjólum og sportsokkum. Í götunni okkar voru leikfélagarnir margir. Mjólkin var sótt í brúsum í Reynistaðabúið og kýrnar skoðaðar í leiðinni. Okkar sólarströnd var fjaran undir bárujárnsgirðingu Shellstöðvarinnar í Nauthólsvíkinni. Systir mín hafði ákaflega létta lund, var skemmtileg og góður félagi, átti margar vinkonur og passaði börn fyrir nágrannana. Þessir eiginleikar fylgdu henni í gegnum lífið. Rúna kynntist dönskum manni, Einer Rosener Nielson, og hann ákvað strax við fyrstu kynni að hún skyldi verða konan hans. Eftir fimm ára hjúskap á Íslandi flytja þau búferlum til Washington DC með börn sín tvö. Þar bjuggu þau sér gott heimili. Rúna féll vel inn í nýtt samfélag og fann sig í þátttöku ýmissa félaga. Hún var meðlimur félags Íslendinga í Washington DC, og formaður þess um tíma, meðlimur í félagsskap kvenna í Vienna, blómaklúbbi kvenna í Vienna, Vienna's Lion's club og Danis club, að ógleymdum saumaklúbbi íslensku kvennanna, sem unnu að kynningu lands okkar og þjóðar. Rúna bjó í Japan í sex ár með fjölskyldu sinnni, vegna starfa Einer, og naut þess vel.

Á efri árum ferðuðust þau hjónin mikið og heimsóttu fjarlægar slóðir eins og Síle, Mchu Picchu, Easter Island, Hong Kong, Taípei, Perú og fleiri.

Ferðalangurinn systir mín er nú farin sína hinstu ferð. Við sem eftir erum minnumst hennar með þakklæti fyrir allar Íslandsferðirnar. Þær sköpuðu eftirvæntingu hjá þeim yngri sem eldri, enda fylgdi Rúnu og hennar fólki alltaf kátína og framandi andblær.

Ég bið góðan Guð að vaka yfir fjölskyldu hennar og gefa þeim styrk. Þau eiga minningar um góða eiginkonu og góða móður, það er huggun.

Ég kveð þig, systir mín, og þakka þér fyrir allar okkar góðu stundir.

Erla Eggertsdóttir.

Rúna frænka mín var yndisleg kona, brosmild, lífsglöð og skemmtileg. Hún hafði fallega framkomu, spilaði á píanó og hafði góða söngrödd. Þannig minnist ég hennar. Rúna ólst upp á góðu heimili hjá traustum foreldrum með tveimur eldri systkinum. Þegar ég var 14 ára kom ég til Reykjavíkur til að ganga í skóla og var þá hjá Rósu móðursystur minni og fjölskyldu hennar á Nesveginum. Við Rúna vorum saman í herbergi, hún var orðin dama, sex árum eldri en ég og vann hjá Sambandinu en seinna varð hún flugfreyja. Rúna keypti á mig föt sem ég var mjög ánægð með, þannig var hjartalag hennar, að gleðja með gjöfum en þó gladdi hún aðra mest með návist sinni. Rúna hafði gaman af því að ferðast og hafði farið víða um heiminn. Eftir að hún var gift og flutt til Ameríku kom hún reglulega til Íslands. Þá fórum við mamma í heimsókn til Rósu til að hitta Rúnu eða hún kom til okkar í Garðinn.

Að leiðarlokum þakka ég Rúnu fyrir vináttu hennar og hlýhug alla tíð. Ég votta Einari, Eggerti, Elsu og fjölskyldum þeirra dýpstu samúð mína og fjölskyldu minnar.

Svo viðkvæmt er lífið sem vordagsins blóm

er verður að hlíta þeim lögum

að beygja sig undir þann allsherjardóm

sem ævina telur í dögum.

Við áttum hér saman svo indæla stund

sem aldrei mér hverfur úr minni.

Og nú ertu genginn á guðanna fund

það geislar af minningu þinni.

(Friðrik Steingrímsson.)

Kristjana Vilhjálmsdóttir.