Ber Íslensk aðalbláber voru í boði í matvöruverslunum um helgina.
Ber Íslensk aðalbláber voru í boði í matvöruverslunum um helgina. — Morgunblaðið/Rósa Braga
Nú þegar komið er fram yfir miðjan ágústmánuð eru eflaust margir farnir að líta í kringum sig eftir bláberjum. Sumir eyða löngum stundum í berjamó og tína marga tugi lítra en aðrir láta sér nægja að grípa með sér kassa úr búðinni.

Nú þegar komið er fram yfir miðjan ágústmánuð eru eflaust margir farnir að líta í kringum sig eftir bláberjum. Sumir eyða löngum stundum í berjamó og tína marga tugi lítra en aðrir láta sér nægja að grípa með sér kassa úr búðinni. Um helgina mátti finna íslensk bláber í nokkrum verslunum á höfuðborgarsvæðinu en að sögn starfsmanna voru þau sums staðar fljót að klárast. Kílóverðið af íslenskum berjum í verslunum um helgina var allt frá 2.500 krónum upp í 4.000 krónur og vilja því eflaust einhverjir nýta berin sem hægt er að tína úti í náttúrunni víða um land.

Misgóðar fréttir af sprettunni

„Það eru ekkert sérstaklega góðar horfur á Suður- og Vesturlandi,“ segir Þorvaldur Pálmason berjavinur. Hann heldur úti síðunni berjavinir.com þar sem fréttum af berjasprettu á landinu er safnað saman. Þorvaldur hefur fengið góðar fréttir af sprettu á Vestfjörðum og þá einkum Súðavík og Ísafjarðardjúpi. Þar er meira um aðalbláber en bláber, en þau fyrrnefndu spretta að sögn Þorvaldar fyrr, þurfa minni tíma til að þroskast og eru í eðli sínu mjög harðgerð. Góðar fréttir hafa borist af Austfjörðum, þá sérstaklega af syðstu fjörðunum. Norðurland gæti einnig komið ágætlega út að sögn Þorvaldar. Þrátt fyrir að sprettan virðist ætla að verða minni á Suður- og Vesturlandi í ár hvetur hann þó alla til að kíkja í berjamó. „Það er öllum hollt í góðu veðri,“ segir Þorvaldur og nefnir Heiðmörkina sem ágætis berjamó. larahalla@mbl.is