Einar Ragnarsson fæddist í Stykkishólmi 4. febrúar 1932. Hann lést á líknardeild Kópavogs 29. júlí 2013.

Einar var jarðsunginn frá Stykkishólmskirkju 9. ágúst 2013.

Komið er að kveðjustund. Vinur minn til margra ára er fallinn frá.

Þegar ég kynntist Einari var hann nýfluttur frá Eyjum með fjölskyldu sína. Með okkur tókust góð kynni, sem með árunum þróuðust í ævilanga vináttu.

Saman áttum við góðar stundir, eftirminnilegar veiðiferðir að Selvallavatni og í Baulu. Ekki var alltaf veiðin mikil, en minningarnar eru góðar.

Einar og Rósa ræktuðu garðinn sinn af mikilli natni. Þar var beðið eftir vorinu af mikilli eftirvæntingu og öllu fagnað sem kíkti upp úr moldinni. Þau gerðu garðinn sinn frægan, margir komu til að sjá og skoða, blómin, trén og steinhúsin sem þau gerðu. Allt bar þetta vott mikillar alúðar og snyrtimennsku húsráðenda. Eitt sinn kom ég við hjá þeim og þá sagði Einar „Það voru nú bara 20 kellingar að skoða garðinn hjá okkur í gær“.

Eftir að ég flutti frá Stykkishólmi töluðum við oft saman í síma. Ég spurði frétta og oftast barst talið að gönguferðum, hans uppáhalds gönguleið var með sjónum útundir Hamra. Þá lýsti hann því sem fyrir augu bar. Lýsingarnar voru svo skýrar og myndrænar, á vorin voru það vorfuglarnir, svo kom krían, þegar haustaði komu stóru síldveiðiskipin sem gnæfðu yfir eyjarnar og voru að fylla sig af síld, og mávarnir og súlan fengu líka nægju sína, ég sá fyrir mér æðarfuglinn í hópum á sundum við eyjarnar. Ég átti þess kost að ganga þessa leið með Einari, við tveir saman, gamlir karlar, hann grannur og léttur á sér, en ég þungur og vegamóður. Þegar við komum út að Hömrum settumst við niður og ég fékk að njóta stundarinnar með vini mínum.

Hér skilja leiðir að sinni, en ef til vill sitjum við saman og dorgum í Selvallavatni eða horfum saman út á sjóinn frá Hömrum einhvertímann síðar, hver veit.

Rósa, Nanna, Ragnar, Hafþór og Sólveig, tengdabörn og barnabörn, við Inga sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur við fráfall þessa mæta manns.

Höskuldur (Gulli).