Hæstiréttur Indónesíu staðfesti á fimmtudag dauðadóm yfir Lindsay Sandiford, 57 ára, en hún var handtekin í fyrra þegar hún reyndi að smygla kókaíni að andvirði 2,4 milljóna Bandaríkjadollara til Balí.
Sandiford, sem er breskur ríkisborgari, á nú aðeins tvo kosti í stöðunni; að vefengja hæfi dómaranna eða biðla til forsetans, Susilos Bambangs Yudhoyonos, um náðun.
Bresk yfirvöld segjast munu verða Sandiford innan handar í baráttu hennar en það er afar fátítt að föngum sem hafa verið dæmdir til dauða í Indónesíu takist að fá dóma sína mildaða. Talsmaður breska sendiráðsins í Jakarta sagði að í takt við harða andstöðu breskra stjórnvalda gegn dauðarefsingum myndi sendiráðið taka til skoðunar með hvaða hætti það gæti aðstoðað Sandiford.
Stjórnvöld í Bretlandi hafa þegar lýst yfir áhyggjum af meðferð Sandiford í Kerobokan-fangelsinu á Balí en vísbendingar eru uppi um að henni hafi verið ógnað með byssu og verið meinað um svefn.
Lögregluyfirvöld á Balí halda því fram að Sandiford hafi verið einn af fjórum breskum meðlimum fíkniefnahrings en hún hefur borið því við að hún hafi samþykkt að flytja efnin til að vernda börnin sín, sem hafi verið ógnað.
Beiðni Sandiford um að stjórnvöld í Bretlandi fjármögnuðu vörn hennar var hafnað í apríl síðastliðnum en almenningur hefur lagt baráttu hennar til þúsundir punda. Takist henni ekki að fá dóminn mildaðan verður hún tekin af lífi af byssusveit.