Oddný G. Harðardóttir
Oddný G. Harðardóttir
Vinstri stjórnin sem hækkaði skatta allt síðasta kjörtímabil skartaði mörgum fjármálaráðherrum, hverjum öðrum skattglaðari. Einn þeirra var Oddný G.

Vinstri stjórnin sem hækkaði skatta allt síðasta kjörtímabil skartaði mörgum fjármálaráðherrum, hverjum öðrum skattglaðari. Einn þeirra var Oddný G. Harðardóttir, sem hélt stólnum volgum um hríð fyrir flokkssystur sína, enda fjármálaráðuneytið ekki ætlað til annars en vera æfingabúðir fyrir upprennandi stjórnmálaleiðtoga vinstri manna og vettvangur vegtylluferða sama fólks.

Athygli hefur vakið að sú staðreynd að ríkisstjórnin hefur ákveðið að breyta ekki ákvörðun vinstri stjórnarinnar um að auðlegðarskatturinn yrði tímabundinn hefur kallað á gagnrýni vinstri manna, þar með talið að minnsta kosti eins af fyrrverandi fjármálaráðherrum vinstri stjórnarinnar.

Þetta er ekki aðeins athyglisvert vegna þess að umrædd lög eru verk vinstri stjórnarinnar heldur einnig vegna viðtals Viðskiptablaðsins við Oddnýju í ágúst í fyrra, þegar hún var fjármálaráðherra.

Í viðtalinu sagði Oddný að ákveðin vandamál væru með auðlegðarskattinn. „Hann er þó tímabundinn og ég mun leggja áherslu á að endurnýja hann ekki,“ sagði hún. Þetta er mjög skýrt og á sama hátt töluðu aðrir fulltrúar vinstri stjórnarinnar fyrir kosningar. Og lagasetningin var í samræmi við þessi orð.

Hvers vegna stíga þeir þá fram nú og gagnrýna að þessi vandamálaskattur eigi að fá að falla niður?