Mikil og góð umræða hefur átt sér stað um heilbrigðismál undanfarnar vikur. Þó svo að greina megi nokkurn sérhagsmunaboðskap inni á milli hlýtur almannahagur að skipta hér mestu máli. Það er engin tilviljun að Alþingi hefur fyrir hönd þjóðarinnar sett gæðamál á oddinn eins og fram kemur í fyrstu grein laga um heilbrigðisþjónustu. Þar er kveðið á um að „allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita“. Þetta byggist að sjálfsögðu á því viðhorfi sem Íslendingar virðast almennt sammála um að hér skuli veitt heilbrigðisþjónusta í hæsta gæðaflokki. Í þessum efnum er löngu tímabært að sækja ákveðið fram, til að tryggja gæði þjónustunnar til frambúðar. Sú sókn þarf einkum að beinast að þremur mikilvægum verkefnum en þau eru: Efling gæða- og umbótastarfs, úrbætur í húsnæðismálum háskólasjúkrahússins og breytt fyrirkomulag kjaramála heilbrigðisstétta. Framgangur þessara verkefna þolir enga bið.
Á hverju byggist öryggi sjúklinga?
Sérfræðingar í gæðamálum á alþjóðavísu líta á heilbrigðiskerfi og sjúkrahús sem sérlega krefjandi verkefni og telja jafnan upp nokkur lykilatriði sem einkenna hágæða heilbrigðiskerfi á Vesturlöndum. Á meðal þeirra eru gott aðgengi að hæfum læknum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum, samfella í þjónustu, öryggi, eftirfylgni og persónuleg þjónusta. Þessi grundvallaratriði og fleiri verða ávallt að vera til staðar, en þau byggjast á vönduðum samskiptum, skilvirkum þjónustuferlum og síðast en ekki síst ánægðum starfsmönnum. Þrátt fyrir að flestir séu líklega sammála um þessi atriði gengur misjafnlega að innleiða þá menningu sem þarf til þess að ná þessum markmiðum og er hér um alþjóðlegt vandamál að ræða. Eftir því sem þjónustan verður sérhæfðari reynir meira á sérfræðimenntun og þjálfun starfsmanna, teymisvinnu, tæki, tækni, skilvirka þjónustuferla og síðast en ekki síst sérhæft nútímalegt húsnæði. Öryggi sjúklinga er háð því að öll þessi atriði smelli saman, að efla aðeins eitt þeirra mun aldrei duga og er afar brýnt að yfirvöld átti sig á þessu samspili nú þegar.
Hver er staða gæðamála núna og hvert stefnir?
Margvíslegir mælikvarðar eru til á gæði. Sumir ná til hópa sjúklinga en aðrir til einstaklinga. Grófir gæðamælikvarðar á borð við ungbarnadauða, dánartíðni eftir hjartaáfall eða heilablóðfall, árangur af krabbameinslækningum, blóðbankaþjónustu og tíðni spítalasýkinga benda allir til þess að íslensk heilbrigðisþjónusta standi ágætlega í alþjóðlegum samanburði. Háskólasjúkrahúsið gegnir lykilhlutverki í öllu því starfi sem skapar niðurstöðu ofangreindra mælikvarða og er að auki miðstöð mennta- og vísindastarfs á heilbrigðissviði. Spítalinn og kerfið í heild geta því vel við unað þegar þessi alþjóðlegu viðmið eru höfð til að meta gæði. Hver er þá vandinn? kunna menn að spyrja. Hann er sá að góð staða gæðamælikvarða í dag er afleiðing eflingar málaflokksins fyrir um 30 árum, aðallega varðandi sérfræðimenntun, sérhæfingu heilbrigðisstarfsmanna o.fl. Ekki er von að svo takmörkuð sókn endist lengi, og alls ekki í 30 ár. Merki hnignunar má sjá víða, sérhæfðir starfsmenn eldast, vinnubrögð og menning verða úrelt og húsnæðishörmungina þekkja allir. Þessi óheillaþróun spillir verulega horfum á því að halda uppi gæðum til frambúðar. Framsýni og stefnufestu hefur allt of lengi skort og stefnir í algert óefni í þessum málaflokki, meðal annars með þeim afleiðingum að heilbrigðisstarfsmenn verða sífellt tregari til að helga íslenska kerfinu krafta sína til lengri tíma. Trausta langtímastefnu vantar sárlega með fjárfestingu í gæðum og umbótum að leiðarljósi.
Vaxandi kröfur kalla á ný viðmið og þolinmótt fjármagn
Kröfur almennings um árangur og þjónustu fara vaxandi og nauðsynlegt að bregðast við þeim með innleiðingu annars konar mælikvarða til viðbótar við þá sem fyrr eru nefndir. Í þessum tilgangi hefur Landspítali m.a. tekið upp mælingar sem snúa að þjónustu við einstaka sjúklinga. Mælingar eru gerðar bæði með þjónustukönnun og einnig er tekið við ábendingum, neikvæðum og jákvæðum, og kvörtunum á kerfisbundinn hátt. Fyrirliggjandi gögn benda til þess að alvarleg frávik í meðferð sjúklinga séu ekki fleiri á Landspítala en á bestu sjúkrahúsum í Svíþjóð. Starfsmenn og stjórnendur Landspítala vinna hörðum höndum að því að verja þessa stöðu og sækja fram en það verður sífellt erfiðara með hverju niðurskurðarárinu sem líður. Að auki er unnið að innleiðingu alþjóðlegs verklags við úrvinnslu eftir alvarleg atvik sem byggist meðal annars á hreinskilinni samræðu við sjúklinga og aðstandendur um það sem miður fór í meðferð. Áherslan er á umbætur í starfseminni til framtíðar. Sú áhersla miðar að því að bæta öryggi sjúklinga og þjónustu jafnt og þétt en kasta fyrir róða allri skömm og vömm til þess að tryggja að umræðan haldist ávallt opin. Reynsla fremstu sjúkrahúsa bæði vestan hafs og austan af þessari aðferð er góð en þeir sem leitt hafa slíka vinnu eru allir sammála um að hér sé um mikið þolinmæðisverk að ræða og nefna gjarnan að það taki um 10 ár að fá sjúklinga og starfsmenn til liðs við þetta hugarfar. Landspítali hefur nú hafið þessa metnaðarfullu vegferð og þarf nauðsynlega á fjárhagslegum stuðningi og sameiginlegri framtíðarsýn yfirvalda að halda.
Öryggi sjúklinga til frambúðar er krefjandi verkefni sem þolir enga bið
Jákvætt hugarfar sem reynir að knýja fram stöðugar umbætur er grundvöllur árangurs í gæðamálum. Efling slíks hugarfars í kerfi sem hefur einkennst af forræðishyggju, togstreitu milli stétta, vanþróuðum kjarasamningum og reikandi stefnu yfirvalda, er ögrandi verkefni sem þarf stuðning alls samfélagsins. Menningarbreyting af þessu tagi þarfnast einnig sérstakra fjárframlaga til gæðamála og vísindarannsókna umfram venjulegar fjárveitingar til rekstrar. Margt fleira þarf til þess að tryggja öryggi sjúklinga og góða þjónustu til framtíðar. Okkur sem störfum á Landspítala blöskrar til dæmis sú aðstaða sem við bjóðum sjúklingum okkar upp á. Gamalt, myglað og óhentugt húsnæði þar sem karlar og konur deila herbergjum og salernum í fjölbýli, er með öllu óásættanlegt ástand. Dæmi eru um að bilanir í úreltum og úr sér gengnum tækjabúnaði hafi skert öryggi sjúklinga. Kunnátta, þolinmæði og þrautseigja starfsmanna Landspítala eru miklar og aðdáunarverðar dyggðir og hafa bjargað því sem bjargað varð í eftirleik hrunsins en ekki má ganga of nærri mannskapnum. Verði húsnæði spítalans ekki endurnýjað mun ekki aðeins halda áfram að draga úr þjónustu við sjúklinga, heldur mun einnig verða sífellt erfiðara að tryggja öryggi þeirra í nánustu framtíð, þrátt fyrir mikinn metnað starfsmanna og stjórnenda í umbótastarfi.Sem betur fer hefur nýr heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, komið auga á þessar hættur og fjallað um þær með ábyrgum hætti. Ég tel að fjárfesta þurfi hratt og örugglega í öryggi sjúklinga og er endurnýjun húsnæðis Landspítala efst á blaði. Mannauðurinn í heilbrigðisþjónustunni mun skila okkur áfram veginn til framfara, ef yfirvöld móta skynsamlega stefnu og tryggja fjárveitingar. Umræða er nauðsynleg en klukkan tifar og nú þurfa stjórnvöld að taka ákvarðanir og grípa til aðgerða án tafar.
Höfundur er læknir, framkvæmdastjóri lækninga, Landspítala.