Walesverjinn Gareth Bale er búinn að semja við Real Madrid um kaup og kjör og nú er aðeins beðið eftir því að Tottenham og Real Madrid nái samkomulagi um kaupverðið. Fréttavefur BBC greindi frá þessu. Ljóst er að með sölunni á Bale verður sett nýtt met en talið er að Real Madrid muni þurfa að greiða á bilinu 85-90 milljónir punda fyrir kantmanninn skæða. Hann verður þar með dýrasti fótboltamaður sögunnar.
Eyjólfur Sverrisson valdi nákvæmlega sama hóp og síðast fyrir leik Íslands gegn Kasakstan í undankeppni Evrópumóts 21-árs landsliða karla í knattspyrnu sem fram fer á Kópavogsvelli 10. september. Ísland er með fullt hús stiga eftir þrjá leiki. Hópinn má sjá á mbl.is.
Körfuknattleiksmaðurinn Arnþór Freyr Guðmundsson , sem hefur leikið með Fjölni til þessa, hefur samið við spænska félagið Albacete um að spila með því á komandi keppnistímabili. Karfan.is greinir frá þessu.
Fyrr í sumar samdi Arnþór við Hauka um að leika með þeim í vetur en nú verður ekkert af því að hann fari í Hafnarfjörðinn. Arnþór er 22 ára og hefur spilað með meistaraflokki Fjölnis frá 2007.
Albacete leikur í fjórðu efstu deild á Spáni, svokallaðri EBA-deild, og hafnaði þar í 9. sæti B-riðils á síðasta tímabili.
Spænska knattspyrnuliðið Bilbaon hafnaði tilboði Manchester United í miðjumanninn Ander Herrera en talið er að United hafi boðið 30 milljónir punda í leikmanninn. Forráðamenn Bilbao segja að ekki komi til greina að selja Herrera.