Þjálfari Freyr Alexandersson nýr landsliðsþjálfari kvenna.
Þjálfari Freyr Alexandersson nýr landsliðsþjálfari kvenna. — Morgunblaðið/Ómar
Það kemur í hlut 31 árs gamals Breiðhyltings, Freys Alexanderssonar, að taka við hinu farsæla kvennalandsliði Íslands í knattspyrnu af Sigurði Ragnari Eyjólfssyni. Þetta var tilkynnt á fréttamannafundi í gær. Freyr er þjálfari 1. deildarliðs Leiknis R.

Það kemur í hlut 31 árs gamals Breiðhyltings, Freys Alexanderssonar, að taka við hinu farsæla kvennalandsliði Íslands í knattspyrnu af Sigurði Ragnari Eyjólfssyni. Þetta var tilkynnt á fréttamannafundi í gær. Freyr er þjálfari 1. deildarliðs Leiknis R., síns uppeldisfélags, og mun halda því starfi áfram. KSÍ hafði fyrst samband við hann eftir leik Leiknis við Grindavík á laugardaginn fyrir viku, og hlutirnir voru fljótir að gerast eftir það.

Freyr er næstyngsti þjálfarinn sem tekur við landsliðinu en áður hafði Jörundur Áki Sveinsson tekið við því árið 2000, þá 29 ára gamall.

Þó að Freyr sé aðeins 31 árs hefur hann þegar náð góðum árangri sem þjálfari en hann var ráðinn til Vals árið 2008 og stýrði liðinu með Elísabetu Gunnarsdóttir tímabilið 2009. Hann varð svo aðalþjálfari liðsins og stýrði því 2010 og 2011, en á þessum þremur árum vann Valur Íslandsmeistaratitilinn þrisvar og bikarmeistaratitilinn tvisvar. Hann gerðist svo aðstoðarþjálfari karlaliðs Vals en hélt aftur heim í Breiðholtið fyrir yfirstandandi tímabil.

Freyr talinn næstbesti kostur

KSÍ leitaði fyrst til Þorláks Árnasonar sem er nýbúinn að gera Stjörnuna að Íslandsmeisturum með afgerandi hætti en liðið er enn með fullt hús stiga í Pepsi-deildinni. Þorlákur vildi hins vegar ekki taka við liðinu. Sambandið leitaði því næst til Freys sem kveðst afar spenntur fyrir verkefninu en hann er ráðinn til tveggja ára og stýrir því Íslandi í undankeppni HM sem hefst strax 26. september.

Freyr gaf lítið fyrir umræðu um bréfaskriftir leikmanna landsliðsins til KSÍ, sem svo mikið hafa verið í umræðunni, og sagði þau mál öll að baki. Nú vildi hann einbeita sér að næsta leik liðsins, gegn Sviss, þar sem hann mun væntanlega hafa Heimi Hallgrímsson, aðstoðarþjálfara karlalandsliðsins, sér innan handar. Aðstoðarmenn Freys til lengri tíma verða svo ráðnir síðar. sindris@mbl.is