Svanur Guðmundsson
Svanur Guðmundsson
Eftir Svan Guðmundsson: "Þörf er á 2-3.000 íbúðum inn á íbúðamarkaðinn á hverju ári og er eftirspurnin mest eftir litlum ódýrum íbúðum."

Undanfarið hefur verið mikið rætt um vanda á leigumarkaði, vanda sem felst í miklum skorti á húsnæði til leigu. Það sem er í boði er auk þess dýrt bæði fyrir stúdenta og launafólk. Þverstæðan felst svo í því að leigan er ekki nægjanlega há fyrir húseigandann.

Þetta ástand má að stórum hluta rekja til bankahrunsins, stjórnvalda og bæjarfélaga sem hafa síðan aukið á hann. Lítið sem ekkert hefur verið byggt af húsnæði síðastliðin ár. Rúmlega 1.000 íbúðir voru kláraðar á árunum 2009 til 2012 en á sama tíma voru að koma inn á húsnæðismarkaðinn stórir aldurshópar ungs fólks sem vill fara í sitt eigið húsnæði. Það er ekki hægt nema með því að byggja eða leigja. Þörf er á 2-3.000 íbúðum inn á íbúðamarkaðinn á hverju ári og er eftirspurnin mest eftir litlum ódýrum íbúðum. Við hrunið leystu bankar og Íbúðalánasjóður mikið magn eigna til sín og margar íbúðanna fara ekki í leigu og standa auðar. Mikill fjöldi lítilla eigna hefur farið í leigu til ferðamanna hér í borginni sem eykur enn á vandann hér í miðborg Reykjavíkur því miðsvæðis í Reykjavík var lítið byggt frá 2004 til 2007 á sama tíma og eftirspurnin hefur vaxið. Fleiri ferðamenn, fjölgun háskólanema og aukinn rekstrarkostnaður bifreiða hefur aftur skapað enn meiri samkeppni um húsnæði nálægt skóla eða vinnustað.

Lánsfé er dýrt og verðbólga of mikil

Ráðamenn hamra sumir á því að bankarnir fari aftur á hausinn og landið þar með, þannig að tiltrú almennings er ekki það mikil að einstaklinga langi til að fjárfesta í húsnæði með 25 til 40 ára láni því hrunið hefur kennt okkur að fólk sem skuldar er ekki frjálst.

Fyrir hrun hækkaði lóðaverð mikið sem leiddi til hækkunar íbúðaverðs eins og aðkoma banka inn á húsnæðismarkaðinn í ágúst 2004 með háu lánshlutfalli og ódýrum erlendum lánum. Núna er erfiðara að fjármagna húsnæði til kaups og lóðaverð er enn hátt, þar sem sveitarfélög geta ekki afskrifað verðmæti lóða í sínum reikningum, einnig eru lánsveð bönnuð eða ábyrgð þriðja aðila við íbúðakaup. Ný byggingareglugerð hefur verið sett sem gerir kröfu um stærri rými, aukna einangrun og með algildri hönnun ef lyfta er í húsinu eins og það heitir í nýju reglugerðinni. Þessar auknu kröfur leiða til meiri byggingarkostnaðar og nefna sumir allt að 20% hækkun byggingarkostnaðar.

Ein leið til að mæta þeim alvarlega bráðavanda sem við stöndum frammi fyrir er að reisa smáíbúðir, eitthvað í líkingu við það sem Bloomberg, borgarstjóri New York, gerði. Hann lét hanna íbúðir sem eru 300 ferfet (33 fm) að stærð þrátt fyrir að byggingarreglugerð segði til um að íbúðir mættu ekki vera minni en 400 ferfet (44 fm). Leita þarf leiða til að gera íbúðirnar eins ódýrar og mögulegt er svo fólk hafi efni á að búa í þeim og reisa sem fyrst.

Í Tromsö í Noregi voru 1.000 stúdentar á biðlista eftir húsnæði árið 2012. Þar var vandinn leystur m.a. með því að slá upp stúdentaíbúðum úr innréttuðum gámum sem slegið var upp á örskömmum tíma. Það er skylda ríkis og borgar að leysa þennan vanda sem allra fyrst.

Eins og ég hef rakið er vandinn hér á landi alvarlegur. Nauðsynlegt er að finna skjótvirkar lausnir til að mæta þeim húsnæðisvanda sem hér hefur skapast vegna skorts á hentugu húsnæði. Við getum litið til þess hvernig aðrir hafa leyst sambærilegan vanda eins og ég hef nefnt. Hættan er sú að hér séu að skapast þær aðstæður að unga fólkið neyðist til að flýja land vegna skorts á hentugu húsnæði.

Höfundur er formaður Félags leigumiðlara.

Höf.: Svan Guðmundsson