Sundurslitinni 10. umferð Pepsi-deildar karla í fótboltanum lauk loks í gærkvöld en það tók tæpa tvo mánuði að ljúka henni. Þar með er hægt að stilla upp úrvalsliði Morgunblaðsins úr umferðinni, sem sjá má hér til hliðar.

Sundurslitinni 10. umferð Pepsi-deildar karla í fótboltanum lauk loks í gærkvöld en það tók tæpa tvo mánuði að ljúka henni.

Þar með er hægt að stilla upp úrvalsliði Morgunblaðsins úr umferðinni, sem sjá má hér til hliðar.

Bestu leikmenn umferðarinnar voru danski Þórsarinn Mark Tubæk, sem fékk 2 M fyrir frammistöðu sína þegar Akureyrarliðið vann ÍA, 2:1, á Akranesvelli miðvikudaginn 3. júlí, og KR-ingurinn Óskar Örn Hauksson sem fékk 2 M fyrir sitt framlag í sigrinum á Valsmönnum, 3:1, í Vesturbænum í gærkvöld.

Einn leikmaður í úrvalsliði 10. umferðar er horfinn af landi brott en Giuseppe Funicello, ítalski bakvörðurinn sem lék með Þór og stóð sig vel á Akranesi, lék aðeins þrjá leiki til viðbótar og gekk til liðs við finnska liðið Jaro í lok júlí.

Tveir aðrir leikir í umferðinni fóru fram 3. júlí. FH sigraði Fram 2:1 í Kaplakrika og Víkingur og Fylkir gerðu markalaust jafntefli í Ólafsvík.

Fjórði leikurinn fór fram 22. ágúst þegar ÍBV og Keflavík skildu jöfn í Eyjum, 1:1, og svo voru það loks leikur KR og Vals, og sigur Breiðabliks á Stjörnunni, 2:1, sem bundu endahnútinn á þessa langdregnu umferð.

KR 32 stigum á undan ÍA

Heil umferð er spiluð í dag þar sem allir leikirnir hefjast klukkan 17 og 18. Oftast hefði verið litið á viðureign ÍA og KR sem stórleik en nú skilja 32 stig að þessi gömlu stórveldi, þar sem Skagamenn eru á hraðleið niður í 1. deild og KR-ingar á fullu gasi í átt að meistaratitlinum. FH, Stjarnan og Breiðablik mæta liðum sem eru í fallslagnum en Þór og Fram mætast í slag liða sem reyna að snúa við slöku gengi síðustu leikja og koma sér af hættusvæðinu vs@mbl.is