Heilsugæsla Fleiri heimilislæknar fara á eftirlaun en koma nýir inn. Tveir til þrír nýir læknar bætast við fyrir hverja sjö til átta sem fara á eftirlaun.
Heilsugæsla Fleiri heimilislæknar fara á eftirlaun en koma nýir inn. Tveir til þrír nýir læknar bætast við fyrir hverja sjö til átta sem fara á eftirlaun. — Morgunblaðið/Eggert
Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is „Þetta er viðvarandi ástand sem mun ekki leysast með einum fingursmelli,“ segir Lúðvík Ólafsson, lækningaforstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, um skort á heimilislæknum.

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is „Þetta er viðvarandi ástand sem mun ekki leysast með einum fingursmelli,“ segir Lúðvík Ólafsson, lækningaforstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, um skort á heimilislæknum.

Hann bendir á að skortur á skýrari framtíðarsýn um hlutverk heilsugæslunnar innan heilbrigðiskerfisins, svo og stjórn þess, spili þar inn í. „Það er ekki nægileg eining um tilveru heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Lúðvík.

Fleiri heimilislæknar fara á eftirlaun en koma nýir inn. Þetta ástand hefur ríkt um nokkurt skeið. Ekki er útlit fyrir að þetta breytist á næstunni.

Ef miðað er við að heimilislæknar láti af störfum 65 ára þá eru það sjö til átta læknar á ári. Á móti tveimur til þremur nýjum sem koma inn. Ef heimilislæknar vinna til sjötugs þá hætta fimm til sex á ári.

Til að halda í horfinu þyrftu að koma inn tíu heimilislæknar á ári.

Fjölgun í sérnámi

Alma Eir Svavarsdóttir, aðjúnkt við læknadeild Háskóla Íslands og kennslustjóri framhaldsnáms í heimilislækningum, tekur í sama streng. Hún segir ástæðurnar fyrir því vera aðallega fjórar; í fyrsta lagi er ekki jafnvægi í endurnýjun í starfinu, í öðru lagi þarf að vinna upp mörg ár þegar fáir fóru í þetta sérnám, í þriðja lagi er fólkinu í landinu að fjölga, í því fjórða hafa sumir heimilislæknar valið það að vinna erlendis þar sem kjör eru betri.

Hún segir að það ætti að vera forgangsverkefni í heilbrigðismálum landsins að tryggja öllum fastan heimilislækni. „Þó er ljós punktur í þessu grafalvarlega ástandi og það er sá gífurlegi áhugi sem hefur orðið á þessu spennandi, gefandi og fjölbreytta námi,“ segir Alma.

Heimilislæknar tóku á sig kjaraskerðingu eftir hrun, sem hefur ekki gengið til baka. Margir hafa brugðið á það ráð að vinna í útlöndum í vaktafríum eða launalausu leyfi til að drýgja tekjurnar. Heimilislæknar sem starfa annars staðar á Norðurlöndunum eru með allt að þrefalt hærri laun, að sögn Lúðvíks.

Sérnámsstöðum fjölgað á heilsugæslunni

Ekki stendur til að auglýsa eftir heimilislæknum erlendis þar sem tungumálið gegnir lykilhlutverki í heimilislækningum, í samskiptum við sjúklinga.

Til að reyna að manna stöðurnar á heilsugæslunni hefur sérnámsstöðum verið fjölgað. Það þýðir að nemar í framhaldsnámi í heimilislækningum sinni sjúklingum. „Að auki auglýsum við stöður og höfum allar klær úti, eftir sem áður er þörfin meiri en við náum að uppfylla,“ segir Svanhvít Jakobsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

44 í heimilislækningum

Nú eru 44 sérnámslæknar í framhaldsnámi í heimilislækningum. Þetta er margra ára nám. Eftir hefðbundið nám í læknisfræði sem tekur sex ár, tekur við kandidatsárið og loks fjögurra og hálfs til fimm ára sérnám. Margir taka þrjú ár hér heima og ljúka náminu erlendis, vinna þar í nokkur ár og koma svo aftur heim, þ.e.a.s. ef þeir koma þá yfirleitt aftur.