Hjólhýsalíf OMAM í Los Angeles í maí sl. Stund milli stríða á tónleikaferð hljómsveitarinnar um Norður-Ameríku.
Hjólhýsalíf OMAM í Los Angeles í maí sl. Stund milli stríða á tónleikaferð hljómsveitarinnar um Norður-Ameríku.
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Hljómsveitin Of Monsters and Men (OMAM) lýkur langri og strangri tónleikatörn með útitónleikum á túninu við Vífilsstaði í Garðabæ í kvöld og er aðgangur að þeim ókeypis. Hleypt verður inn á túnið kl.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Hljómsveitin Of Monsters and Men (OMAM) lýkur langri og strangri tónleikatörn með útitónleikum á túninu við Vífilsstaði í Garðabæ í kvöld og er aðgangur að þeim ókeypis. Hleypt verður inn á túnið kl. 17 og hefst dagskráin kl. 18 með tónleikum Hide Your Kids, Moses Hightower og Mugison en OMAM hefur leik kl. 20.40. OMAM hefur farið víða um heim með tónleikahaldi síðustu 18 mánuði eða þar um bil, allt frá því plata hennar, My Head is an Animal , komst í sjötta sæti bandaríska breiðskífulistans Billboard 200 í fyrravor. Hófst þá mikið ævintýri sem sér ekki fyrir endann á hjá tónlistarmönnunum ungu. Platan hefur selst í tæplega 1,7 milljónum eintaka á heimsvísu, hljómsveitin troðið upp á stórum t´ónlistarhátíðum á borð við Coachella og Glastonbury, leikið í gríðarvinsælum sjónvarpsþáttum, m.a. spjallþætti Jays Lenos og lög hennar verið notuð í auglýsingar fyrir Coca Cola og iPhone, svo fátt eitt sé nefnt.

„Maður finnur fyrir því að maður er orðinn svolítið lúinn, stirður hér og þar en við erum yfirhöfuð í góðu lagi,“ segir Ragnar Þórhallsson, gítarleikari og söngvari í OMAM, spurður að því hvort hljómsveitin sé ekki orðin dauðþreytt af öllu tónleikahaldinu.

– Hvað eru þetta orðnir margir tónleikar?

„Ég held að þeir séu orðnir 231, 105 á þessu ári,“ svarar Ragnar.

Mikil framför

– Eruð þið ekkert orðin leið á lögunum af My Head is an Animal , er ykkur ekki farið að klæja í fingurna að leika nýtt efni, ný lög?

„Jú, það er ekki hægt að segja annað. Maður er kominn með nóg í bili. Þetta eru búnir að vera rosa margir tónleikar og við erum bara með eina plötu og maður þarf alltaf að spila öll lögin. Okkur er farið að klæja í fingurna að gera meira og við erum byrjuð að semja. Það er ekki langt komið, við höfum náttúrlega ekki fengið neina pásu en förum að skella okkur í þetta núna.“

– Það er mikil þjálfun fólgin í því að vera síspilandi á tónleikum. Hefur ykkur ekki farið mikið fram?

„Rosalega mikið, held ég. Þetta er fyrsta hljómsveitin sem ég hef verið í, hafði ekki spilað á mörgum tónleikum áður þannig að ég er búinn að þroskast gífurlega mikið á þessu eina og hálfa ári og við öll, held ég, sem heild.“ Ragnar bætir því við að hljómsveitin spili lögin með öðrum hætti nú en áður, leiki þau m.a. hægar. „Maður gerir þetta öðruvísi núna, búinn að finna sig betur.“

– Nú eruð þið saman nær öllum stundum. Er vinskapurinn enn í góðu lagi? Ekkert orðin þreytt hvert á öðru?

„Nei, það er ótrúlegt. Við erum búin að vera heima núna í nokkra daga og höfum hist eiginlega á hverjum degi. Við erum orðin eins og fjölskylda, maður þarf á hinum að halda, annars leiðist manni bara.“

– Þið stefnið að því að taka upp aðra plötu á næsta ári, ekki satt?

„Jú, það er planið. Við erum með gróft plan, ætlum að semja í lok þessa árs og byrjun þess næsta og reyna að taka upp plötuna sem fyrst, þegar við erum orðin ánægð með efnið. Ég veit ekki hvenær það verður nákvæmlega á næsta ári en vonandi sem fyrst,“ segir Ragnar. Fyrirtækið Universal mun gefa út þá plötu, líkt og þá fyrstu.

Með frjálsar hendur

– Nú eruð þið á samningi hjá risafyrirtæki. Fáið þið algjört listrænt frelsi á næstu plötu hvað laga- og textasmíðar varðar eða er fyrirtækið með puttana í því? Er t.d. gerð krafa um að þið breytið ekki um stíl?

„Nei, alls ekki. Við erum hjá Universal Republic sem er minna fyrirtæki innan Universal, var meira indí-fyrirtæki og er búið að halda strúktúrnum þannig að þetta er ekki svo stórt samfélag og ekki svo stór vinnustaður. Það hefur alla vega ekkert verið minnst á það við okkur, við höfum frjálsar hendur og gerum það sem við viljum. Ég held að þeir treysti okkur af því að fyrri platan hefur gengið vel. Það er engin ástæða fyrir þá að vera með puttana í þessu og ég efast um að það verði þannig,“ segir Ragnar og bætir því við að hljómsveitin hafi passað sig á því, þegar hún samdi við fyrirtækið, að hafa valdið sín megin.

– Þið eruð búin að spila í hátt í þrjátíu löndum. Hvar hefur þér þótt skemmtilegast að spila?

„Það var rosa gaman að fara til Brasilíu. Þar er blóðheitt fólk sem er vant að vera á fótboltaleikjum, kann að syngja með og hreyfa sig. Maður finnur það, þegar maður fer til þessara heitu landa, að fólk er svolítið klikkaðra á tónleikum, meira líf í því. Ef maður fer til kaldari landa er fólk kannski meira að hlusta og minna að dilla sér,“ segir Ragnar.

Brjóstahaldari handa Nönnu

– Þið hljótið að kunna margar sögur eftir þetta allt saman. Hefur ekki margt skrítið og óvænt komið upp á?

„Jú, örugglega en mér dettur aldrei neitt í hug undir pressu. Þetta líf er ekkert eins og maður heldur, svo sem, þetta er rosa mikið bara að ferðast um í stálsívalningi milli landa og borga. Það eru ekki mörg eftirpartí og þess háttar.“

– Enginn brjálaður aðdáandi sem hefur stokkið á þig?

Ragnar hlær. „Við fengum reyndar fyrsta brjóstahaldarann upp á svið í Portúgal, ef ég man rétt. Við strákarnir vorum náttúrlega mjög ánægðir með það, höfðum aldrei fengið brjóstahaldara upp á svið og svo tókum við hann upp og þá var hann til Nönnu, það var miði í honum til hennar. Það var ekkert gaman,“ segir Ragnar og hlær og á þar við Nönnu Bryndísi Hilmarsdóttur, söngvara og gítarleikara en auk þeirra Ragnars eru í hljómsveitinni Kristján Páll Kristjánsson, Arnar Rósenkranz Hilmarsson og Brynjar Leifsson.

– Þið hafið leikið um allan heim en hljómsveitir sem farið hafa víða segja margar hverjar að það sé alltaf skemmtilegast að spila heima. Á það við um ykkur?

„Já, ég held það. Það er bæði skemmtilegast og mest stressandi. Maður spilar kannski í Berlín og er svo farinn eitthvert annað næsta dag. Þegar maður er að spila heima getur maður ekki falið sig en það er alltaf mjög gaman.“

– Og þegar tónleikarnir eru búnir geturðu farið heim í mat til mömmu.

„Já og það er ekki slæmt, í íslenskt lambakjöt.“