Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur gefið það út að makrílveiðar handfæra- og línubáta verði frjálsar til 20. september. Er það gert þrátt fyrir að búið sé að veiða nær allan útgefinn makrílkvóta sem gefinn var út fyrir línu- og handfæraveiðar á árinu.
Spurður um ástæður þess að ákveðið hafi verið að lengja tímabilið og veiða umfram útgefinn kvóta segir Jóhannes Guðmundsson, skrifstofustjóri í ráðuneytinu, að með þessu sé verið að koma til móts við smábátasjómenn. „Fyrstu árin, 2010 og 2011 var makrílveiðin dræm. Þá var ráðstafað til smábáta 2-3000 tonnum bæði árin. Fyrra árið veiddust ekki nema um 179 tonn og annað árið veiddust 314 tonn. Helgaðist það af því að menn voru ennþá að læra á þessar veiðar,“ segir Jóhannes. Hann segir að smábátasjómenn hafi náð almennilegum tökum á veiðunum í fyrra. „Það vaknaði mikill áhugi hjá smábátasjómönnum þegar menn sáu hve vel gekk í fyrra. Í ár eru því margfalt fleiri sem sóttu um og fengu leyfi til veiða sem hafa líka gengið vel í ár,“ segir Jóhannes.
vidar@mbl.is