Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Það er mikilvægt að einstakir borgarhlutar séu sjálfbærir um þjónustu og að íbúar geti sinnt daglegum nauðsynjum í nærumhverfi sínu,“ segir Berghildur Erla Bernharðsdóttir, formaður Íbúasamtaka Grafarholts.
„Íbúar hér þurfa margir hverjir að fara nokkurn spöl til og frá vinnu. Þegar heim er komið eigum við hins vegar ekki að þurfa svo mikið að sækja út fyrir hverfið. Börn og ungmenni eiga að geta sótt alla íþróttaiðkun í skólahverfinu sínu og í næsta nágrenni á líka vera heilsugæsla, bókasafn og tómstundastarf.“
Kristnitaka og landafundir
Alls 5.338 búa í dag í Grafarholti í Reykjavík; aldamótahverfinu á hæðinni þar sem hitaveitutankarnir eru áberandi kennileiti og sjást víða að. Uppbyggingin hófst í kringum 2000 – árið þegar þess var minnst með margvíslegu móti að þúsund ár voru liðin frá því norrænir menn fundu Ameríku og Íslendingar tóku kristni. Í samræmi við það fengu göturnar nöfn. Þúsöld, Guðríðarstígur og Grænlandsleið eru götunöfn sem vísa til landafunda – en um kristnisöguna vitna t.d. Kirkjustétt, Prestastígur, Biskupsgata og Gvendargeisli.Skv. tölum Hagstofu Íslands voru Grafhyltingar 243 árið 2002, en vesturhluti holtsins byggðist fyrst. Íbúum fór svo að fjölga að ráði um 2005, en í lok þess árs voru hverfisbúar orðnir 3.624. Þarna er sem sagt fólk hvað úr sinni áttinni – kraumandi pottur strauma í mannlífinu. Deigla sem smám saman verður að heildstæðu samfélagi fólks, sem í upplýstu samfélagi gerir kröfur um góða þjónustu, t.d. af hálfu borgaryfirvalda, og vinnur hagsmunum sínum og sjónarmiðum brautargengi.
Börnin njóta frjálsræðis
Íbúasamtök Grafarholt eru grasrótarfélag, stofnað 2008. Í sjálfboðnu starfi undir þess merkjum hefur m.a. verið unnið að eflingu íþrótta- og tómstundastarfs, samtökin hafa staðið fyrir skemmtunum svo sem á þrettándanum og hverfishátíðinni Í Holtinu heima , sem var nú í ágúst. Samtökin hafa fengið kjörna fulltrúa á vettvangi borgarinnar til skrafs og ráðagerða og eiga jafnframt áheyrnarfulltrúa í hverfisráði.„Grafarholt er eins og lítið þorp úti á landi,“ segir Berghildur Erla sem er fædd og uppalin á Akureyri. Landsbyggðarbarn í bænum, eins og svo margir fleiri. Eiga þær rætur sjálfsagt einhvern þátt í því hve vel henni líkar búsetan.
Frábært hjá Fram
„Hér er náttúran í göngufæri og golfvöllur í túnjaðrinum. Það er virkilega gott að ala upp börn og ungmenni í hverfinu og þau njóta frjálsræðis sem er ekki endilega fyrir hendi á þéttbýlli svæðum,“ segir BerghildurVorið 2008 samdi Reykjavíkurborg við Knattspyrnufélagið Fram um uppbyggingu á íþróttasvæði í Úlfarsárdal. Hrunið breytti þeim áformum. Fram er komið með hluta starfsemi sinnar í hverfið og í dag lætur nærri að um 1.000 ungmenni úr hverfinu taki þátt í starfi félagsins. „Framarar hafa að mínu mati staðið sig frábærlega við erfiðar aðstæður þar sem félagið er í raun að sinna tveimur hverfum og þarf t.d. að skipta æfingum á milli Safamýrar og Úlfarsárdals. Yngri flokkar Fram hafa t.d. náð frábærum árangri á síðustu misserum. Það sást einnig vel á síðustu hverfishátíð hversu rótgróið félagið er orðið í hverfinu; þegar litið var yfir mannfjöldann var blái og hvíti liturinn allsráðandi.“
Síðasta haust kynnti Reykjavíkurborg ný uppbyggingaráform í Úlfarsárdal sem voru ekki í takt við áðurnefndan samning frá 2008. Því mótmæltu íbúasamtök, m.a. í Grafarholti, sem og Framarar. Borgin ákvað í framhaldinu að skipa vinnuhóp með hagsmunaaðilum.
Undir sama þaki
Staðan á málinu í dag er að nú í september verður auglýst tveggja þrepa hönnunarsamkeppni um uppbyggingu á samþættu skóla- og frístundastarfi, íþróttamannvirkjum, sundlaug og menningar- og bókasafni í Úlfarsárdal. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg gæti samkeppnin tekið rúmlega hálft ár og í kjölfarið hefst uppbygging í Úlfarsárdalnum.„Við í Grafarholti höfum lagt mikla áherslu á að aðgengi að mannvirkjunum verði gott fyrir íbúa í Grafarholti og Úlfarsárdal þar sem þetta er talið eitt og sama hverfið. Nú er bara að vona að þessi áform haldist og þá má búast við glæsilegustu byggingu af þessum toga hér á landi,“ segir Berghildur sem rómar grunnskólana í hverfinu. Þeir eru tveir; báðir heildstæðir, það er ná frá 1. til 10. bekkjar. Í Ingunnarskóla við Maríubaug, sem hóf starfsemi árið 2001, eru rúmlega 450 nemendur af vestari hluta holtsins. Sæmundarskóli, sem er við Gvendargeisla á eystri hluta holtsins, hóf starfsemi árið 2007 og í skólanum, sem tekinn var í notkun fyrir tveimur árum, eru 400 nemendur.
Telur úthverfið samkeppnishæft
• Fermetri í fjölbýli á 243 þúsund kr. „Ég flutti í Grafarholtið í maí 2004 þegar ég keypti mína fyrstu íbúð. Í raun kom aldrei annað til greina en úthverfi. Í fyrsta lagi vildi ég vera í nýlegu húsnæði, verð á eignum hér var hagstætt en ekki síst fannst mér spennandi að flytja í hverfi þar sem ég gæti mögulega haft áhrif við uppbyggingu umhverfis og innviða,“ segir Monika Hjálmtýsdóttir, fasteignasali hjá Kaupsýslunni. Fyrirtækið er í Grafarholti og þekkir Monika því ágætlega til fasteigna í hverfinu.„Miðað við aldur eigna og gæði hverfisins, sem er tiltölulega fámennt og í nálægð við náttúruna, er Grafarholt vel samkeppnishæft við önnur sambærileg úthverfi á höfuðborgarsvæðinu.“
Miðbærinn er miklu dýrari
Árið 2012 var meðalverð á íbúðum í fjölbýli í Grafarholti 243 þúsund krónur pr. fermetra, sem var 5% hækkun milli ára. Ef Grafarholt er borið saman við Salahverfi í Kópavogi, sem byggt var á svipuðum tíma, þá var meðalfermetraverð í fjölbýli þar í fyrra 261 þúsund krónur pr. m². Hafði hækkað um tæp 8% frá árinu á undan. Verðið er heldur hærra á sérbýlum í Grafarholti samanborið við önnur hverfi. Árið 2012 var verðið 252 þúsund pr m² en meðalverðið hefur hækkað mjög lítið miðað við sérbýli í öðrum sambærilegum úthverfum, sem Monika telur athyglisvert.„Ef við berum aftur á móti saman verð á íbúðum í Grafarholti og íbúðum miðsvæðis í Reykjavík er munurinn mikill, enda ólík gildi sem ráða myndun markaðsverðs,“ segir Monika. Bendir hún á að í fyrra hafi fermetraverð í fjölbýli í miðborginni verið komið yfir 300 þús. kr. og hækkað um tæp 14% frá árinu á undan.
Nálægð við náttúru
„Það er því hægt að kaupa fasteignir í Grafarholti, rétt eins og í öðrum úthverfum, á mun hagstæðara verði en niðri í bæ,“ segir Monika sem telur nálægð við náttúruna hlunnindi þeirra sem búa í hverfinu. „Við höfum Úlfarsfell að ganga á, getum farið að veiða á Reynisvatni og notið náttúrunnar hér allt í kring. Þá finnst mér mikil samkennd á holtinu og mér líður eins og í litlu samfélagi úti á landi.“Gagnrýnt hefur verið hversu lítil þjónusta er í Grafarholti en Monika bendir þar á að margt sé í bígerð, svo sem uppbygging í tengslum við Fram í Úlfarsárdalnum. Gangvirki hverfisins sé að styrkjast. „Ég hef þá tilfinningu að margir af þeim sem hafa fest rætur í hverfinu vilji hvergi annars staðar vera. Sérstaklega á þetta við um barnafólk. Sjálf hef ég góða reynslu af bæði leikskólanum Reynisholti og Sæmundarskóla og hef bara heyrt af almennri ánægju með aðra skóla í hverfinu. Þeir hafa verið í mótun og nýjar og ferskar hugmyndir ráðið ríkjum. Vissulega hefur ýmislegt vantað upp á þjónustu hér en mikið hefur unnist, sem ég þakka íbúum hverfisins sem hafa m.a. veitt borgaryfirvöldum gott aðhald.“ sbs@mbl.is
Krakkarnir ganga örugga leið
„Grafarholtið og mannlíf hér hefur goldið þess hvað uppbygging á allri íþróttaaðstöðu fyrir börnin hefur gengið hægt,“ segir Þórhildur Þorgeirsdóttir, hjúkrunarfræðingur og leiðsögumaður. Þau Hallgrímur Lárusson, eiginmaður hennar, búa með þremur börnum sínum þangað sem þau fluttu fyrir tíu áru. Þeim líkar vel á Holtinu.
„Þetta var mjög hrátt þegar við komum hingað árið 2003. Lóðin var bara grófjöfnuð og flest á uppbyggingarstigi. En það hefur ræst vel úr öllu. Hér er net góðra göngu- og hjólreiðasíga um gróin svæði og tengingar í allar áttir. Krakkarnir ganga örugga leið í skóla og hér að húsabaki er opið svæði með trjágróðri sem gefur ýmsa möguleika,“ segir Þórhildur.
En hvað má betur gera? „Úthverfin vilja gjarnan gleymast í starfi borgarinnar. Við erum aftarlega í röðinni þegar kemur að snjómokstri á veturna, grasflatir hér eru kannski ekki slegnar nema einu sinni til tvisvar á sumri og njólinn er sums staðar festa rætur.“
Umræðan við eldhúsborðið
Umræða á fésbókarsíðunni Ég er íbúi í Grafarholti. Rebekka Ósk SváfnisdóttirÉg á yndislega vinkonu sem er gift og á tvö börn, þau vantar leiguhúsnæði sem fyrst, má vera 3-4 herbergja. Þau eru róleg, reglusöm og í fastri vinnu með engin gæludýr.
Dagný Hrönn Bjarnadóttir
Vil endilega fá KFUK og KFUM í hverfið fyrir krakkana! KFUK/M vill koma í hverfið en fá ekki aðstöðu í kirkjunni eða hjá Fram! Veit einhver um húsnæði?
Katrín Ólafsdóttir
Hæhæ. Okkur vantar góða barnapíu sem gæti passað strákana okkar af og til. Þeir eru 13 mánaða og þriggja og hálfs árs.
Hrönn Helgadóttir
Kór Guðríðarkirkju óskar eftir söngfólki. Hinn 3. september næstkomandi hefst nýtt starfsár.
Guðbjörg Lilja
Hæ hæ, er ekki eitthvert íþróttafélag .. sem vill dósir eða flöskur?
Byggðin stendur undir meiri starfsemi
„Að undanförnu höfum við hjónakornin leitt hugann að húsnæðismálum. Í þeim vangaveltum hefur útgangspunkturinn verið sá, ef af verður, að vera áfram í þessu hverfi. Þar ræður miklu að drengirnir okkar tveir eru ánægðir í góðum skóla og nauðsynleg þjónusta er skammt undan. Allt þetta nauðsynlega er í nágrenninu eða á leiðinni til og frá vinnu,“ segir Þórir Jóhannsson, eigandi og framkvæmdastjóri Stúdíó Sýrlands. Þau Þórdís Geirsdóttir búa við Kristnibraut en vinna bæði í Laugarnesinu.„Við fluttum hingað árið 2005 um það leyti sem eldri strákurinn okkar fæddist. Við höfum því farið með þeim í gegnum pakkann hér í hverfinu, það er leikskólann Maríuborg, Ingunnarskóla og strákarnir hafa æft íþróttir með Fram. Okkur hefur líkað starfið þar mjög vel,“ segir Þórir sem telur mikilvægt að fá frekari þjónustustarfsemi í hverfið. Við Kirkjustéttina sé söluturn, bakarí, rakarastofa, pöbb, frímúrarastúka og sjálfsafgreiðslustöð fyrir bensín. Um 5.000 manna byggð standi undir slíkri starfsemi og jafnvel meiru.
„Í raun eru nokkrir meginpunktar hér, það er Kirkjustétt og þjónustusvæðið í kringum skólana, útivistarsvæðið við Reynisvatn og Leirdalur og nýja Framsvæðið í Úlfarsárdal. Hver þessara staða hefur sérstöðu en sérstaklega tel ég brýnt að bæta íþróttaaðstöðuna í Úlfarsárdalnum því áætlanir um uppbyggingu á íþróttamannvirkjum fyrir hverfið hafa ekki staðist. Boðið er upp á aðstöðu sem er vart bjóðandi – hvað þá börnum um hávetur þegar veðrið er hvað verst.“