Ragnar Guðbjörnsson fæddist 18. apríl 1956. Hann lést á Landspítalanum 12. september 2013.

Útför Ragnars var gerð frá Fossvogskapellu 19. september 2013.

Það er komið að kveðjustund, mikið var nú falleg athöfnin þín, þú varst svo friðsæll og hamingjusamur á útfarardaginn þinn. Minnist Ragga alltaf þegar hann kom í heimsókn til mömmu. Hann var alltaf svo glaður og kom alltaf með penna fyrir mömmu og Agnesi, mjög duglegur að safna fyrir þær, og ekki má nú gleyma Eyjafréttum, það mátti sko ekki klikka. Þó svo að það hafi kannski ekki verið mikið samband hjá okkur Ragga þótti mér alltaf rosalega vænt um hann og gaman að vera í kringum hann.

Sofðu vært hinn síðsta blund,

uns hinn dýri dagur ljómar,

Drottins lúður þegar hljómar

hina miklu morgunstund.

Heim frá gröf vér göngum enn.

Guð veit, hvort vér framar fáum

farið héðan, að oss gáum,

máske kallið komi senn.

Verði, Drottinn, vilji þinn,

vér oss fyrir honum hneigjum,

hvort vér lifum eða deyjum,

veri hann oss velkominn.

(Vald. Briem)

Hvíldu í friði, kæri frændi.

Þóra Kristín Hjaltadóttir.

Elsku frændi, þá er þinn tími kominn. Ekki átti ég von á því að það væri í síðasta skiptið sem ég myndi hitta þig á miðvikudaginn uppi á spítala, þú sem varst svo hress. Þú varst svo duglegur að hringja eða koma í heimsókn til Keflavíkur og alltaf komstu færandi hendi með Eyjafréttir, penna og alltaf eitthvað fyrir litlu börnin, litabækur eða blöðrur. Það verður skrítið að fá ekki lengur símhringingu frá þér eða heimsókn. Hvíldu í friði, elsku frændi.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(Vald. Briem)

Þín frænka,

Guðný Adolfsdóttir.

Nú er eitt æviskeið á enda runnið. Æviskeið einstaklings sem í vöggugjöf fékk ekki útdeilt þeim lífsþægindum sem við flest öll sækjumst eftir. Í gegnum þetta æviskeið fór Ragnar Guðbjörnsson með sérstakri reisn til æviloka. Ragnar sem í þessu jarðvistarlífi var talinn þroskaheftur og sem slíkur settur á vissan bás var í raun og veru miklu stærri einstaklingur en sem virtist. Það var eins og bak við alla ásýnd leyndist afar þroskuð sál full af lífsgleði og kærleika.

12. september sl. barst mér tilkynning að systursonur minn Ragnar hefði látist um morguninn. Hann hafði verið lagður inn á hjartadeild Landspítalans deginum áður, þar sem hann hafði verið greindur með æðastíflu. Aðgerðin tókst vel og hafði Ragnar haft orð á því hversu harður karl hann hafði verið að standa þetta af sér. Svo kom bakslag. Ragnar var mun verr farinn en menn héldu.

Þegar ég lít til baka þá er eitt æviskeið ekki langt. Mér eru minnisstæð uppvaxtarár Ragnars, fyrst á heimili foreldra minna og síðan þegar foreldrar Ragnars hófu búskap. Það sem einkenndi litlu fjölskylduna voru þétt fjölskyldubönd þar sem allir lögðust á eitt að standa sig. Foreldrarnir sem voru talin þroskaheft reyndu að standa sig af fremsta megni og sýna umheiminum að þau gætu fyllilega staðið á eigin fótum. Þau sóttu vinnu bæði í fiskverkun og kjötvinnslu. Einnig bar Guðbjörn faðir Ragnars út póst um áratuga skeið. Þótt húsakostir væru naumir þá var snyrtimennska ávallt allsráðandi. Fjölskyldan sýndi og sannaði að hún gat komist af í lífsbaráttunni. Þessa eiginleika tileinkaði Ragnar sér. Hann fór víða og kynntist mörgum. Hann var ákaflega ræktarsamur við foreldra sína og sérstaklega frændrækinn. Þegar við komum saman var hann að segja frá frændfólki sem hann umgekkst. Frændfólki sem ég þekkti eingöngu við lestur ættfræðibóka. Eftir lát foreldra sinna kappkostaði Ragnar að halda eigið heimili. Á reglulegum fresti lét hann okkur vita hvernig honum vegnaði. Þá sagði hann okkur frá því helsta sem á hans daga hafði drifið og hvernig hann væri að standa sig. Ef eitthvað bjátaði á reyndum við að hughreysta hann og hvetja til dáða.

Ragnar var mikið snyrtimenni. Heimili hans bar þess sterk merki að allt væri í röð og reglu og allir hlutir á réttum stað. Ragnar fylgdist mjög vel með flestum nýjungum á sviði tölvu og símabúnaðar. Hann lagði ríka áherslu á að vera með nýjustu græjurnar.

Sökum fötlunar þá bauðst Ragnari aldrei tækifæri á starfi á almennum vinnumarkaði sem var hans æðsti draumur. Ragnar vildi ekki vera neinn minnimáttar maður.

Fyrir utan hefðbundin blaðburðastörf og fjáröflunarstarfa ýmissa félagasamtaka varð hann að reiða sig á verndaða vinnustaði. Síðasta ár var hann í sjálfboðastarfi hjá Rauða krossi Íslands. Þar leið honum vel. Eins og hann sagði þar var honum sýnd virðing.

Þegar Ragnar kveður þetta lífsskeið og hverfur á vit eilífðarinnar þá er ég fullviss að hann hefur staðist prófið. Hann er kominn aftur í hóp framgenginna ástvina og ættingja og bið ég algóðan guð að gæta hans vel.

Kristinn Ragnarsson.