Dómkirkjan Kynnist fólki og aðstæðum þess í öllum sínum fjölbreytileika: ungu fólki með spurningar, eldra fólki sem sækir í félagsskap og líka þeim sem koma til okkar á sínum stærstu stundum, segir Laufey Böðvarsdóttir.
Dómkirkjan Kynnist fólki og aðstæðum þess í öllum sínum fjölbreytileika: ungu fólki með spurningar, eldra fólki sem sækir í félagsskap og líka þeim sem koma til okkar á sínum stærstu stundum, segir Laufey Böðvarsdóttir. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Mér þykir alltaf jafngaman að ganga héðan heiman frá mér úr gamla skipstjórahverfinu í Vesturbænum niður í bæ. Mæta fólki og bjóða góðan daginn, heyra umferðarnið og njóta iðandi mannlífs.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Mér þykir alltaf jafngaman að ganga héðan heiman frá mér úr gamla skipstjórahverfinu í Vesturbænum niður í bæ. Mæta fólki og bjóða góðan daginn, heyra umferðarnið og njóta iðandi mannlífs. Koma svo niður á Austurvöll þar sem andstæður mannlífsins sjást glöggt. Útigangsmenn í Fógetagarðinum og þingmenn á þönum. Inn í þennan klið óma svo klukkuslögin frá kirkjunni sem í mínum huga er miðpunkturinn í Kvosinni,“ segir Laufey Böðvarsdóttir, nýr kirkjuhaldari Dómkirkjunnar í Reykjavík.

Hlustað á útvarpsmessuna

Laufey tekur við starfinu af Ástbirni Egilssyni sem verið hefur kirkjuhaldari um árabil. Síðustu árin hefur Laufey nokkuð komið að starfi Dómkirkjunnar og líkað vel. „Félagsskapurinn er skemmtilegur og boðskapur prédikana hvers sunnudags hefur skírskotun í daglegu lífi,“ segir Laufey og heldur áfram:

„Ég hef alltaf verið kirkjulega sinnuð, eins og ég kalla það. Er alin upp á sveitabæ þar sem er kirkjusetur og hér heima hef ég jafnan haft opið fyrir útvarpsmessuna á sunnudagsmorgnum. Í starfi kirkjuhaldara kynnist maður svo fólki og aðstæðum þess í öllum sínum fjölbreytileika: ungu fólki með spurningar, eldra fólki sem sækir í góðan félagsskap og líka þeim sem koma til okkar á sínum stærstu stundum bæði í gleði og sorg.“

Erlendis eru kirkjur vinsælir ferðamannastaðir. Í Kaupmannahöfn koma margir við í Heilagsandakirkjunni, í París er Notre Dame, fræg dómkirkja er í Köln í Þýskalandi og svo Péturskirkjan í Róm.

„Í dagsins önn koma margir við í Dómkirkjunni til að eiga þar stund með sjálfum sér og hugleiða tilveruna. Fólk kemur bæði til að þakka og að biðja, eiga sína kyrrðarstund, Íslendingar sem útlendingar.“

Raisa var fjölfróð heimskona

Laufey er frá Búrfelli í Grímsnesi og í gegnum það tengist hún einni frægustu kirkjuheimsókn Íslandssögunnar. Þannig var að í tengslum við leiðtogafundinn fræga árið 1986 kom þangað í heimsókn Raisa Gorbatsjeva, eiginkona Sovétleiðtogans, og gekk til kirkju og kynnti sér lífið í sveitinni.

„Pabbi lék fyrir hana á orgelið og sagði sögu kirkjunnar og fleira. Þetta er mér allt mjög minnisstætt; þegar kyrrlátt líf á sveitabæ var orðið í brennidepli heimsviðburðar. Foreldrar mínir, Böðvar og Lísa Thomsen, fengu teketil sem fallega vinargjöf frá Raisu, sem kom mér fyrir sjónir sem fjölfróð heimskona,“ segir Laufey.