Tryggvi V. Líndal
Tryggvi V. Líndal
Eftir Tryggva V. Líndal: "Oft virðast skemmtilegustu stjórnmálamennirnir einnig vera rithöfundar og skáld."

Oft virðast skemmtilegustu stjórnmálamennirnir einnig vera rithöfundar og skáld. Dæmi: Alþingismaðurinn Þráinn Bertelsson var skemmtilegur í skoðunum, en um leið einn af okkar fyndnustu pistlahöfundum, handritshöfundum, sagnaskáldum og ævisagnariturum. Davíð Oddsson var skemmtilegur í tilsvörum; en sá var líka smásagnahöfundur og leikskáld. Þá má nefna að Ragnar Arnalds þótti víst ekki tiltakanlega skemmtilegur í eigin persónu, en hann var leikskáld og prósaskáld. Svava Jakobsdóttir hefði hugsanlega ekki komist á þing ef hún hefði ekki áður verið orðin frægt sagnaskáld og leikskáld. Annar „skemmtilegur“ stjórnmálamaður var Hannes Hafstein, fyrsti ráðherrann okkar; en hann var ekki bara annálað glæsimenni heldur líka annálað ljóðskáld.

Á undan honum var Grímur Thomsen, konungkjörinn þingmaður. Það hefur svo hjálpað til; sérstaklega í minningunni; að hann gerðist eitt af okkar bestu ljóðskáldum. Þá má ekki gleyma Páli Ólafssyni þingmanni, en hann var eitt af okkar ástsælustu vísnaskáldum. Þá er að nefna Snorra Sturluson, Sturlungaaldarinnar. Hann var skemmtilegur fræðarithöfundur og kvæðasmiður. Á erlendum vettvangi má nefna hliðstæð dæmi: Obama Bandaríkjaforseti skrifaði barnabók og fræðslubækur. Forseti Kína sem heimsótti Ísland, Jiang Zemin, var ljóðskáld. Adóvan Karadzic, forseti Júgóslavíu, varð ljóðskáld og skáldsagnahöfundur. Saddam Hussein, forseti Íraks, reyndi að verða leikritaskáld og ljóðskáld. Ho Chi Minh, leiðtogi í Norður-Víetnam í Víetnam-stríðinu, fékkst við ljóðagerð. Maó Zedong, formaður kommúnista Kína, fékkst við máltækjaskrif og Bandaríkjaforsetarnir Clinton, Nixon og Kennedy skrifuðu athyglisverðar minningabækur.

Winston Churchill hinn enski, þótti snjall ræðumaður, en var einnig fær fræðslurithöfundur.

Andstæðingur hans, Adolf Hitler, var, þrátt fyrir óhæfuverk sín, hæfileikaríkur ræðumaður á köflum; og áhugalistmálari og áhugapíanóleikari; þótt hann hafi verið svo lélegur bókarhöfundur, að vænlegast þótti að gefa ekki síðari áróðursbókina hans út! Þá er að nefna Benito Mussolini. En það mun kannski hafa hjálpað honum að fanga hug ítalsks almennings, að hann hóf feril sinn sem skáldsagnahöfundur!

Benjamín Disraeli, hinn enski, var skáldsagnarithöfundur einnig; auk ráðherradómsins; á nítjándu öld. Abraham Lincoln, Bandaríkjaforseti, var innblásinn ræðumaður. Næst má nefna að Lúðvík sextándi, Frakklandskonungur, þótti merkilegur stílisti. Einnig var Elísabet fyrsta Englandsdrottning, sitt eigið hirðskáld.

Enn lengra aftur í sögunni má nefna rómverska keisarann Markús Árelíus; en hann er einkum frægur síðan sem ritgerðasmiður um menningarmál. Þá má nefna hinn illræmda en litríka keisara Neró, en hann gaf sig að leiklist, tónlist, ritlist og dansi. Ekki má svo gleyma Júlíusi Sesar, fyrsta keisara Rómaveldis, en hann var hæfileikaríkur mælskumaður og annálaritari.

Auk þessara má nefna aðra íslenska rithöfunda í nútímanum sem hafa nýlega setið á Alþingi; svosem: Birgittu Jónsdóttur, ljóðskáld með meiru. Einnig Guðmund Steingrímsson, pistlahöfund, skáldsagnahöfund og tónlistarmann. Þá Bjarna Harðarson, skáldsagna- og ævisagnahöfund. Svo Sigmund Erni Rúnarsson, ljóðskáld og prósaskáld. Og loks Ólínu Þorvarðardóttur, fræðsluritahöfund, ævisagnahöfund og ljóðskáld. En allt er þetta til marks um mikilvægi sköpunarmáttarins í bókmenntum og listum fyrir stjórnmálamenn. Ekki að þeir hafi allir verið skemmtilegir í yfirborðslegum skilningi þess orðs, heldur væri nær að segja að þeir hafi ýmist verið: áhugavekjandi, hrífandi, hnýsilegir, furðulegir, skondnir, fróðlegir, stórbrotnir, eða jafnvel óhugnanlegir.

Ég vil klykkja út með því að vitna í eitt erindið í ljóðabálki mínum Harðstjóraljóðum; en þar segir svo um Neró Rómarkeisara:

Hvort sem Neró brenndi Róm

viljandi eður ei

(og Pál postula með)

var hann nógu smekklaus

til þess og trúandi til alls!

Hann sem spilaði á vatnsorgel

og lét drepa önnur skáld!

Höfundur er skáld og menningarmannfræðingur.