Til umhugsunar „Sagan sem hér er sögð er um verðugt og mikilvægt mál og sendir áhorfandann hugsandi heim.“
Til umhugsunar „Sagan sem hér er sögð er um verðugt og mikilvægt mál og sendir áhorfandann hugsandi heim.“ — Ljósmynd/Eddi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Harmsaga eftir Mikael Torfason. Leikarar: Elma Stefanía Ágústsdóttir og Snorri Engilbertsson.

Harmsaga eftir Mikael Torfason. Leikarar: Elma Stefanía Ágústsdóttir og Snorri Engilbertsson. Leikmynd og búningar: Eva Signý Berger, tónlist: John Grant, hljóðmynd: Kristinn Gauti Einarsson, lýsing: Magnús Arnar Sigurðarson, dramatúrg: Halldór Halldórsson. Leikstjóri: Una Þorleifsdóttir. Frumsýning í Kassanum í Þjóðleikhúsinu 20. september 2013.

Í Harmsögu er lýst átökum hjóna sem enda með morði en það er nokkuð sem „venjulegu fólki“ finnst fjarlægt. Markmiðið með sýningunni er sjálfsagt meðal annars að leiða áhorfendum fyrir sjónir að morð er kannski ekki eins fjarlægt og margur telur enda er höfð hliðsjón af málum úr íslenskum samtíma. Til er til dæmis hæstaréttardómur um nokkurra ára gamalt morðmál sem svipar að nokkru leyti til þeirra atburða sem lýst er í verkinu.

Harmsaga er eðlilega engin gleðipilla enda er verið að fjalla um alvarlegt og jafnvel hættulegt efni. Sigrún og Ragnar eru ungt par í miklum vanda. Ásakanirnar ganga á milli þeirra en ómögulegt er, eins og gjarnan er fyrir þann sem fylgist með, að dæma um hvort annað þeirra hafi meira til síns máls en hitt. Parið virðist skilið að skiptum og því er erfitt að sjá til dæmis að maðurinn hafi einhverja kröfu á konuna. Stóra vandamálið er hins vegar að þau geta hvorki verið saman né verið skilin. Þau eru föst í einhverju millibilsástandi og staðan versnar bara.

Til mótvægis við alvarlegan ágreining, heiftúðugt rifrildi og sorg parsins unga er sáldrað inn atburðum frá gleðilegri tíma. Þannig fær áhorfandinn stöku sinnum smálausn frá hrikalegum átökunum. Parið tekur meðal annars dans sem það gæti hafa undirbúið fyrir eigið brúðkaup. Í öðru atriði fara þau Sigrún og Ragnar yfir gjafaloforð vina í brúðkaupi, en á slíkum tímum virðist að sjálfsögðu annað óhugsandi en að framtíðin verði hamingjurík. Þessi leiftur hefðu að mínu mati mátt vera heldur fleiri og jafnvel dýpri.

Verkið fer allan tímann fram í rými sem er íbúð þeirra hjónanna. Þar er eldhús, anddyri, svefnrými og í bakherbergi má stundum heyra í börnum sem við sjáum ekki en höfum alveg ágæta tilfinningu fyrir. Undir öllu er svo glansandi svart gólf. Sviðsmyndin þjónar verkinu vel. Sama er að segja um búningana.

Leikararnir eru einungis tveir. Snorri Engilbertsson leikur Ragnar og Elma Stefanía Ágústsdóttir leikur Sigrúnu. Snorri er að mínu mati einn af efnilegustu leikurum í sínum aldurshópi og eflist með hverju verki. Elma Stefanía dregur einnig upp góða mynd af Sigrúnu.

Það er ekki einfalt mál að fjalla þannig að trúlegt sé um vaxandi átök í gölluðu sambandi sem enda með morði. Texti verksins virkaði þjáll og uppbyggingin allgóð. Verkið er að miklu leyti byggt á endurtekningu með stigmögnun. Undir lokin er keyrt í botn og það skilar sér út í sal.

Tónlistin eftir John Grant sem flutt er í verkinu er sterk og studdi að mínu mati við stemninguna í verkinu. Grant hefur ótrúlega dramatíska rödd og andinn í lögunum átti vel við þann drunga sem hér hvíldi yfir öllu.

Harmsaga var upphaflega flutt sem útvarpsleikrit á síðasta ári. Mér finnst jákvætt að athyglisvert verk sé með þessum hætti fært á leiksvið. Þetta sýnir meðal annars mikilvægi þess að við eigum öflugt Útvarpsleikhús sem gefur innlendum höfundum tækifæri til að fá verk sín flutt.

Sagan sem hér er sögð er um verðugt og mikilvægt mál og sendir áhorfandann hugsandi heim.

Sigurður G. Valgeirsson

Höf.: Sigurður G. Valgeirsson