Áslandsskóli Í samþykkt fræðsluráðs er því beint til bæjarráðs að gert verði ráð fyrir fjárveitingu í viðauka við fjárhagsáætlun bæjarins.
Áslandsskóli Í samþykkt fræðsluráðs er því beint til bæjarráðs að gert verði ráð fyrir fjárveitingu í viðauka við fjárhagsáætlun bæjarins. — Morgunblaðið/Þorkell
Fræðsluráð Hafnarfjarðar samþykkti í gær að hefja undirbúning að byggingu annars áfanga Áslandsskóla sem felur í sér fjórar almennar kennslustofur og íþróttasal með viðeigandi aðstöðu.

Fræðsluráð Hafnarfjarðar samþykkti í gær að hefja undirbúning að byggingu annars áfanga Áslandsskóla sem felur í sér fjórar almennar kennslustofur og íþróttasal með viðeigandi aðstöðu.

Í samþykkt fræðsluráðs er því beint til bæjarráðs að gert verði ráð fyrir fjárveitingu í viðauka við fjárhagsáætlun bæjarins 2013 sem nægir til hönnunar og annars undirbúnings verksins. „Gert verði í fjárhagsáætlun fyrir árið 2014 ráð fyrir að byggingunni verði lokið á því ári. Gerður er fyrirvari um að samkomulag um framkvæmdina náist við FM-hús sem eru lóðarhafar.“

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fræðsluráði bentu á að tillagan væri nánast sama tillagan og formaður fræðsluráðs lagði fram á síðasta hausti, en sú tillaga hefði ekki komið til framkvæmda. Í hennar stað hefðu þrjár færanlegar stofur verið reistar á lóð Áslandsskóla sem kostuðu hátt í hundrað milljónir króna. „Tillagan er illa ígrunduð og hvorki liggja fyrir fjárhagslegar forsendur, samningar við eigendur né upplýsingar um hvernig fjármagna eigi fyrirhugaðar framkvæmdir.“

Þurfa að semja við FM-hús

Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna létu bóka að í fyrsta skiptið væru nú lagðar fram tillögur um veitingu fjármagns vegna síðari hluta byggingar Áslandsskóla og staðið við áform um framtíðaruppbyggingu hverfisins.

Húsnæði skólans er í eigu FM-húsa ehf., sem og lóðin við skólann þar sem fyrirhugað er að byggja við skólann. Bæjaryfirvöld hafa lýst því yfir að þau vilji ekki að viðbyggingin verði í einkaframkvæmd. Áður en framkvæmdir geta hafist þarf því að nást samkomulag við FM-hús.