Aðgerð Kenískir hermenn taka sér stöðu í verslunarmiðstöðinni. Herinn sagðist í gær hafa náð tökum á ástandinu og að þeir árásarmenn sem enn væru á lífi hefðust við í nokkrum verslunum. Verslunarmiðstöðin er vinsæl meðal sterkefnaðra Keníabúa en margir verslunareigenda eru ísraelskir.
Aðgerð Kenískir hermenn taka sér stöðu í verslunarmiðstöðinni. Herinn sagðist í gær hafa náð tökum á ástandinu og að þeir árásarmenn sem enn væru á lífi hefðust við í nokkrum verslunum. Verslunarmiðstöðin er vinsæl meðal sterkefnaðra Keníabúa en margir verslunareigenda eru ísraelskir. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hólmfríður Gísladóttir holmfridur@mbl.

Hólmfríður Gísladóttir

holmfridur@mbl.is

Þykkur, svartur reykur steig upp frá Westgate-verslunarmiðstöðinni í Naíróbí í gær og byssuhvellir og sprengingar bergmáluðu um bygginguna, á meðan lokabardagi milli sómalskra íslamista og kenískra hermanna stóð yfir. Að minnsta kosti 62 lágu í valnum og 63 var saknað eftir hryðjuverkaárás Shebab-liða, sem réðust inn í verslunarmiðstöðina á laugardag, köstuðu handsprengjum og skutu á starfsfólk og viðskiptavini hverrar verslunar á fætur annarri.

„Við höldum að aðgerðin verði brátt yfirstaðin,“ sagði Joseph Ole Lenku, innanríkisráðherra Kenía, við blaðamenn fyrir utan verslunarmiðstöðina í gær. „Við höfum náð stjórn á öllum hæðum. Hryðjuverkamennirnir eru á flótta og í felum í einhverjum verslunum... það er engin leið til að sleppa,“ sagði hann.

Um 200 særðust í árásinni en keníski herforinginn Julius Karangi sagði að byssumennirnir hefðu verið af ýmsu þjóðerni. Meðal liðsmanna Shebab, sem er sómalskt rótarskot al-Kaída, eru margir erlendir bardagamenn, sumir með tvöfaldan ríkisborgararétt. „Þeir eru frá ólíkum löndum. Við höfum nægar upplýsingar um að þetta sé hnattræn hryðjuverkastarfsemi,“ sagði Karangi.

Engin kona meðal árásarmanna

Fréttir höfðu borist af því að meðal árásarmanna væri hvít kona en innanríkisráðherrann sagði að allir árásarmennirnir væru karlmenn. Sumir þeirra hefðu hins vegar klæðst kvenmannsfatnaði. Á Twitter sagðist lögregla hafa handtekið tíu einstaklinga sem yrðu yfirheyrðir vegna árásarinnar. Þá sagði varnarmálaráðuneytið að þrír hryðjuverkamenn hefðu verið drepnir og nokkrir aðrir særst.

Samkvæmt heimildarmönnum AFP tóku ísraelskir hermenn þátt í aðgerð keníska hersins, sem og fulltrúar Bretlands og Bandaríkjanna. Meðal þeirra sem létu lífið af völdum árásarmannanna voru fjórir Bretar, franskar mæðgur sem voru skotnar til bana á bílastæði við verslanamiðstöðina, 29 ára kanadískur diplómati, ástralskur arkitekt, hollenskur heilbrigðisstarfsmaður og Kofi Awoonor, eitt ástsælasta ljóðskáld Gana.

Réttarhöldum yfir Ruto frestað

Sérfræðingar segja umfjöllun fjölmiðla um árásina ómetanlega auglýsingu fyrir Shebab, sem hafa verið á undanhaldi í Sómalíu. Samtökin hafa sagt að með árásinni hafi þau viljað refsa Kenía fyrir hernaðaríhlutun í Sómalíu, þar sem Afríkubandalagið heyr baráttu við íslamistana. Samtökin voru neydd til að yfirgefa Mogadishu, höfuðborg Sómalíu, í ágúst 2011 og Kismayo í september 2012. „Þetta sýnir að þau hafa ennþá mátt og geta framkvæmt umtalaða hryðjuverkaárás utan landamæra Sómalíu,“ segir Alex Vines, sérfræðingur hjá rannsóknar- og ráðgjafarfyrirtækinu Chatham House í Lundúnum.

Alþjóðaglæpadómstóllinn í Haag frestaði í gær réttarhöldum yfir varaforseta Kenía, William Ruto, í eina viku til að hann gæti gert ráðstafanir vegna atburðarins í heimalandinu. Ruto er sakaður um að hafa staðið að baki öldu ofbeldis sem gekk yfir Kenía í kjölfar kosninga í landinu árin 2007 og 2008, þar sem yfir þúsund létu lífið og hundruð þúsunda neyddust til að flýja heimili sín.