Raufarhöfn Sex sjávarþorp eru tilgreind í auglýsingu Byggðastofnunar.
Raufarhöfn Sex sjávarþorp eru tilgreind í auglýsingu Byggðastofnunar. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Byggðastofnun hefur auglýst eftir samstarfsaðilum um nýtingu 1.800 þorskígildistonna viðbótaraflaheimilda. 1.450 tonn eru í þorski, 236 tonn í ýsu, 50 tonn í steinbít og 602 tonn í ýsu. Umsóknarfrestur er til 7.

Byggðastofnun hefur auglýst eftir samstarfsaðilum um nýtingu 1.800 þorskígildistonna viðbótaraflaheimilda. 1.450 tonn eru í þorski, 236 tonn í ýsu, 50 tonn í steinbít og 602 tonn í ýsu. Umsóknarfrestur er til 7. október og er reiknað með að úthlutun ljúki í október.

Um er að ræða viðbót við rúmlega 6.800 þorskígildistonna byggðakvóta sem sjávarútvegsráðherra úthlutar. Þá eru tekin til hliðar 2.360 þorskígildistonn í bætur vegna skerðinga á innfjarðarækju og hörpudiski og í potti vegna línuívilnunar eru samtals tæplega 6.400 tonn af þorski, ýsu og steinbít. Í strandveiðum má veiða á handfæri allt að 8.600 lestum samtals af óslægðum botnfiski og loks má nefna að 300 tonn af þorski eru tekin frá vegna frístundaveiða.

Í alvarlegum vanda

Tilgangur 1.800 tonna viðbótarkvótans er að styðja byggðarlög í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Lögum var breytt í þessa veru á sumarþingi og gildir þetta ákvæði í fimm ár. Byggðastofnun hefur mótað ákveðin viðmið um úthlutun þessara veiðiheimilda og er meginmarkmiðið að auka byggðafestu í viðkomandi sjávarbyggðum.

Í því skyni er stefnt að uppbyggingu í sjávarútvegi sem skapar eða viðheldur sem flestum heilsársstörfum fyrir bæði konur og karla við veiðar, vinnslu og afleidda starfsemi í viðkomandi sjávarbyggðum. Jafnframt að stuðla að sem öflugastri starfsemi í sjávarútvegi til lengri tíma og draga sem mest úr óvissu um framtíð sjávarbyggðanna.

Eftir greiningarvinnu stofnunarinnar er auglýst eftir samstarfsaðilum á Breiðdalsvík, Drangsnesi, Flateyri, Raufarhöfn, Suðureyri og Tálknafirði og verða 4-6 byggðir valdar. M.a. verður byggt á trúverðugum áformum um útgerð, vinnslu sjávarafurða eða aðra starfsemi, sem bestri nýtingu þeirra veiðiheimilda sem fyrir eru í byggðarlaginu, öflugri starfsemi til lengri tíma sem dregur sem mest úr óvissu um framtíðina og traustri rekstrarsögu forsvarsmanna umsækjanda, segir m.a. í auglýsingu Byggðastofnunar.