BMW i3 er nýr frá grunni og byggir ekki á öðrum bílum BMW.
BMW i3 er nýr frá grunni og byggir ekki á öðrum bílum BMW.
Norðmenn eru fremstir í heimi í notkun rafbíla. Og þeir virðast hafa tröllatrú á hinum nýja rafbíl BMW i3.

Norðmenn eru fremstir í heimi í notkun rafbíla. Og þeir virðast hafa tröllatrú á hinum nýja rafbíl BMW i3. Þannig höfðu um miðjan september á áttunda hundrað Norðmanna lagt inn pöntun í eintak af þeim bíl án þess að hafa svo mikið sem séð hann því fyrsta eintakið er ekki væntanlegt til Noregs fyrr en í nóvember.

Verðmiðinn á BMW i3 er 237.100 norskar krónur, eða sem svarar til ríflega 4,8 milljóna íslenskra króna. Það er sérstakt við bílinn að hann er að miklu leyti smíðaður úr koltrefjaefnum sem lengst af hafa einungis verið notuð til smíði á keppnisbílum í formúlu-1 og dýrum sportbílum. Ástæðan er sú að þetta efni er léttara en stál og kemur það sér vel fyrir drægi rafbílsins.

Algjörlega nýr frá grunni

BMW i3 er algjörlega nýr bíll frá grunni og ekki byggður upp úr neinum öðrum smíðisbíl BMW eins og svo algengt er. Rafgeymarnir eru í bílnum miðjum, eins lágt og unnt er, en fyrir bragðið verður þyngdarmiðja BMW i3 lægri en venjulegra bíla. Heildarþungi bílsins er innan við 1.250 kíló og þyngd hans dreifist jafnt á báða öxla. Drifið er á afturhjólum og á aðeins 7,5 sekúndum má koma honum úr kyrrstöðu í 100 km/klst hraða.

Rafmótorar i3-bílsins skila 170 hestöflum og 250 Newtonmetra togi. Að sögn BMW er drægi bílsins um 160 km við venjulegan akstur.

agas@mbl.is