Sigþrúður Kristín Gunnarsdóttir fæddist á Ísafirði 20. febrúar 1948. Hún lést á heimili sínu í Kópavogi 12. september 2013.

Foreldrar Sigþrúðar voru hjónin Sigríður Margrét Steindórsdóttir, fædd í Ísafjarðarsýslu 26. nóvember 1921, d. 5. mars 1984 og Gunnar Tryggvi Sigtryggsson, fæddur í Ytri-Skálavík, N-Ísafjarðarsýslu 18. nóvember 1911, d. 29. janúar 2005. Systkini Sigþrúðar eru Guðrún Gunnarsdóttir, f. 19. október 1944, búsett á Ísafirði og Gunnar Armenistis Gunnarsson, f. 11. júní 1955, búsettur í Svíþjóð.

Þann 3. desember 1966 giftist Sigþrúður eftirlifandi eiginmanni sínum, Jóni Óskari Carlssyni, f. 2. janúar 1946. Synir þeirra eru: 1) Róbert Örn, f. 11. janúar 1964. Dætur hans með fyrrverandi eiginkonu sinni, Aðalheiði Rúnarsdóttur, eru: a) Elsa Ruth, f. 6. apríl 1989, sonur hennar er Trausti Snær Bjarkason, f. 30. september 2009 og b) Lilja Ragna, f. 16. apríl 1991, í sambúð með Jóhannesi Bjarna Bjarnasyni, dóttir þeirra er Emilía Rós, f. 2. desember 2012. 2) Karl Ómar, f. 19. ágúst 1965, kvæntur Berglindi Tryggvadóttur, f. 24. júní 1965. Börn þeirra eru: a) Jón Óskar, f. 6. september 1992, unnusta hans er Hulda Viktorsdóttir, b) Sunna Björk, f. 1. febrúar 1999 og c) Sóley Edda, f. 1. febrúar 1999.

Sigþrúður bjó í Bolungarvík til sjö ára aldurs og flutti þá til Reykjavíkur með fjölskyldu sinni vegna veikinda föður síns. Ung stofnuðu Sigþrúður og Jón Óskar heimili og eignuðust syni sína tvo. Hún starfaði ýmist heima eða við hin ýmsu verslunarstörf, bæði í tískuvöruverslunum og matvörubúðum, auk þess sem hún starfaði við kynningar. Í seinni tíð tók hún fram pensilinn og eftir hana liggja fjölmörg glæsileg verk.

Útför Sigþrúðar verður gerð frá Árbæjarkirkju í dag, 24. september 2013, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku mamma, það er sárt að missa þig frá okkur á besta aldri. Við vitum ekki hvenær kallið kemur en við breytum engu þar. Nú þegar ég hef áttað mig er ljúfsárt en gott að minnast þín sem listskapandi, stílfagurrar, snyrtilegrar en umfram allt músíkelskandi mömmu. Snyrtimennskan sem fylgdi þér verður lengi í minnum höfð. Þú varst alltaf tilbúin til að hlusta og gefa góð ráð, það var gaman þegar stelpurnar mínar töluðu um hvað það væri gott að fara í hádegishléinu í skólanum til ömmu. Þær áttu svo góða trúnaðarkonu og vinkonu í þér sem ég er ævinlega þakklátur fyrir. Eitt var alveg öruggt að ef að maður kom í heimsókn þá varstu með músík í gangi, þú nærðist á fallegum lögum og textum og áttir þitt uppáhald í íslenskum flytjendum en þó sérstaklega í Mannakornum. Músíkin og öll fallegu málverkin sem þú gafst mér lifa og munu minna mig á allar góðu stundirnar því þær eru svo dýrmætar. En góð minning um góða og kærleiksríka mömmu lifir í hjarta mínu. Megi Guð almáttugur vera með okkur öllum, hvíl í friði elsku mamma.

Þinn

Róbert Örn.

Elsku elsku mamma. Það er erfitt að kveðja þig svona allt of snemma. Svona er lífið og við fáum víst engu ráðið um það. Þú kenndir mér snemma svo margt um lífið og tilveruna. Ég gleymi aldrei þeim stundum sem við áttum saman á mínum yngri árum og þú varst að segja mér frá því hvernig hlutirnir gengju fyrir sig. Hvernig börnin yrðu til, hvernig ætti að koma fram við stelpurnar og hverju maður ætti að passa sig á.

Þær eru margar hindranirnar sem verða á vegi okkar í lífinu og þú fékkst þinn skerf af því, elsku mamma mín. Æska þín var erfið. Þú, sjö ára gömul, þurftir að flytjast til Reykjavíkur því afi var orðinn svo veikur af berklum. Það hefur verið erfiður tími að þurfa að fara í fóstur á annað heimili og síðar á heimavist. Mig grunar að þetta hafi mótað þig og þitt lífshlaup töluvert.

Mamma var töffari að eðlisfari og lét ekki aðra segja sér hlutina. Alla tíð hafði hún hlutina bara nákvæmlega eins og henni passaði. Mamma var orðin tveggja barna móðir aðeins 17 ára gömul. Það hefur ekki verið auðvelt að ala upp þessa tvo grallaraspóa, en með þolinmæði, ást og umhyggju er allt hægt.

Missir pabba er mikill nú þegar æskuástin hefur kvatt svona allt of snemma. Kletturinn hann pabbi. Hann studdi mömmu í gegnum öll þau veikindi sem urðu á vegi hennar. Það skipti ekki máli hvort hún var að kljást við bakkus, þunglyndi, sóriasis, maníu eða annað, hann var alltaf til staðar. Nú er komið að hvíldinni löngu og við sem eftir stöndum munum ávallt minnast mömmu sem glæsilegrar konu sem fór sínar eigin leiðir.

Ég minnist mömmu fyrst og fremst fyrir að láta sér annt um ungana sína og það sýndi hún á svo margan hátt.

Ég minnist líka listamannsins sem málaði stundum eins og enginn væri morgundagurinn. Margar flottustu myndir sem ég hef augum litið gerði mamma. Þær voru öðruvísi, þær voru litaglaðar og þær voru hún. Myndirnar og nöfnin á myndunum hennar mömmu lýstu því ávallt í hvað skapi hún var. Ég er svo heppinn að eiga nokkrar.

Amma Þrúða var yndisleg amma og dvöldu litlu molarnir okkar Beggu oft hjá ömmu og afa þegar þau voru lítil. Þá var gaman. Þau heimsækja ekki ömmu „Frúðu“ oftar í Boðaþingið en verða dugleg að kíkja á afa og létta honum lífið.

Ég veit að það verður tekið vel á móti þér þarna hinum megin, elsku mamma mín, og vonandi eigum við eftir að hittast aftur og hlæja saman.

Góður guð mun styrkja pabba og okkur hin og við munum alltaf muna þig eins og þú varst. Best í heimi.

Karl Ómar Jónsson.

Yndislega tengdamóðir mín og amma barnanna minna er fallin frá. Þegar við setjumst niður og spjöllum saman um hana getum við stundum ekki annað en brosað gegnum tárin. Hún var engri ömmu lík, fór sínar eigin leiðir og reyndist okkur alltaf svo ótrúlega vel, með stórt hjarta sem bjó yfir endalausri ást og umhyggju.

Hún var amma sem kom svo oft í heimsókn á litla rauða bílnum sínum og alltaf með eitthvert góðgæti með sér,

– amma sem bakaði heimsins bestu pönnukökur, var listakokkur og gat hrist gómsætar brauðtertur fram úr erminni eins og ekkert væri,

– amma sem elskaði sólina og fannst fátt betra en að sitja úti á svölum á sumrin og hlusta á tónlist,

– amma sem fór aldrei úr húsi nema óaðfinnanlega klædd, með rauðan varalit og hárið fallega greitt,

– amma sem átti fullt af höttum og skóm sem mátti klæða sig í og vera í þykjustunni fullorðinn,

– amma sem hefði orðið heimsmeistari ef keppt hefði verið í straujun,

– amma sem var stórkostlegur listmálari og gaf öllum myndunum sínum nöfn, stundum ótrúlega skondin,

– amma sem elskaði barnabörnin sín takmarkalaust og kallaði þau gullmolana sína,

– amma sem gat svarað öllum spurningum sem litla fólkið velti fyrir sér og dó aldrei ráðalaus,

– amma sem fór með gullmolana sína í hjólreiðatúra og borðaði með þeim nesti eða bauð í vöfflur í Árbæjarsafni,

– amma sem fékk sér alltaf hálfan sykurmola með kaffinu og laumaði hinum helmingnum upp í lítinn munn hinum megin við borðið: „ég hálfan og þú hálfan“,

– amma sem vildi allt fyrir alla gera og tók fólki alltaf opnum örmum.

Hún kvaddi okkur allt of snemma og við munum sakna hennar óendanlega. Hún reyndist okkur alltaf svo vel og studdi við bakið á okkur á erfiðum tímum. Við vorum svo lánsöm að fá að hafa hana í lífinu okkar og við verðum alltaf þakklát fyrir það.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum)

Guð geymi þig, elsku Þrúða amma.

Berglind Tryggvadóttir, Jón Óskar, Sunna

Björk og Sóley Edda Karlsbörn.

Það er með miklum söknuði og trega sem ég minnist Sigþrúðar Kristínar Gunnarsdóttur, Þrúðu, þegar hún hefur nú verið frelsuð frá sínu erfiða lífi, sem sjúkdómur hennar markaði í alltof mörg ár. Hvers vegna nær þessi sjúkdómur svo oft heljartökum á fólki eins og Þrúði, glæsilegri,

hæfileikaríkri og listrænni konu, sem voru allir vegir færir? Þegar vísindin hafa fundið orsakir og lækningu verður margt öðruvísi og betra í þessum heimi.

Hún var skemmtileg og óborganlegur húmoristi sem lá ekki á skoðunum sínum, en hún var hreinlynd og sönn. Hún var góð mágkona og það var gott að koma til þeirra Nonna, Jóns Óskars Carlssonar, til að spjalla og njóta góðs matar, en þau voru bæði listamenn í matreiðslu.

Þrúða var listakona sem skreytti heimili sitt með margvíslegum verkum. Hún kunni svo sannarlega að njóta lista og hún málaði sjálf stórkostlegar myndir, sem hún gaf fjölskyldu og vinum, en vildi ekki sýna opinberlega nema að litlu leyti. Þessar myndir eru ómetanlegur arfur frá þessari litskrúðugu konu. Þrúðu var annt um fjölskyldu sína og vini. Hún fylgdist með þeim eftir megni og deildi með þeim gleði og sorg. Gladdist þegar góðar fréttir bárust. En hún þekkti sjálf erfiðleika frá barnsárunum, þegar foreldrar hennar urðu að flytja frá Bolungarvík með þrjú börn, vegna berklaveiki. Aðskilnaður fjölskyldunnar á þessum tíma hefur vafalaust verið sár og haft áhrif á börnin. Þrúða og Nonni voru ung þegar þau rugluðu saman reytum, en engin hjón þekki ég sem hafa staðið betur saman á lífsins leið, í blíðu og stríðu. Þau eignuðust tvo indæla syni og afkomendurnir eru nú orðnir níu. Svili minn, Jón Carlsson, er einn mesti mannkostamaður sem ég hef kynnst á lífsleiðinni. Hann hefur staðið þétt með konu sinni í veikleika hennar og veikindum alla tíð. Mættum við margir taka hann til fyrirmyndar í lífinu og ekki síst í samskiptum við okkar nánustu. Samúð okkar er nú með honum og fjölskyldunni allri.

Þrúða var trúuð kona, hún var viss um að það væri líf eftir dauðann og í þeirri trú kveðjum við hana. Við Guðrún kveðjum Þrúðu með þakklæti fyrir samfylgdina á lífsins leið og börnin okkar þakka móðursystur sinni fyrir góðvild og gleðilegar stundir sem lifa í minningunni.

Blessuð sé minning Sigþrúðar Kristínar Gunnarsdóttur.

Magnús Reynir

Guðmundsson.

Þrúða amma mín var yndisleg kona í alla staði. Hún var alltaf svo glöð og til í spjall. Ég man þegar ég var ung stelpa í grunnskóla og það vildi svo heppilega til að Þrúða amma bjó beint á móti skólanum svo að ég notaði öll tækifæri til þess að labba yfir til hennar í matarhléunum í spjall og með því. Vinkonur mínar voru alltaf velkomnar með og fannst þeim rosalega gaman að hitta ömmu, enda var hún eins og amma marga vinkvenna minna. Hún tók öllum vel og gerði aldrei upp á milli fólks. Við amma vorum rosalega góðar vinkonur og ef það var eitthvað þá talaði ég um það við ömmu, amma var manneskja sem ég treysti fyrir öllu. Hún var alltaf með góð ráð. Amma eignaðist pabba minn mjög ung og bróður hans árið eftir. Hún var yndisleg móðir og fann ég alltaf hversu heitt pabbi elskaði hana. Amma var alltaf svo vel tilhöfð og mikil skvísa og ég man þegar ég var yngri þá ætlaði ég alltaf að verða pæja eins og Þrúða amma þegar ég yrði eldri. Amma var alltaf með rosalega fínar snyrtivörur sem ég var forvitin um og var hún alltaf að kenna mér á þær og sýna mér nýtt snyrtidót sem hún hafði verið að prófa. Hún átti einnig risastórt skartgripaskrín með alls konar flottum hringum og hálsmenum sem bæði hún hafði keypt sér og afi hafði gefið henni. Hún átti mikið af pelsum og höttum og fannst mér og litlu systur minni ekkert skemmtilegra en að klæða okkur upp í föt af ömmu og setja á okkur skartgripina hennar og halda smáleiksýningar.

Amma var alltaf glöð og vildi allt fyrir sína gera. Ég man þegar við Lilja systir vorum yngri og gistum oft um helgar hjá Þrúðu ömmu og Nonna afa. Amma var mikill listmálari og hefur hún búið til mörg ótrúleg listaverk, ég man sérstaklega eftir verki eftir hana sem hét agúrka (gúrka) og eitt skiptið sem ég gisti hjá henni ákváðum við að fara að mála og ég reyndi að gera eins eftir hennar mynd og heppnaðist hún nú bara nokkuð vel, amma sagði að ég gæti orðið mikill listamaður sjálf ef ég héldi áfram að mála og æfa mig. Ég mun alltaf minnast ömmu sem æðislegrar, hjartahlýrrar og glæsilegrar konu. Hún er komin á betri stað núna og líður vel. Minning hennar mun alltaf lifa í hjarta mínu.

Hittumst við aftur á ný, elsku amma mín

þegar minn tími kemur.

Við höldumst í hendur á ný, þegar upp kem ég til þín.

Þú svo fallega sefur.

Þú hefur kennt mér svo margt,

ég óttast ekki og geng áfram lífsins leið,

það er svo margt ósagt,

þegar ég kem verður spjallað um svo margt.

Ég ætla að vera sterk,

því ég veit þú hefðir viljað það,

í hjarta mér finn ég verk,

ég er svo heppin að eiga þig alltaf að.

Sama þó að þú sért farin til himna,

þá veit ég að ég mun hitta þig aftur,

ég verð til staðar fyrir alla hina,

svo sameinumst við fjölskyldan aftur.

Elsa Ruth Róbertsdóttir.

Þrúða amma var frábær amma sem var alltaf jafn góð við mig þegar ég kíkti í heimsókn. Þegar ég kom til hennar, hvort sem það var eftir skóla eða um helgar, þá fundum við okkur alltaf eitthvað skemmtilegt að gera. Ég gat alltaf fengið ömmu til þess að spila olsen olsen og lönguvitleysu svo klukkutímum skipti. Við fórum oft í púttkeppni á stofugólfinu þar sem við reyndum að hitta í mismunandi stærðir af blómapottum sem lágu á hlið á gólfinu. Við skoðuðum oft bækur og hlustuðum á tónlist saman. Amma var mikil listakona og kenndi mér að mála með vatnslitum og við höfum gert mörg listaverk saman.

Amma var alltaf að gera eitthvað gott í eldhúsinu og ef ég kíkti í heimsókn þá beið ég alltaf fram yfir kvöldmat með að fara heim því að ég vildi borða ömmumat. Þegar ég kom um helgar þá gerðum við oft pönnukökur eða vöfflur. Svo skipti engu máli hvaða vikudagur var, amma átti alltaf sléttakex sem hægt var að stelast í. Fíni rauði bíllinn hennar kom okkur oft að góðum notum, sérstaklega þegar við fórum saman í Kolaportið og í ísbíltúr.

Hvíldu í friði, elsku amma, þín verður sárt saknað.

Jón Óskar Karlsson.

Við missi og í sorg er gott að muna, muna hvað við lærðum, ánægjulegar samverustundir, hlátur, grát, gleði og fleira. Ég man eftir tilhlökkuninni að fara til Reykjavíkur þegar ég var barn og heimsækja afa og ömmu og ekki síst að fá tækifæri til að heimsækja og vera með Þrúðu frænku og hennar stórfjölskyldu og vinum. Í minningunni sé ég fallega og glæsilega frænku mína renna í hlað í Blesugróf 30, í dragt með sólgleraugu og hatt, tala hátt og hlæja dátt þegar hún knúsaði mig og spurði frétta að vestan. Ég man hversu oft ég hugsaði hvað ég væri heppin að eiga svona skemmtilega og fyndna frænku sem tók upp á ýmsu og hafði yfirleitt ekki áhyggjur af því hvað öðrum fannst. Ég man bíltúrana þar sem sungin voru hástöfum lög sem hljómuðu í kananum í útvarpinu, ferðirnar á golfvöllinn, heimsóknirnar til vina hennar og samstarfsfélaga, fataskápana og fataherbergið hennar, verslunarferðirnar og tímana þar sem ég sat og hlustaði og fylgdist með henni á hárgreiðslu- eða snyrtistofum þegar hún vildi líta sem best út. Ég man líka skiptin sem hún sagði mér sögur og ræddi við mig um lífið og tilveruna, borðið hennar í eldhúsinu þar sem hún sat og reykti, þegar hún svaf lítið af því að hún þurfti að mála myndir fyrir fjölskyldu og vini og öllum áhugaverðu draumunum og hugmyndunum sem hún fékk.

Þær voru ófáar stundirnar þar sem eitthvað skemmtilegt og spennandi var að gerast í kringum Þrúðu frænku en eins og við vitum öll er líf okkar ekki alltaf eintóm hamingja. Þegar maður eldist og þroskast skilur maður betur hvaða atriði það eru sem skipta máli, t.d. að fara vel með sjálfan sig, að njóta vel þeirra lífsgæða sem í boði eru og nærvera og samverustundir með fjölskyldu og vinum. Við vitum aldrei hvernig líf okkar verður en við getum haft áhrif á það hvernig við viljum að það verði. Það gefur lífinu gildi að muna og rifja upp hvernig við kynntumst, hvað við gerðum saman, hvaða hlutir skiptu okkur máli og hvernig við getum í sameiningu haldið áfram í lífi okkar og starfi. Það er líka gott að muna eftir geðorðunum, að flækja ekki líf okkar að óþörfu, finna og rækta hæfileika okkar og setja okkur markmið og láta drauma okkar rætast. Með því að tileinka sér að hugsa jákvætt um lífið og tilveruna og hlúa markvisst að því sem styrkir geðheilsu er maður að stunda geðrækt. Í minn geðræktarkassa mun ég safna hlutum sem tengjast Þrúðu frænku sem vekja hjá mér gleði og góðar minningar og ég mun nota meðvitað til að láta mér líða vel. Í sorginni munum við líka eftir þeim sem þarf að hlúa að, fjölskyldu og vinum sem eiga erfitt. Það jákvæða og skemmtilega er auðveldara, ekki eins erfitt og hefur áhrif á það sem á eftir kemur. Þrúða frænka sagði stundum eins og vinur hennar: verið hress, ekkert stress, bless og er ég þess fullviss að hún tekur undir þau orð með stríðnisglampa í augum og bros á vör. Far í friði gullið mitt, eins og móðir mín segir, og láttu þér líða vel, þú átt það svo skilið.

Þín frænka,

Hrefna R.

Magnúsdóttir.