Söngur Tónlistin spilar stóran þátt í lífi Garðars og afmælisdagurinn hans er undirlagður í tónlist frá morgni til kvölds.
Söngur Tónlistin spilar stóran þátt í lífi Garðars og afmælisdagurinn hans er undirlagður í tónlist frá morgni til kvölds. — Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
Ég get ekki sagt að ég sé mikið afmælisbarn og hef ekki haft það fyrir sið að gera mikið úr afmælinu mínu,“ segir Garðar E. Cortes, söngvari og tónlistarmaður. Honum er þó minnisstætt síðasta stórafmæli.

Ég get ekki sagt að ég sé mikið afmælisbarn og hef ekki haft það fyrir sið að gera mikið úr afmælinu mínu,“ segir Garðar E. Cortes, söngvari og tónlistarmaður. Honum er þó minnisstætt síðasta stórafmæli. „Þegar ég varð sjötugur tók gott fólk sig saman og gerði um mig bók þar sem kom fram mest af því sem ég hef gert yfir ævina. Það kom mér eiginlega mest á óvart hvað ég hef gert mikið og komið að mörgum verkefnum.“ Afmælisdagurinn verður eins og ævi Garðars bæði viðburðaríkur og skemmtilegur. „Það verður nóg að gera hjá mér en ég kem í bæinn um klukkan sjö að morgni og verð mættur í tónlistarskólann hálftíma síðar en þar verð ég í afleysingum fyrir Garðar Thór son minn sem er að undirbúa sig fyrir Carmen.“

Í kaffitíma kennara ætlar Garðar svo að taka fram svuntuna og baka en það er siður í skólanum á afmælisdögum kennara segir hann. „Það verða bakaðar vöfflur, þeyttur rjómi og auðvitað hita ég kakó eða „sjokkolaðe“ eins og mamma og Emma frænka kenndu mér að segja.“ Dagurinn er þá langt í frá búinn hjá Garðari því hann sækir fund Landssambands blandaðra kóra, síðan undirbýr hann tónleika íslenskra þjóðlaga og þjóðdansa, til heiðurs Jóni Ásgeirssyni sem er 85 ára en Jón var kennari við Söngskólann til margra ára. Síðan undirbýr hann 40 ára afmæli skólans og endar svo kvöldið á kóræfingu Karlakórs Kópavogs. vilhjalmur@mbl.is