Páll Tryggvason, barna- og unglingageðlæknir, og Eyrún K. Gunnarsdóttir sálfræðingur hafa opnað einkastofu á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Páll segir að þetta þýði ekki að búið sé að koma þjónustu við börn og unglinga með geðræna kvilla í gott lag.

Páll Tryggvason, barna- og unglingageðlæknir, og Eyrún K. Gunnarsdóttir sálfræðingur hafa opnað einkastofu á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Páll segir að þetta þýði ekki að búið sé að koma þjónustu við börn og unglinga með geðræna kvilla í gott lag. „Þetta er bara bráðabirgðaúrræði að mínu mati og getur ekki verið til langs tíma,“ segir Páll þegar hann er spurður hvort þar með sé búið að leysa þann vanda sem skapaðist þegar hann hætti störfum hjá sjúkrahúsinu.

Páll sagði að ekki væri hægt að veita sömu þjónustu við börn og unglinga og var veitt á sjúkrahúsinu í gegnum rekstur á læknastofu. Hann sagði að tryggingaumhverfið hér á landi gerði þetta rekstrarfyrirkomulag líka erfitt. „Ég var áður í hlutastarfi við sjúkrahúsið og vann síðan svokölluð ferliverk. Ég var með góðan sálfræðing með mér og góðan ritara. Þetta var teymi sem vann vel saman og afkastaði miklu. Nú vinnum við hér tvö, ég og sálfræðingurinn. Við höfum t.d. engan möguleika á að fara í skóla og símaþjónusta verður mjög takmörkuð,“ sagði Páll. Hann sagði að það væri sjúkrahússins og heilbrigðisráðherra að finna varanlega lausn.