[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Tómas Þór Þórðarson tomas@mbl.

Fótbolti

Tómas Þór Þórðarson

tomas@mbl.is

„Þetta er allt svo nýtt fyrir mér – ég er ekki vanur að vinna titla,“ segir Gary Martin, framherji KR, í samtali við Morgunblaðið en hann, ásamt liðsfélögum sínum, fagnaði Íslandsmeistaratitlinum í fótbolta á Hlíðarenda á sunnudaginn eftir 2:1-sigur á erkifjendunum í Val. Gary skoraði bæði mörk KR í leiknum og vann vel fyrir liðið að vanda. Hann fékk tvö M fyrir sína frammistöðu og er leikmaður 21. umferðar hjá Morgunblaðinu.

Staðan í hálfleik var 2:1 og inni í klefa voru línurnar lagðar fyrir síðari hálfleik. „Ég þurfti að hlusta á mér reyndari menn eins og Rúnar þjálfara og Bjarna fyrirliða. Þeir vita um hvað þetta snýst og hafa unnið allt áður. Þeir sögðu mér að þetta snerist ekki um að ég myndi ná þrennunni heldur þyrftum við bara ná í stigin og klára þetta mót. Það var svo gaman að fagna eftir leikinn,“ segir Gary.

Mörkin myndu koma

Framherjinn hefur staðið sig afskaplega vel fyrir KR í ár og er í baráttu um markakóngstitilinn. Hann virkar stundum þindarlaus, hleypur í 90 mínútur og hrellir varnarmenn stanslaust. Það var fyrirliðinn Bjarni Guðjónsson sem lagði Gary línurnar fyrir mót.

„Hann sagði mér hætta aldrei að hlaupa. Hann vildi að ég ynni fyrir liðið með því að hlaupa og pressa varnarmennina allan leikinn. Það er erfitt að spila á móti mér því ég er alltaf á ferðinni að trufla menn. Hann hafði rétt fyrir sér. Mörkin myndu koma ef ég væri alltaf að vinna fyrir liðið og það hefur staðist. Ég hef líka verið betri fyrir framan markið og ekki klúðrað jafnmörgum færum og í fyrra. Ég hef líka gefið einhverjar átta stoðsendingar sem er ekki slæmt. Það er miklu betra að vera liðsmaður heldur en einhver einstaklingshetja,“ segir Gary.

Skoðar það sem býðst

Gary segist hafa sett sér það takmark að skora í Evrópukeppni og verða Íslandsmeistari í ár og hvorttveggja heppnaðist. Honum líður vel í Vesturbænum en dreymir auðvitað um að spila í stærri deild.

„Ég á enn tvö ár eftir af samningnum en ef eitthvað býðst mun ég skoða það með liðinu. Ég myndi samt ekki taka hverju sem er. Nú á ég kærustu hérna á Íslandi og mér líður alveg rosalega vel í KR. Ég er ekkert að flýta mér og kannski framlengi ég bara við KR ef það kemur upp á borðið,“ segir þessi 23 ára gamli Englendingur.

Nudda salti í sárin

Gary kom fyrst til Íslands á miðju sumri 2010 og spilaði með ÍA í 1. deildinni eitt og hálft tímabil. Hann yfirgaf svo Skagann með miklum látum á sama tíma og annar Englendingur, Mark Doninger, og gekk í raðir KR. Næsti leikur KR er gegn ÍA á Skaganum þangað sem Gary mætir sem meistari en Skaginn verðandi 1. deildar lið, rétt rúmu ári eftir að hann yfirgaf þá gulu.

„Þetta lítur vel út fyrir mig – ég að vinna og þeir að falla. Ég þykist vita af hverju ÍA er fallið en vil ekki fara út í það. Þeir buðu mér samning sem ég var ekki ánægður með og því voru þeir eitthvað reiðir þegar ég fór. Nú er ÍA fallið og ég kem í heimsókn sem meistari, það er svolítið eins og að nudda salti í árin. Vonandi geta þeir þó séð það jákvæða og því það var ÍA sem fékk mig hingað og hjálpaði mikið til við að gera mig að þeim leikmanni sem ég er í dag,“ segir Gary.

Vill njóta lífsins

Utan vallar er Gary afar léttur í lund og er platónskt ástarsamband hans og Atla Sigurjónssonar, liðsfélaga hans hjá KR, víðfrægt. Gary segist taka starf sitt mjög alvarlega; hann æfir mikið og gerir alltaf það sem honum er sagt en þegar fótboltinn er ekki við fæturna vill hann njóta þess að vera til.

„Fólk misskildi mig fyrst og hélt ég væri einhver egóisti. Svo er ekki. Ég er ekkert að fela mig heldur vil ég bara að það sé gaman. Ég er samt enginn Balotelli með eitthvert vesen utan vallar. Ég þekkti Atla ekki áður en hann kom til KR en við smullum strax því við höfum gaman af því sama. Við skemmtum okkur vel saman og ég held að eldri gaurarnir í liðinu hafi gaman af okkur. Þeir eru giftir og eiga börn þannig að þeir öfunda kannski aðeins það sem við höfum,“ segir Gary Martin.