Sigur Merkel var augljóslega mjög ánægð með úrslitin á sunnudag.
Sigur Merkel var augljóslega mjög ánægð með úrslitin á sunnudag. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hólmfríður Gísladóttir holmfridur@mbl.is Erfiðar stjórnarmyndunarviðræður bíða Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, eftir að flokkur hennar, Kristilegir demókratar, vann stórsigur í þingkosningum á sunnudag.

Hólmfríður Gísladóttir

holmfridur@mbl.is

Erfiðar stjórnarmyndunarviðræður bíða Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, eftir að flokkur hennar, Kristilegir demókratar, vann stórsigur í þingkosningum á sunnudag. Kristilegir demókratar, CDU, og systurflokkur þeirra í Bæjaralandi, CSU, hlutu 41,5% atkvæða og vantaði aðeins lítillega upp á að ná hreinum þingmeirihluta.

Niðurstöður kosninganna þykja mikill persónulegur sigur fyrir Merkel en flokkurinn hefur ekki notið meira fylgis í 20 ár. Samstarfsflokkur Kristilegra demókrata í fráfarandi ríkisstjórn, Frjálsir demókratar, FDP, hlutu hins vegar aðeins 4,8% atkvæða, sem nægir þeim ekki til að ná manni inn á þing, og hefur formaður flokksins, Philipp Roesler, sagt af sér í kjölfarið.

Líklegast þykir að Merkel muni reyna að ná saman með Sósíaldemókrötum, sem hlutu 25,7% atkvæða, og sagðist í hún í gær þegar hafa sett sig í samband við formann flokksins, Sigmar Gabriel. Kanslaraefni Sósíaldemókrata, Peer Steinbrück, hefur hins vegar útilokað aðkomu að slíkri samsteypustjórn en flokkurinn kom afar illa út úr ríkisstjórnarsamstarfi með Kristilegum demókrötum 2005-2009, þegar Steinbrück var fjármálaráðherra.

Kunnugir segja að viðræður gætu dregist á langinn þar sem áherslur flokkanna tveggja eru ólíkar í mörgum málum. Sósíaldemókratar hafa t.d. talað fyrir að dregið verði úr aðhaldsaðgerðum og hafa léð máls á nokkurs konar Marshall-aðstoð til handa Grikkjum. Annar valkostur í stöðunni fyrir Kristilega demókrata er að mynda stjórnarmeirihluta með Græningjum, sem hlutu 8,4% atkvæða, en þar er gjáin enn breiðari er kemur að stefnumálum flokkanna.

Vinstriflokkarnir þrír; Sósíaldemókratar, Græningjar og Vinstri, gætu fræðilega myndað meirihluta en bæði Sósíaldemókratar og Græningjar hafa útilokað samstarf með Vinstri, þar sem þeir þykja of róttækir.

Evrópuleiðtogar voru fljótir til að óska Merkel til hamingju með kosningasigurinn en hún er eini leiðtoginn á evrusvæðinu sem hefur hlotið endurkjör síðan evrukrísan hófst fyrir alvöru árið 2010.