Hugo Þórisson fæddist í Reykjavík 25. maí 1949. Hann lést á heimili sínu í Reykjavík 15. september 2013.

Foreldrar hans voru Carla Hanna Proppé húsmóðir og Þórir Kristinsson, bílasmiður og forstjóri. Hugo var annar í röð þriggja systkina. Eldri systir hans er Hanna Dóra Þórisdóttir og yngri bróðir Þórir Kristinn Þórisson.

Fyrri kona Hugos var Birgitte Povelsen. Síðari kona hans og eiginkona til 35 ára er Ragnheiður Hermannsdóttir. Hugo skilur eftir sig fimm börn, þau Sigríði Höllu, Kristján Karl, Dögg, Hróar og Harald Þóri ásamt stórri fjölskyldu tengda- og barnabarna.

Hugo ólst upp í Reykjavík áður en hann hélt til Danmerkur í nám. Hann nam sálfræði við Háskólann í Árósum og starfaði sem slíkur allt til loka. Hugo var einnig um árabil formaður Sálfræðingafélags Íslands og tók þátt í norrænu samstarfi sálfræðinga.

Útför Hugos fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 24. september 2013, og hefst athöfnin kl. 15.

Ég var yngsta barnið í fjölskyldunni, smár að vexti, og hafði Hugo alltaf hag minn og velferð í huga. Þegar ég var lítill varði hann mig fyrir hrekkjusvínunum og kom með ráð til að létta mér baráttuna. Hann lagði meðal annars til að ég lærði júdó, sem ég gerði. Það styrkti mig mikið enda vissi hann að slagsmál voru ekki það sem skipti máli heldur meðvitundin um styrk sinn. Hugo varði mig einnig þegar pabbi tók mig í gegn fyrir að byrja að reykja og lagði til ráð sem pabbi og mamma hlustuðu á og fóru eftir. Ráðgjöf Hugos virkaði vel. Þá var hann ekki farinn í sálfræðinám en hæfnin þó þegar til staðar. Hugo var sálfræðingur á heimsvísu. Ráðleggingar hans og viska hafa hjálpað þúsundum barna og fullorðinna í tugi ára og ekki lá hann á þeim þegar leitað var til hans. Hann var ávallt tilbúinn að leiðbeina og hjálpa öðrum. Hann hlustaði, spurði réttra spurninga og leiddi inn á rétta braut. Þannig var það einnig í veikindum hans. Ég hef aldrei kynnst neinum sem var fram á lokastundu að sinna öðrum eins og bróðir minn gerði. Hugo var allan tímann að hjálpa okkur aðstandendum í gegnum veikindi sín og sorgarstundir. Hann ræddi við okkur af varfærni, sá hverju hver og einn þurfti á að halda og veitti aðstoð. Þvílíkur fagmaður. Ég á mörg hollráð frá Hugo sem hafa nýst mér og fjölskyldu minni og verð honum ævinlega þakklátur fyrir þau. Hugo var einnig snillingur í að spotta bestu útsölurnar og tilboðin. Þar var aldrei komið að tómum kofunum. Einungis að heyra í honum og þá var maður kominn á sporið hvert fara ætti að versla, enda vorum við bræðurnir líkir að þessu leyti eins og svo mörgu. Það var alltaf gott að hitta bróður og spjalla um daginn og veginn og heyra hans sýn á málefnum, sérstaklega þar sem hann var með sérfræðiþekkingu. Hans ráð voru svo einföld. Sumt sem hann lagði til vissir þú án þess að vita að þú vissir það, en eftir spjall við Hugo festist vitneskjan í minni og nýttist um ókomna tíð.

Hugo týndi stundum stöku hlut, heima við eða annars staðar, en þá átti hann það til að segja við Ragnheiði sína: „Raggý mín, ef þú værir ég, hvert myndir þú setja gráa bindið mitt?“ Undantekningarlaust leysti hún vandann. Þau voru sem eitt og yndislegra hjónaband er vandfundið.

Elsku Raggý mín. Mikið tekur það mig sárt að þú skyldir missa förunaut þinn á besta aldri og ég veit ekki hvernig ég get þakkað þér allt sem þú hefur gert fyrir elskulegan bróður minn í þeirri baráttu sem hann hefur háð síðastliðin þrjú ár og sérstaklega síðastliðna mánuði. Elsku bróðir. Í gegnum veikindi þín hélstu fullri reisn í öllu sem þú tókst þér fyrir hendur. Óaðfinnanlegur klæðnaður, léttur húmor og góð ráð einkenndu þig að vanda. Það er sárt að sjá á eftir þér, en gott að þú skyldir fá hvíldina úr því sem komið var eftir erfiða baráttu við illvígan sjúkdóminn. Minningin um þig og þín hollráð mun lifa í hjörtum okkar allra sem eftir lifum. Innilegar samúðarkveðjur, elsku Ragnheiður og fjölskylda. Það hefur mikið mætt á ykkur öllum undanfarið. Þið hafið sinnt Hugo af natni og bestu þakkir fyrir það. Ég er svo stoltur af ykkur öllum. Ég kveð þig með söknuði og þakklæti, elsku bróðir. Hvíl í friði.

Þórir Kristinn Þórisson.

Það voru forréttindi að eiga Hugo sem mág og geta leitað til hans hvenær sem var. Hann var sannkallaður viskubrunnur, hvort sem um var að ræða fjölskylduna, vinnuna eða lífið. Hann var traustur og ávallt vinur í raun. Það var mikil reisn yfir Hugo. Hann fylgdist vel með tískunni og var fagurkeri í mat og drykk auk þess að vera einstaklega góður að finna gjafir, og lá mikill kærleikur og falleg hugsun þar að baki.

Hugo veitti mér styrk og sjálfstraust með ráðum sínum og dáð. Hann studdi mig ómetanlega í vinnunni, hvatti mig áfram og var duglegur að kíkja við á skrifstofunni þar sem við sátum og ræddum saman um daginn og veginn. Það var yndislegt að fá stuðninginn hans og allt það sem hann gaf mér.

Mágur minn var mjög heppinn maður. Hann átti Raggý, algjöra perlu og dásamlega eiginkonu, og yndisleg börn. Við Þórir eigum góðar minningar af samverustundum með þeim hjónum. Göngu- og útivistarferðirnar okkar voru einstaklega skemmtilegar, og það var alltaf gaman að ferðast með þeim því þau þekktu svo vel til náttúrunnar og fuglalífsins. Við áttum marga frábæra og eftirminnilega tíma saman; heimsóknirnar á Þjóðlagahátíðirnar á Siglufirði, páskagöngurnar, jólaboðin, gangan yfir í Héðinsfjörð og nú síðast 100 ára afmæli tengdaforeldra minna. Það var svo mikið líf og fjör í kringum Hugo og við nutum þessara stunda mjög vel öll saman.

Ég veit að Hugo yrði ánægður að vita af því að við erum byrjuð að skipuleggja ferð á Siglufjörð með Raggý þar sem þema ferðarinnar verður kennsla í að rista kryddlagðar möndlur og heimagert múslí. Þetta væri ferð að hans skapi. Hugos verður sárt saknað og er hugur minn hjá hans nánustu. Góð minning um Hugo lifir í hjörtum okkar allra.

Erla Bjartmarz.

Hugo, elskulegi frændi okkar, var einstakur maður. Hann var með stórt hjarta, ljúfur, jákvæður, með yndislega nærveru og fallega sál. Hugo sýndi okkur alltaf væntumþykju og áhuga. Það var alveg sama hversu langt var síðan síðast, alltaf var eins og við hefðum verið nýbúnar að hitta hann, hann fylgdist svo vel með öllu. Það var ávallt hægt að leita til Hugos frænda. Það er okkur ómetanlegt að í veikindunum hafi hann getað sýnt okkur stuðning, veitt okkur aðstoð og ráð sem hjálpuðu mikið. Hann kenndi ekki aðeins skjólstæðingum sínum og landsmönnum hvað kærleikur skiptir miklu máli og hversu mikilvægt það er að hlusta á börnin, heldur minnti hann okkur á það líka.

Minningarnar af Framnesveginum eru okkur kærar frá barnæsku þegar við lékum okkur undir stiganum og í litla herberginu uppi á lofti. Sérstaklega munum við eftir því hvað það var mikil gleði og kærleikur á heimilinu. Ofarlega í huga okkar er einstök skipulagshæfni og drifkraftur þeirra hjóna, Hugos og Raggýjar. Það sem einkenndi jólaboð og fjölskylduhittinga voru leikir og skemmtiatriði sem þau stóðu fyrir. Þessu fylgdi mikil kátína og gleði og voru nýir makar oft boðnir velkomnir í fjölskylduna með því að vera settir í ýmis hlutverk. Þetta vakti mikla lukku og tengdi alla svo vel saman.

Við fjölskyldan áttum yndislegar stundir saman síðustu ár, þó þær væru færri en óskað var. Okkur er efst í huga afmæli afa og ömmu. Í júní síðastliðnum héldum við upp á afmæli þeirra í Sunnuhlíð þar sem Hugo hélt fallega ræðu í tilefni dagsins sem snerti hjarta allra. Dagurinn var svo góður og eftirminnilegur í alla staði, mikið hlegið, borðað og drukkið. Þessi dagur skilur ekki einungis eftir góðar minningar um Hugo heldur líka sögurnar um ömmu og afa sem Hugo gaf okkur.

Hugo sagði okkur undir það síðasta að lífið væri eins og bland í poka, það væru góðar stundir en einnig erfiðar. Hann ætti margar yndislegar minningar og væri ánægður að hafa fengið að fylgjast með okkur systrunum vaxa úr grasi. Við eigum eftir að sakna hans mikið. Minningar um Hugo frænda munu lifa í hjörtum okkar alla ævi. Það var svo gott að fá að kveðja ástkæran frænda okkar á þann hátt sem við fengum að gera. Að geta sagt honum hversu þakklátar við vorum fyrir allar stundirnar, góðmennskuna og stuðninginn sem hann hefur gefið okkur.

Elsku Raggý, Kristján, Dögg, Hróar, Haraldur, Sigga Halla og fjölskyldur, innilegar samúðarkveðjur á þessum erfiðu tímum.

Eva Carla og Alexandra

Þórisdætur.

Hugo er farinn og eftir stöndum við fjölskyldan fátækari en áður.

Hugo var frændi okkar, bróðir mömmu, fyrirmynd okkar og mælikvarði á svo ótal marga vegu. Ekki bara sem uppalandi heldur einnig um flest það sem gera þarf til að geta talist góð og gegn manneskja.

Þótt Hugo sé farinn af Framnesveginum þá fór hann ekki langt í huga okkar. Það sem hann kenndi okkur nýtum við á hverjum degi, oft á dag. Því verður Hugo okkur alltaf nálægur og er ljúfsárt að bera þá tilfinningu í brjósti.

Þegar ég var lítil bar ég óttablandna virðingu fyrir Hugo því ég var sannfærð um að hann læsi hugsanir, sæi inn í hugskot manns eins og vættur. Þegar ég eltist sá ég að þetta var rétt. Hann gat sannarlega lesið hugsanir mínar, oft betur en ég sjálf. Alltaf þegar við ræddum saman hafði hann lag á að snerta við mér með spurningum og athugasemdum. Oft leiddu þessar samræður til þess að ég lagði nýtt mat á fyrri ákvarðanir, lagði hlutina upp með öðrum hætti en áður.

Ein af fyrstu minningum okkar systra um Hugo er þegar við fórum í pössun til hans og Ragnheiðar í nokkra daga á Lynghagann. Áður en við fórum að sofa á kvöldin las Hugo fyrir okkur bókina „Pabbi, mamma, börn og bíll“. Það er okkur enn minnisstætt hvað þetta var dýrmætur tími, að slaka á uppi í rúmi við upplesturinn. Hugo var svo sannarlega flottur pabbi.

Þegar við hittumst voru það gleðistundir, jafnvel þótt þær stundir hefðu verið erfiðar undir hið síðasta. Hugo hafði einstaka og sterka nærveru. Hann fyllti herbergið með afslöppuðu látbragði, hnyttinni orðræðu, gleði og hlýju. Við systur hlökkuðum alltaf til að hitta Hugo og leituðumst við að spjalla við hann á mannamótum og segja honum frá því sem fjölskyldan var að fást við. Hugo hlustaði alltaf af athygli og hafði áhuga á því sem var að gerast í lífi okkar, hann spurði sérstaklega hvernig börnin hefðu það og ef þau voru með þá gaf hann sér alltaf tíma til að spjalla við þau. Veitti þeim athygli og hrósaði þeim, enda fékk hann fljótt viðurnefnið „Hugo afi“.

Það var alltaf hægt að leita til Hugos og hann virtist alltaf hafa nægan tíma, jafnvel þó verkefni hans hafi verið ærin og hann jafnan önnum kafinn. Þegar við vorum yngri fylgdist Hugo með okkur og studdi í gegnum skólagöngu. Eftir að börnin okkar fæddust var alltaf hægt að leita ráða hjá honum og alltaf stóðu dyrnar opnar.

Eftir Hugo liggja fjöldamargar greinar, bækur, fyrirlestrar og þættir um samskipti og uppeldi barna. Við getum af okkar eigin, alltof stuttu kynnum vitnað um að hann miðlaði ekki bara, hann lifði eftir eigin boðskap.

Að leiðarlokum viljum við þakka Hugo frænda allt sem hann hefur gefið okkur og það sem hann mun halda áfram að gefa okkur, hann mun halda áfram að búa í hjarta okkar og huga. Elsku Ragnheiður, Sigga Halla, Kristján, Dögg, Hróar, Haraldur og fjölskyldur, vottum ykkur okkar innilegustu samúð á þessum erfiða tíma.

Auður, Hildur og fjölskyldur.

Árið 1981 unnum við Hugo saman á sálfræðideild skóla í Reykjavík og kenndum við Kennaraháskóla Íslands. Við smullum saman eins og tvíburar og unnum saman á komandi árum að foreldrafræðslu, samskipta-námskeiðum á vinnustöðum, sjálfsvígsforvörnum, nýju líkani að sálfræðiþjónustu í skólum, stofnuðum fyrirtæki og svo mætti lengi telja. Við menntuðum og skemmtum okkur saman og tókum þátt í fjölskylduviðburðum hvor annars. Við vorum góðir vinir alla tíð.

Hugo veiktist fyrir rúmum þremur árum og vissi þá þegar að sjúkdómur hans væri á því stigi að ekki væri hægt að ná bata. Hvað gerir maður við slíkar aðstæður? Ég veit ekki hvað ég hefði gert en ég veit hvað Hugo gerði. Hann breytti sjúkdómsstríðinu sem beið hans í „sigurgöngu“. Slíkt þarfnast mikils manndóms, ástar, kærleika og löngunar til að láta gott af sér leiða. Þetta átti Hugo allt. En hann gerði þetta ekki einn því fjölskylda hans umvafði hann kærleika og manngæsku og gerði þessa göngu mögulega.

Hugo leit yfir farinn veg og velti fyrir sér hverju hann ætti eftir að koma í verk og gæti áorkað á ekki lengri tíma. Hann hafði oft nefnt við mig að hann langaði að skrifa bók fyrir foreldra og nú var stundin runnin upp. Hin einstaka bók Hollráð Hugos: Hlustum á börnin okkar kom út árið 2011, og sýndu foreldrar þakklæti sitt með því að gera hana að metsölubók.

Þegar ég skrifa þessar línur þá finn ég auðvitað söknuðinn en líka sterka þakklætistilfinningu. Hugo átti auðvelt með að hlusta og sýna skilning sem var hluti af því sem hann miðlaði til foreldra en þetta var líka löngu orðið samofið persónuleika hans. Það var því oftar en ekki sem ég gekk af hans fundi léttari í spori, bjartsýnni, með hugmyndir að lausnum og þakklátur.

Þegar leið á þann tíma sem Hugo átti eftir minnkaði orkan og hann þurfti að fara að spara sig eins og hann orðaði það. Nú varð hann oftar að þiggja ráð sinnar elskandi fjölskyldu til að átta sig betur á breyttum aðstæðum í veikindum og orkuleysi líðandi daga. Hugo elskaði nefnilega lífið og núið og naut þess tíma sem hann fékk alveg þangað til hann taldi sig vera kominn með brottfararseðilinn í hendur.

Nokkrum dögum fyrir brottför létum við Hugo draum rætast um að gæða okkur á „KFC“-kjúklingi. Við höfðum stundum skroppið og fengið okkur kjúkling í „den“ þegar við héldum foreldranámskeið. Því vorum við þó löngu hættir á tímum mikillar hollustu og hreyfingar en nú kom upp mikil löngun. Hugo hafði ekki orku til að fara á staðinn þannig að kjúllarnir komu til hans. Það var ef til vill ekki mjög háfleygt að fá sér kjúlla, en hvað gera vinir? Þeir borða saman og þetta var yndisleg stund með húmor og djúpum tilfinningum. Nokkrum dögum síðar kvaddi Hugo þennan heim.

Ég fyllist þakklæti fyrir að hafa átt þessa samfylgd með Hugo Þórissyni, blessuð sé minning hans. Ég vil sérstaklega þakka Ragnheiði og fjölskyldu fyrir að leyfa mér að dvelja í innsta kjarna og fylgja vini mínum alla leið. Um leið sendum við Jóhanna ykkur öllum innilegar samúðarkveðjur.

Wilhelm Norðfjörð.

Við kynntumst á 8. áratugnum í Árósum 10 íslenskir sálfræðinemar. Þegar heim var komið héldust tengslin áfram og gagnstætt flestum hópum sem myndast við slíkar kringumstæður þá hafa böndin styrkst með árunum í stað þess að trosna. Í dag kveðjum við einn úr okkar röðum, Hugo Þórisson. Það er þungbært að kveðja góðan vin. Á kveðjustund er margs að minnast og margs að sakna. En einnig margt að þakka og yfir mörgu að gleðjast. Frá byrjun skar Hugo sig úr fyrir snyrtimennsku og smekkvísi. Á þessum tíma þegar allir sannir róttæklingar gengu í snjáðum smekkbuxum og létu hár og skegg vaxa að mestu óáreitt, þá samdi Hugo sig að siðum tímans, en á sinn hátt. Hans hár var vel snyrt, skeggið líka, smekkbuxurnar hans voru alltaf hreinar og aldrei krumpaðar.

Hugo sagði eitt sinn frá ferð sinni að skoða Himmelbjerget í Danmörku. Eitthvað gekk illa að rata og leitað var að leiðarvísum og kennileitum. Ferðin snérist um að finna áfangastaðinn. Þegar þangað var komið urðu Hugo og ferðafélagar hans fyrir hálfgerðum vonbrigðum með hæsta fjall Danmerkur. Á bakaleiðinni áttuðu þau sig á að þau höfðu keyrt um fagrar sveitir Mið-Jótlands án þess að taka eftir fegurðinni. Þetta sagði Hugo hafa kennt sér að ferðalagið væri jafn mikilvægt og áfangastaðurinn. Við þetta stóð Hugo alla tíð, hann sinnti augnablikinu og líðandi degi af alúð, þó hann vissi svo sannarlega hvert hann vildi stefna. Og svo lýsir þessi saga Hugo vel með öðrum hætti: hann var einstaklega fundvís á dæmisögur sem bjuggu yfir mikilli lífsspeki.

Veigamesti þátturinn í ævistarfi Hugos er þjónusta hans við börn og foreldra. Foreldranámskeiðin sem þeir Wilhelm Norðfjörð héldu reglulega í rúma þrjá áratugi voru mjög vinsæl og höfðu bætandi áhrif á fjölskyldulífið á fjölmörgum íslenskum heimilum. Og metsölubókin „Hollráð Hugos“ er verðugur minnisvarði um gifturíkt ævistarf. Hugo var mikill gæfumaður í einkalífinu. Þau Ragnheiður og börnin mynduðu samhenta og lifandi heild, þar sem hver og einn naut sín samtímis því að líflegur heimilisbragurinn laðaði til sín vini og vandamenn. Í sjúkdómsstríðinu komu mannkostir Hugos skýrt fram því segja má að það stríð hafi verið sigurganga, þar sem hver dagur skipti meira máli en hinn óumflýjanlegi áfangastaður. Hugo, Ragnheiður, börnin og aðrir ástvinir sameinuðust í að gera síðasta áfangann í ferðalagi Hugos innihaldsríkan. Það lýsir þessari yndislegu fjölskyldu vel að á þessum krefjandi tímum var þess gætt að skapa svigrúm fyrir þátttöku annarra sem stóðu Hugo nærri. Það er þakkarvert og aðdáunarvert. Hugo lifði fallegu lífi allt til enda. Við vinir hans kveðjum hann með söknuði og þakklæti og sendum Ragnheiði og börnunum samúðarkveðjur.

F.h. Árósahópsins,

Andrés Ragnarsson og Einar Gylfi Jónsson.

Ég hitti Hugo Þórisson fyrst fyrir fjórum árum síðan þegar bókarhugmynd kviknaði. Við sátum á nokkrum fundum, hugmyndin þróaðist og varð loks að dásamlegri bók haustið 2011. Það var einstakt að vinna með Hugo, hann var allt í senn, hugmyndaríkur, ákveðinn en hlýr og gefandi, enda var hann eftirsóttur sálfræðingur og fyrirlesari. Hann kunni að setja flókna hluti fram á einfaldan, myndrænan hátt svo allir skildu og notaði gjarnan dæmisögur og líkingamál. Því varð boðskapur hans svo skýr og eftirminnilegur. Hversu mikið segir t.d. lýsing hans á mismuninum á „farðu ömmu“ og „komdu ömmu“, eða setningin: „Þegar barnið þitt setur á sig boxhanskana og býður upp á átök – bjóddu því þá faðminn.“ Hugo bar hag barna mjög fyrir brjósti og sérgrein hans var að bæta samskipti foreldra og barna svo báðum liði betur og kenna okkur foreldrum, ömmum og öfum að hlusta á börnin okkar og barnabörnin.

Á okkar síðasta fundi fyrir örfáum vikum var þrekið á þrotum en hugsunin skýr og leiftrandi. Frá honum stafaði sama hlýjan og einlægnin og venjulega. Fjölskyldan var honum efst í huga og hann vildi ganga frá öllum sínum málum. Hann talaði hreinskilnislega um dauðann sem var óumflýjanlega á næsta leiti en vonandi ættum við samt sem áður eftir að hittast aftur og vinna meira saman áður en hann færi. Svona var Hugo, skildi viðmælandann ætíð eftir með jákvæðar hugsanir og von í brjósti.

Það er sjónarsviptir að manni eins og Hugo Þórissyni, manni sem hafði svo mikið að gefa umhverfi sínu, vildi bæta heiminn og hafði til þess svo einstaka hæfileika. Við hjá Sölku kveðjum hann með söknuði, virðingu og þakklæti og sendum fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

Hildur Hermóðsdóttir.

Í dag kveð ég Hugo Þórisson samstarfsfélaga og vin. Fallinn er góður félagi, fagmaður og mannvinur hinn mesti. Þegar ég hitti Hugo fyrst í gegnum vinnu mína í Kársnesskóla náðum við strax saman. Við áttum það sameiginlegt að unna öllu því sem danskt var og við höfðum þekkst í 30 mínútur þegar Hugo sýndi mér stoltur myndir úr brúðkaupi sonar síns í Danmörku.

Hugo var einstakur samstarfsfélagi og sýn hans á heim barnsins var aðdáunarverð. Hann sá alltaf það besta í hverjum og einum og kunni svo sannarlega sitt fag. Ég leitaði oft til Hugos í mínu starfi og hann ráðlagði mér og leiðbeindi, hann hrósaði mér og hvatti mig áfram. Hann var alltaf til í að hlusta og gaf sér alltaf tíma til að setjast niður og spjalla. Hann var mikill fjölskyldumaður, unni Ragnheiði sinni heitt og börnin voru honum nákomin. Hann talaði um fólkið sitt af mikilli umhyggju og ást og var óendanlega stoltur af því.

Hugo kynnti mig fyrir sumarbúðum CISV-samtakanna sem afkomendur hans hafa tekið þátt í og nú hafa þrír af fjórum sonum mínum farið í sumarbúðir á vegum þessara góðu samtaka.

Hugo reyndist mér ekki bara mikill lærifaðir í samskiptum við börn í tengslum við starfið í Kársnesskóla, hann aðstoðaði mig líka með einn af sonum mínum og það gerði hann af mikilli fagmennsku og alúð. Þar eigum við fjölskyldan Hugo mikið að þakka.

Ég hef dáðst að æðruleysi Hugos síðustu ár, hann sagði mér sjálfur frá því þegar hann greindist með krabbamein og upplýsti mig alltaf um hver staðan var fram á síðasta dag. Hann var aldrei reiður eða beiskur, hann horfði fram á veginn og þegar við töluðum saman síðast í síma ætlaði hann að fara að undirbúa jólin. En krabbinn gefur engum grið, Hugo tapaði þessum slag eins og alltof margir. Það er huggun harmi gegn að eftir hann liggja ótal greinar, fyrirlestrar, bók og leiðbeiningar sem nýtist okkur áfram.

Fyrir nokkrum árum sendi ég Hugo þessa vísu eftir föður minn, Óttar Einarsson.

Þakklætis- er kveðjan klökk;

– kærum heillavini –

sendir hugur heila þökk

Hugo Þórissyni.

Innst í hjarta er nú skráð

einlæg þökk – að muna,

fyrir stuðning, fyrir ráð,

fyrir vináttuna.

Ragnheiði og börnum þeirra Hugos, tengdabörnum og barnabörnum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Þuríður

Óttarsdóttir.

Kveðja frá Snælandsskóla

Góður samstarfsmaður, Hugo Þórisson, er fallinn frá og fráfallið kom ekki á óvart. Við höfum fylgst með baráttu hans við illvígan sjúkdóm síðustu ár og í þeirri baráttu kom persónuleiki hans vel í ljós. Hann var heiðarlegur í umfjöllun sinni um veikindi sín bæði gagnvart sjálfum sér og öðrum. Hugo starfaði við Snælandsskóla frá árinu 2002 og allt fram á þennan dag.

Hann var sálfræðingur og ráðgjafi sérdeildar á unglingastigi sem hann sinnti af einstakri alúð og fagmennsku. Það var bæði gefandi og lærdómsríkt að vinna með Hugo. Á vinnufundum okkar í gegnum árin var ávallt gott að leita ráða hjá sálfræðingnum Hugo. Hann var í senn góður hlustandi og góður spyrjandi, jákvæður og uppbyggjandi. Hann hafði einstakt lag á að sjá það jákvæða, hrósa og benda á það sem vel var gert.

Við munum sakna hlýjunnar sem skein úr andliti hans og glaðlegrar kveðjunnar þegar hann birtist á kaffistofu okkar í Snælandsskóla. Vinnufundirnir með honum verða ekki fleiri en við tökum minningarnar og Hollráð Hugos með okkur inn í framtíðina. Ragnheiði eiginkonu Hugos og fjölskyldunni allri sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Fyrir hönd starfsmanna Snælandsskóla,

Magnea Einarsdóttir, Kristrún Hjaltadóttir og Guðrún Geirsdóttir.

Kveðja frá Kársnesskóla

„Kaustu þetta ekki sjálfur,“ sagði Hugo með glettnisbros á vör. Engin meðvirkni þar. Þetta var rétt fyrir páskafrí í skólanum og ég hafði verið að æðrast yfir því í samtali okkar að það yrði nú ekki mikið um frí hjá mér yfir hátíðirnar vegna messusöngs. „Jú, ég kaus þetta sjálfur,“ sagði ég, svolítið skömmustulegur, og við hlógum báðir.

Hugo var góður hlustandi og frábær greinandi á mannlega hegðun og dýpri sár og mein. Okkar kynni hófust þegar skólarnir á Kársnesinu í Kópavogi, Þinghólsskóli og Kársnesskóli, voru sameinaðir í einn. Ég þekkti til Hugos áður af orðspori hans sem skólasálfræðings, námskeiðshaldara og fyrirlesara. Eitt námskeið stóð þar upp úr. Það var námskeið sem Hugo hélt fyrir okkur kennara í „gamla Kársnes“ fyrir mörgum árum. Það var einfalt og einkar hagnýtt og ég minnti hann á það skömmu eftir að samstarf okkar hófst. Hann minntist þessa tíma og þótti vænt um að ég myndi þetta svo glöggt. Samstarf okkar var, eins og gefur að skilja, á vettvangi stoðþjónustu skólans. Við áttum sæti, ásamt fleirum, í nemendaverndarráði skólans og sátum fundi með foreldrum og öðrum sem að málum nemenda komu. Á þessum fundum var ég ekki einungis samstarfsmaður Hugos heldur einnig lærlingur hans.

Í einkasamtölum okkar var gefandi að heyra Hugo ræða um kollega sína, erlenda og innlenda, hugmyndir þeirra og stefnur og strauma í uppeldismálum og stoðþjónustu við börn og fjölskyldur þeirra. Það var líka áberandi í þessum samtölum og einnig í samræðum sem fleiri tóku þátt í, hve mikill mannréttindamaður Hugo var, góðmenni með húmor og hvassan skilning á réttum stað. Þá var ekki síður fallegt að upplifa hve fjölskylda Hugos og vinir stóðu honum nærri og voru honum mikils virði.

Já, hann var góður hlustandi, græðari og vinur. Þegar við nú kveðjum góðan dreng og kæran samstarfsmann koma í hugann þessi orð: Mundu, þegar þú ferð um mannakurinn, að sá fræjum þínum sem eru góðvild, mannskilningur og samhyggð og fræinu góða sem vaxa mun gegn öllu því sem fer gegn mannlegri reisn.

Elsku Ragnheiður og fjölskyldan öll. Dýpstu samúðarkveðjur frá okkur öllum í Kársnesskóla.

Grétar Halldórsson.

Sálfræðingurinn Hugo er fallinn frá langt fyrir aldur fram. Hugo gekk í Sálfræðingafélag Íslands árið 1979, sama ár og hann hlaut starfsleyfi sem sálfræðingur. Hann var virkur í starfi félagsins og gegndi þar trúnaðarstörfum, m.a. sem formaður framkvæmdanefndar um norrænt þing sálfræðinga árið 1989. Hugo var formaður félagsins á árunum 1989 til 1995 þegar félagið var í örum vexti. Sem formaður sinnti Hugo verkum sínum af eftirtektarverðri ábyrgð, festu og ljúfmennsku, með faglegan metnað fyrir hönd stéttarinnar að leiðarljósi.

Hugo var gæddur miklum hæfileikum til að miðla þekkingu sinni og reynslu þannig að fádæma gagn og gaman þótti að. Aðdáunarvert var hversu auðvelt hann átti með að ná til fólks á öllum aldri, ekki einungis þess sem mætti á óteljandi fyrirlestra hans og námskeið heldur einnig til þeirra sem heima sátu og nutu ráða hans í fjölmiðlum, riti eða á fjölsóttri fésbókarsíðu hans „Hollráð Hugos“. Störf Hugos einkenndust af brennandi áhuga á sálfræðinni, uppeldismálum og samskiptum, sem og ákefð og húmor. Ákefðin slík að aðeins nokkrum dögum fyrir andlátið skrifaði hann færslu til foreldra á Hollráð Hugos.

Fyrir hönd Sálfræðingafélags Íslands vil ég votta fjölskyldu og nánustu aðstandendum dýpstu samúð. Félagar kveðja Hugo Þórisson með virðingu og þökk.

Hrund Þrándardóttir formaður.