[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Hörður Ægisson hordur@mbl.is Lítill hagnaður varð af rekstri sjávarútvegsfyrirtækisins Icelandic Group á síðasta ári sem endurspeglar að hluta til erfitt efnahagsástand á heimsvísu.

Baksvið

Hörður Ægisson

hordur@mbl.is

Lítill hagnaður varð af rekstri sjávarútvegsfyrirtækisins Icelandic Group á síðasta ári sem endurspeglar að hluta til erfitt efnahagsástand á heimsvísu. Samtals nam heildarhagnaður fyrirtækisins, sem er að fullu í eigu Framtakssjóðs Íslands, um 660 þúsund evrum eftir skatta, jafnvirði tæplega 110 milljónir króna. Þetta kemur fram í ársreikningi Icelandic sem var skilað til ársreikningaskráar ríkisskattstjóra hinn 11. september síðastliðinn.

Magnús Bjarnason, sem var ráðinn forstjóri Icelandic Group í desember 2012, segir aðspurður í samtali við Morgunblaðið að þrátt fyrir að afkoman hafi verið í takt við væntingar sé hún „ekki ásættanleg til lengri tíma litið.“

Hann bendir þó á að reksturinn hafi verið að styrkjast það sem af er ári eftir að ráðist var í skipulagsbreytingar sem miða að því að bæta rekstrarafkomuna. Annars vegar hafi þrjú dótturfélög í Bretlandi verið sameinuð í eitt og hins vegar hætti fyrirtækið starfsemi í Noregi og flutti hana til Íslands og Bretlands.

Icelandic Group hagnaðist um 62 milljónir evra árið 2011 sem skýrðist einkum vegna sölu eigna. Sölutekjur Icelandic, sem er á meðal stærstu sjávarútvegsfyrirtækja í Evrópu, jukust um ríflega 40 milljónir evra á milli ára og námu 566 milljónum evra af áframhaldandi starfsemi á árinu 2012. Rekstrarhagnaður fyrirtæksins var um 4,5 milljónir evra á árinu, sem er 400% aukning frá fyrra ári. „Við höfum náð betri árangri í okkar markaðsstarfi,“ útskýrir Magnús, „sem er að einhverju marki að skila sér í auknum rekstrarhagnaði.“

Heildareignir Icelandic í árslok 2012 námu 292,6 milljónum evra og eigið fé samstæðunnar var hátt í 130 milljónir evra. Eiginfjárhlutfall Icelandic Group var 44,2% en arðsemi á eigið fé var aðeins 0,4% á liðnu ári.

17,8 milljónir evra fyrir Gadus

Fram kemur í ársreikningi Icelandic að félagið hafi greitt 17,8 milljónir evra fyrir belgíska fiskvinnslufyrirtækið Gadus, en tilkynnt var um þau kaup í október á síðasta ári. Á síðasta ársfjórðungi 2012 skilaði belgíska fyrirtækið tekjum fyrir Icelandic að andvirði 18,4 milljónir evra og hagnaði sem nam 0,6 milljónum evra á tímabilinu.

Magnús segir að yfirtakan á Gadus hafi gengið mjög vel. „Við erum ánægð með þann árangur sem hefur náðst í Belgíu. Icelandic Group hefur tekist að auka hlutdeild sína á þeim markaði, en reksturinn þar byggist að stærstum hluta á fiski sem við erum að flytjan ferskan frá Íslandi.“

Lækkandi verð á sjávarafurðum á erlendum mörkuðum frá ásbyrjun 2012 hefur einkum markast af talsverðri lækkun á þorskverði. Vísbendingar eru þó um að sú verðlækkun hafi stöðvast. Að sögn Magnúsar eru aðstæður enn erfiðar á mikilvægum fiskmörkuðum í Suður-Evrópu. „Ástandið er tiltölega erfitt en markaðurinn hefur verið að aðlaga sig þessum breyttu aðstæðum. Stór hluti fyrirtækja á markaði með sjávarfang á Spáni er í gjaldþrotameðferð. Þrátt fyrir að það skapi nokkra óvissu á markaðnum til skemmri tíma getur það sömuleiðis falið í sér tækifæri fyrir okkur til lengri tíma.“

Magnús bendir á að þótt Icelandic horfi til þess að sækja fram á nýjum mörkuðum, til að mynda í Kína, þá skipti hinir rótgrónari fiskmarkaðir fyrirtækið enn miklu máli. „Okkur hefur vegnað nokkuð vel á Spáni samtímis gríðarlega erfiðum aðstæðum á markaði. Það er mikilvægt að halda þar sjó vegna þess að sá markaður mun koma aftur til baka.“

Eitt „svalasta“ vörumerkið

Fiskréttalína sem dótturfélag Icelandic í Bretlandi kynnti 2010 – The Saucy Fish Company – skilar fyrirtækinu 35 milljónum punda í tekjur 2013, jafnvirði um 7 milljarða króna.

Frá því var greint í breskum fjölmiðlum í gær að The Saucy Fish Company hefði í árlegri skoðanakönnum verið valið sem eitt af svölustu vörumerkjum Bretlands (e. CoolBrands), en önnur fyrirtæki á listanum eru m.a. Apple, Rolex, og Nike. Fyrirtæki í sjávarútvegi hefur aldrei áður komist á listann.

Magnús Bjarnason, forstjóri Icelandic, segir að til standi að fara með vörumerkið á Bandaríkjamarkað í ljósi þess árangurs sem náðst hefur í Bretlandi. „Við höfum byggt þetta upp við mjög krefjandi aðstæður, en vörumerki verslunarkeðjanna hafa hingað til verið algjörlega ráðandi. En þetta gefur okkur væntingar um að við getum sótt meira fram í smásölu.“