Inga Bjarney Óladóttir fæddist á Sveinsstöðum í Grímsey 16. júlí 1933. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 16. september 2013.

Foreldrar hennar voru Óli Bjarnason, f. 29.8. 1902 að Steindyrum á Látraströnd, d. 8.9. 1989 og Elín Þóra Sigurbjörnsdóttir, f. 1.1. 1909 á Sveinsstöðum, d. 16.2. 2003. Systkini Ingu eru Sigrún, f. 13.8. 1928, d. 22.7. 2004, Óli Hjálmar, f. 27.4. 1931, Willard Fiske, f. 1.3. 1936, Birna, f. 12.7. 1941, Garðar, f. 21.1. 1945 og Þorleifur, f. 18.7. 1954, d. 4.10. 1981.

Eftirlifandi eiginmaður Ingu er Björgvin Ólafur Gunnarsson, fæddur í Grindavík 9.4. 1936. Inga og Björgvin gengu í hjónaband 28.8. 1955. þau eignuðust fjögur börn. 1) Rúnar Þór, f. 15.10. 1955, giftur Karen Mjöll Elísdóttur, dætur Karenar eru Hildur María og Dagný, fyrri kona Rúnars var Viktoría Hafdís Valdimarsdóttir, f. 1.6. 1951, d. 21.12. 1996, og dóttir þeirra er Inga Fanney, f. 9.12. 1991, synir Hafdísar eru Valur og Haukur. 2) Hrafnhildur, f. 15.9. 1957. Börn hennar eru Hrund, f. 18.12. 1978, Hafliði, f. 18.12. 1978, d. 29.12. 1996, Björgvin, f. 21.6. 1984, Eyrún Ösp, f. 11.2. 1993. 3) Gunnhildur, f. 4.2. 1961, gift Símoni Alfreðssyni. Börn þeirra eru Inga Björg, f. 17.8. 1980, Sara, f. 2.9. 1983, Emil Daði, f. 2.6. 1988. 4) Óli Björn, f. 11.11. 1967, giftur Guðrúnu Jónu Magnúsdóttur. Börn þeirra eru Karen Lind, f. 29.4. 1989, Lórenz Óli, f. 10.2. 1992, Inga Bjarney, f. 1.9. 1999, Ólöf Rún, f. 19.5. 2001. Langömmubörnin eru orðin tíu.

Inga ólst upp í Grímsey hjá ástríkri fjölskyldu, 17 ára gömul fór hún til Noregs ásamt Óla bróður sínum og dvöldu þau þar í eitt ár. Hún gekk í Húsmæðraskólann á Laugum í Reykjadal þar sem hún eignaðist góðar vinkonur sem hún hefur alla tíð haft mikið samband við. Fyrstu tvö hjúskaparárin bjuggu Inga og Björgvin í Reykjavík en fluttust svo til Grindavíkur þar sem þau hafa búið síðan. Árið 1965 stofnuðu þau útgerðarfélagið Fiskanes ásamt þrennum öðrum hjónum og störfuðu þau við fyrirtækið til ársins 2000, en þá var Fiskanes sameinað öðrum fyrirtækjum. Inga kom mikið að ýmiss konar félagsstörfum og vann þar mikið og óeigingjarnt starf, og má þar nefna að hún sá um kaffi fyrir spilakvöld eldri borgara og vann mikið fyrir kvenfélagið.

Útför Ingu fer fram frá Grindavíkurkirkju í dag, 24. september 2013, kl. 14.

Elsku Inga tengdamóðir mín. Það er með tárum og trega sem ég skrifa þessi orð. Þú varst svo stór hluti af lífi okkar fjölskyldunnar alla tíð. Barnabörnin þín elskuðu að sofa hjá þér og afa og voru tíðar ferðir Lolla og Karenar á Leynisbrautina þegar þið bjugguð þar. Svo þegar þið fluttuð á Ásvellina varð samgangurinn enn meiri og þótti börnunum gott að hafa ykkur í sömu götu. Yngstu barnabörnin, þær Inga Bjarney og Ólöf Rún, eiga góðar minningar um þig. Þú gafst þeim að borða, huggaðir ef eitthvað bjátaði á, varst til staðar, hlustaðir og elskaðir skilyrðislaust. Jákvætt hugarfar þitt var með eindæmum og hláturmildi þín smitaði svo sannarlega út frá sér. Þú varst gleðigjafi og draumatengdamóðir. Stóðst með okkur Óla þínum í blíðu og stríðu, miðlaðir af reynslu þinni og gafst svo mikið af þér. Mig langar að vitna í hvað spámaðurinn segir um dauðann:

Og hvað er að hætta að draga andann annað en að frelsa hann frá friðlausum öldum lífsins, svo að hann geti risið upp í mætti sínum og ófjötraður leitað á fund guðs síns?

Aðeins sá, sem drekkur af vatni þagnarinnar, mun þekkja hinn volduga söng. Og þegar þú hefur náð ævitindinum, þá fyrst munt þú hefja fjallgönguna.Og þegar jörðin krefst líkama þíns, muntu dansa í fyrsta sinn.

(Kahlil Gibran)

Ég vona svo innilega að nú stígir þú dans við harmonikkutónlist með þínum nánustu sem farnir eru á undan þér. Hafðu þökk fyrir allt og allt. Minning þín lifir í hjarta mínu um ókomna tíð.

Þín tengdadóttir,

Guðrún Jóna Magnúsdóttir.

Nú er elsku amma mín farin frá okkur. Það er alveg ólýsanlegt hvað ég sakna þín mikið og hvað þetta er allt saman skrítið að hafa ekki lengur ömmu sem er alltaf hægt að fara í heimsókn til í næsta húsi. Eigum svo margar og skemmtilegar minningar saman eins og þegar þú varst að kenna mér að prjóna húfu og svo léstu mig alltaf gera of fáar lykkjur og þá hlógum við saman í langan tíma. Ég mun aldrei gleyma því þegar þú baðst mig um að koma að hjálpa þér að bera út jólakort og svo keyrðirðu bara á miðjum veginum og svo fannst þér það bara allt í lagi. Man þegar ég var aðeins yngri þá kom ég alltaf að gista hjá þér og afa, svo snérirðu baki í mig og sagðir svo: Kúrðu í bakið á ömmu. Ég gæti talið upp endalausar minningar um þig, elsku amma, en þær eru á sínum stað í hjarta mínu. Þú varst alltaf til í að hlæja og taka undir allt sem ég sagði og þér fannst ég alltaf jafn falleg. Ég mun aldrei gleyma þér og þú munt eiga stóran stað í hjarta mínu. Hvíldu í friði, elsku partí-amma.

Þín alnafna og ömmustelpa,

Inga Bjarney Óladóttir.

Okkur systkinin langar að minnast ömmu okkar.

Á okkar grunnskólagöngu var alltaf gott að koma heim til ömmu og afa á Leynisbrautina og fá eitthvað gott með kaffinu og jafnvel skutl heim í leiðinni. Ég man alltaf eftir fyrsta dansinum okkar í lokahófi fótboltans. Ömmu þótti ekki leiðinlegt að stíga nokkur dansspor með ömmubörnunum og fannst henni við alltaf langbestu dansararnir. Ég á svo margar góðar minningar um okkur þegar ég kom á Ásvellina til þín að greiða þér fyrir eitthvert tilefni, þú varst alltaf svo þakklát, það var alveg sama hvað ég gerði, það var alltaf alveg frábært. Amma hafði mikinn áhuga á fótboltanum í Grindavík, og þá sérstaklega ef barnabörnin voru að keppa. Hún var ekki alltaf sátt ef ég fékk ekki að spila og ætlaði amma stundum bara að fara og tala við þessa þjálfara. Hvað sem við systkinin gerðum, hvort sem það var gott eða slæmt, alltaf fannst ömmu við vera best og flottust. Ömmu fannst ekki leiðinlegt að fá langömmubörnin í heimsókn, og gotteríið var komið á borðið áður en við vissum af. Það sem einkenndi ömmu var það að hún var alltaf glöð og stutt var í grínið og aldrei sagði hún nei við okkur. Amma var alltaf tilbúin til þess að gera allt fyrir alla, svo góð kona var amma. Ömmu verður sárt saknað og munum við halda uppi minningu hennar með því að segja börnunum okkar frá því hversu ljúf og góð hún amma var.

Blessuð sé minning ömmu.

Inga Björg, Sara og Emil Daði.

Það er svo skrítið að geta ekki farið hinum megin í götuna og komið við og knúsað þig. Það er svo skrítið að geta ekki komið til þín á kvöldin og kúrt hjá þér. Það er svo skrítið að þú sért farin, það er allt svo rosalega skrítið án þín. Við eigum alveg óteljandi margar minningar saman. Ég man þegar ég kom við heima hjá ykkur afa þegar ég var að fara í búðina og þá spurðir þú alltaf: Vantar þig ekki aura? Og líka þegar við vorum úti á Tenerife árið 2011 og þú fórst í billjard með þinni glæsilegu frjálsu aðferð, við hlógum svo rosalega mikið eftir á. Þú varst alltaf hlæjandi, sama hvað maður sagði. Ég get talið svo miklu, miklu meira af minningum sem við eigum saman, en ég geymi þær bara í hjartanu mínu. Þú sagðir aldrei nei við mig og bara alla af því að þú varst besta amma í heiminum. Ég mun aldrei gleyma þér og þú átt alltaf eftir að eiga stað í hjartanu mínu. Ég elska þig alveg endalaust mikið og ég sakna þín líka alveg endalaust mikið. Hvíldu í friði, elsku besta amma mín.

Þín ömmustelpa,

Ólöf Rún Óladóttir.

Elsku fallega, fyndna og yndislega amma okkar hefur kvatt þennan heim og það er ekki hægt að lýsa því hvað það er sárt. Það er svo skrítið að koma heim til ömmu og afa núna, engin amma en minningarnar leynast í hverju horni.

Við höfum verið svo heppin að hafa alltaf átt í miklu og góðu sambandi við ömmu. Þau voru ófá skiptin sem við hringdum í ömmu og afa til að athuga hvort við mættum koma og gista, aldrei munum við eftir að okkur hafi verið neitað. Það var oft reynt að plata jólasveinana þegar þeir voru á ferli með því að setja stóru stígvélin hans afa í gluggann og hugsuðum við okkur gott til glóðarinnar. Þegar við vöknuðum daginn eftir var mikill spenningur en svekkelsið var líka mikið þegar við áttuðum okkur á því að við hefðum fengið sitt hvora ónýtu gulrótina, jólasveinninn lét ekki plata sig svo auðveldlega. Það var alltaf stuð hjá okkur, amma kenndi okkur að prjóna, leggja kapal og biðja bænir.

Amma var alltaf til í að fíflast með okkur. Tók úr sér tennurnar svo við gætum tekið myndir og þóttist vera sofandi við hin ýmsu tækifæri til að sjá hvernig fólk myndi bregðast við, svo hlógum við öll eins og vitleysingar. Það var líka mikið hlegið að ökuhæfni ömmu sem var oft á tíðum vafasöm. Hún var ekki mikið að stressa sig á umferðinni og keyrði óþarflega hægt, fannst okkur.

Utanlandsferðirnar okkar voru alltaf mikil gleði. Fullorðna fólkinu fannst óviðeigandi þegar við vorum að fá okkur í glas og aðeins farin að finna á okkur en henni ömmu fannst það skemmtilegt og fór hún bara með okkur á barinn þar sem voru drukknir kokteilar og hlegið þegar hún reyndi að tala við þjónana á íslensku með enskum hreim. Partí-amma lét sig aldrei vanta í partí, sama hvers kyns samkoma það var.

Aldrei skammaði amma okkur, hvort sem það var að borða allt kökudeigið sem hún ætlaði að nota í jólabakstur eða stelast í nammiskápinn. Þegar aðrir ætluðu að skamma þá tók amma alltaf upp hanskann fyrir okkur. Sama hvað við ákváðum að taka okkur fyrir hendur, hversu fáránlegt sem það var, þá var alltaf hægt að treysta á að amma myndi styðja mann í einu og öllu. Hún hafði óbilandi trú á sínu fólki og stoltið sem skein úr augunum yfir alls konar afrekum afkomendanna er ógleymanlegt.

Það er svo vont fyrir hjartað að hugsa til þess að maður eigi aldrei eftir að knúsa ömmu aftur eða kíkja í kaffi til hennar. Eftir situr sár söknuður og ótalmargar minningar sem er svo gott að geyma í hjartanu og rifja upp. Núna er hún loksins komin á betri stað og laus við alla verki, loksins sameinuð fólkinu sínu sem fór á undan. Við erum viss um að nú er kátt í höllinni og þau fylgist með sínu fólki sem eftir stendur.

Í bljúgri bæn og þökk til þín,

sem þekkir mig og verkin mín.

Ég leita þín, Guð, leiddu mig,

og lýstu mér um ævistig.

(Pétur Þórarinsson)

Elsku amma, það voru forréttindi að eiga þig svona lengi og verðum við ævinlega þakklát fyrir það og allt sem þú hefur gert fyrir okkur. Hvíldu í friði, elsku ömmugull, þín verður sárt saknað.

Þín,

Karen Lind og Lórenz Óli.

Elsku Inga systir. Alveg finnst mér ótrúlegt að þú skulir ekki vera lengur á meðal fólksins þíns, að við skulum ekki lengur heyra hláturinn þinn, sem var svo smitandi. Þú ólst upp á Sveinsstöðum í Grímsey innan um glaðan hóp systkina og ástríkra foreldra, þar sem saman fór söngur og mikil samheldni, þar sem við lærðum snemma að hjálpa til við öll verk sem til féllu á heimili okkar. Þú varst átta árum eldri en ég og viss fyrirmynd mín. Ég man hvað ég saknaði ykkar Óla þegar þið fóruð til Noregs, þú sautján ára og hann nítján. Þetta sýnir held ég hvað foreldrar okkar voru framsýn, en þau vissu að ykkur var vel borgið í höndunum á Magnúsi Årland skipstjóra, sem bauð ykkur að vera á heimili sínu í Bekkjarvík í Noregi í níu mánuði. Óli fór á sjóinn með honum, en þú varst á heimilinu og eignaðist Maríu og Herborgu fyrir vinkonur, dæturnar sem Magnús átti með Ólöfu konu sinni. Sú vinátta entist ævilangt og þegar þær systur fóru svo að koma í heimsóknir til þín með fjölskyldum sínum og ég fékk að kynnast þeim skildi ég fyrst hvað Noregsdvölin var ykkur Óla mikils virði. Mikið leit ég upp til þín þegar þú fórst í húsmæðraskólann á Laugum og lærðir þar ýmis fræði sem gera ungum konum léttara að takast á við heimilishald. Aldrei gleymi ég fallega kjólnum sem þú saumaðir á mig fyrir ferminguna mína. Í Húsmæðraskólanum tengdist þú sterkum vináttuböndum sem héldust alla tíð síðan. Þú varst einkar lagin við allt heimilishald, sem kom sér vel þegar þú giftist Venna þínum og eignaðist með honum börnin ykkar fjögur, sem nú syrgja elskandi móður. Þá hafa ömmubörnin þín fengið að njóta mikils kærleika, að ég tali nú ekki um langömmubörnin. Já, það er erfitt að trúa því að við eigum ekki eftir að heyra hláturinn þinn oftar, en ég veit að allir sem þig þekktu minnast þín sérstaklega fyrir alla glaðværðina og fallega brosið þitt. Fræg er sagan innan fjölskyldunnar, þegar þú sem stelpa hlóst heila nótt af því að kennarinn í Grímsey fékk sér nýjar tennur, sem reyndust einu eða tveimur númerum of stórar. Já, eins má nefna þegar þú tókst sundprófið hjá Óskari á Laugum og fékkst þessa líka fínu einkunn. Hinum stelpunum fannst þetta ekkert sniðugt en þá sagði Óskar sundkennari að hann vissi vel hvað þú værir góð að synda en þú bara hlóst svo mikið. Við ætluðum svo margt að gera saman í ellinni, svo sem að heimsækja vinina í Bekkjarvík en það verður víst að bíða þangað til við hittumst næst. Núna þakka ég fyrir að hafa átt þig sem systur og góða vinkonu. Ég trúi því að Hafliði þinn, Sigrún systir, mamma og pabbi og Lalli bróðir, sem fór svo ungur frá okkur, hafi verið í móttökunefndinni. Það er líka gott að nú ertu búin að fá heilsuna aftur sem var búin að vera afar léleg síðustu árin. Allri fjölskyldu þinni votta ég samúð mína og bið góðan Guð að styrkja þau í þessari miklu sorg.

Elsku systir, hafðu þökk fyrir allt og allt. Við sjáumst í næsta lífi.

Þín elskandi systir,

Birna Óladóttir.

Það er sárt að hugsa til þess að elsku Inga systir og mágkona sé nú farin frá okkur og að samverustundirnar verði ekki fleiri að sinni.

Við systkinin vorum svo lánsöm að alast upp í stórum systkinahópi við ást og umhyggju yndislegra foreldra, ömmu og afa. Ung kona kynntist Inga svo Venna sínum, giftist honum og hófu þau búskap í Grindavík. Það má segja að það hafi verið upphafið að því að við tvö af yngri systkinum hennar kynntumst okkar mökum og fluttumst þangað líka.

Þegar við hugsum til baka er okkur efst í huga hvað fjölskyldur okkar hafa í gegnum tíðina tengst sterkum böndum. Inga og Venni voru stórhuga hjón og ákváðu að byggja sér einbýlishús við Mánagötuna og hvöttu okkur til að gera slíkt hið sama. Úr varð að við byggðum okkur eins hús, hlið við hlið og var það ákvörðun sem við sáum ekki eftir, því nábýlið þessi fyrstu búskaparár okkar hefur án efa átt sinn þátt í því að samband fjölskyldnanna hefur alltaf verið mikið og gott.

Eftir að hafa starfað hjá öðrum um nokkurra ára skeið langaði okkur að stofna okkar eigið fyrirtæki og gerðum það ásamt Birnu og Dagbjarti og Rósu og Kristjáni. Það reyndist okkur öllum gæfuspor og styrkti enn fjölskyldu- og vinabönd.

Samverustundirnar með Ingu og Venna í gegnum tíðina eru óteljandi og minningarnar margar og skemmtilegar. Minnisstætt er t.d. sumarið þegar við leigðum saman hús rétt við Hirtshals í Danmörku í þrjá mánuði. Eiginmennirnir voru þá á síldveiðum í Norðursjó og lönduðu í Hirtshals og þótti því tilvalið að fara með allan hópinn út og að fjölskyldurnar tvær byggju saman um sumarið. Þetta var í alla staði frábært sumar og eigum við um það margar minningar sem oft hafa verið rifjaðar upp. Ferðirnar með Ingu og Venna urðu margar og eftirminnilegar en það þurfti þó ekki nein sérstök tilefni eða uppákomur til að við gætum skemmt okkur saman. Einfaldar samverustundir yfir kaffibolla í eldhúsinu nægðu okkur alveg og voru yfirleitt hin mesta skemmtun. Það sem þessar góðu samverustundir okkar með Ingu og Venna eiga sameiginlegt er að allar einkenndust þær af kærleik og umhyggju, gleði og hlátri. Enda vináttan sönn og samheldnin mikil.

Eins og allir vita sem þekktu Ingu þurfti ekki mikið til að kitla hláturtaugarnar hjá henni. Ótrúlegustu hlutir gátu komið henni til að hlæja og er óhætt að segja að flissið hafi oft komið okkur í vandræði. Ýmislegt var brallað og í utanlandsferðunum voru oftar en ekki einhver „ótrúlega sniðug“ innkaup sem átti að reyna að halda leyndum fyrir eiginmönnunum. Þessu leynimakki fylgdu alls konar uppákomur sem vöktu mikla kátínu og hlátur. Ekki voru þó slóttugheitin meiri en svo að oftar en ekki komst upp um kellur, þótt það hefði nú aldrei neina eftirmál.

Elsku Inga okkar, við þökkum þér samfylgdina í gegnum lífið og biðjum guð að varðveita þig.

Elsku Venni og fjölskylda, megi góður guð styrkja ykkur í sorginni.

Willard og Valgerður.

Það er með sorg í hjarta og söknuði sem ég kveð elsku Ingu frænku.

Inga föðursystir mín var yndisleg kona, jákvæð og skemmtileg, stríðin og umfram allt einstaklega hláturmild. Ég var svo lánsöm sem barn að mikill samgangur var milli fjölskyldu minnar og Ingu og hennar fjölskyldu og fékk ég því að kynnast þessari skemmtilegu frænku mjög vel. Samverustundirnar voru ótal margar í gegnum árin og minningarnar ljúfar og skemmtilegar.

Sumarið sem ég varð sex ára bjuggum við þessar tvær fjölskyldur saman í húsi í þrjá mánuði í Danmörku. Pabbi og Venni voru á síld í Norðursjónum og komu í land af og til og mamma og Inga hugsuðu um barnahópinn. Þetta var ógleymanlegt sumar og minningarnar margar, en þó einkum tvennt sem við Inga rifjuðum reglulega upp. Í Hirtshals, þar sem við bjuggum, var mikil hundamenning. Það áttu hreinlega allir hund, nema við. Okkur Óla Birni fannst þetta auðvitað alveg ófært, en fundum leið til að bæta úr þessu, mæðrum okkar til mismikillar gleði. Lausnin var einföld, Óli Björn lék hund og ég teymdi hann um allt í ímynduðu bandi hvort sem við vorum stödd í verslunum eða annarsstaðar. Þó svo að Inga og mamma hafi auðvitað oft skammast sín fyrir þetta uppátæki okkar og jafnvel stundum ekki þóst þekkja þessi börn sem hegðuðu sér svona undarlega, þá fannst þeim þetta líka mjög fyndið.

Þar sem ég var yngsta barnið í þessum tveimur fjölskyldum þótti eðlilegast að ég færi fyrst að sofa á kvöldin. Og þar sem ég hef alltaf verið langt frá því að vera kvöldsvæf, ólíkt Ingu frænku minni, þótti mér þetta ákaflega ósanngjörn regla og reyndi að mótmæla henni. Ekki veit ég hvort ég man nú sjálf svo vel eftir þessum mótmælum mínum en minningin er engu að síður mjög sterk. Inga hefur nefnilega í gegnum tíðina reglulega leikið það fyrir mig, þegar ég stóð syfjuleg með hönd undir kinn og olnbogann á píanóinu í stofunni og múðraði eitthvað við þær yfir því að þurfa að fara að sofa. Henni þóttu þessi máttleysislegu mótmæli mín alltaf jafn fyndin.

Inga frænka var einfaldlega ein af þeim manneskjum sem gera lífið skemmtilegra. Hún varðveitti barnið í sjálfri sér. Tók sjálfa sig ekki of hátíðlega, var brosmild og alltaf til í smá fíflagang og það eru að mínu mati eftirsóknarverðir eiginleikar.

Inga var lánsöm kona því hún átti stóra fjölskyldu sem studdi hana og umvafði hana ást og kærleika á sama hátt og hún þau. Hún var líka ákaflega ánægð með og stolt af hópnum sínum. Ég veit að hún vakir ennþá yfir þeim og allar fallegu minningarnar sefa sorg þeirra nú.

Elsku Inga frænka ég þakka þér fyrir samfylgdina. Allar minningarnar, brosið og smitandi hláturinn þinn mun ég varðveita í hjarta mínu um ókomna tíð.

Guðrún Willardsdóttir

og fjölskylda.