Einfalt og þægilegt er að stjórna blæstri miðstöðvarúða með því einu að toga í hnappinn í miðju hennar.
Einfalt og þægilegt er að stjórna blæstri miðstöðvarúða með því einu að toga í hnappinn í miðju hennar. — Morgunblaðið/Njáll Gunnlaugss
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýr Audi A3 er kominn á markað í kjölfarið á nýjum VW Golf, en báðir þessir bílar nýta sama MQB-undirvagninn. Audi A3 er vinsælasti bíllinn sem bílamerkið frá Ingolstadt hefur framleitt en fimmti hver Audi í heiminum er A3.

Nýr Audi A3 er kominn á markað í kjölfarið á nýjum VW Golf, en báðir þessir bílar nýta sama MQB-undirvagninn. Audi A3 er vinsælasti bíllinn sem bílamerkið frá Ingolstadt hefur framleitt en fimmti hver Audi í heiminum er A3. Þetta er þriðja kynslóð þessa vinsæla bíls en hann keppir á mjög svo hörðum markaði minni millistærðarbíla. Hans helstu keppinautar eru þó samlandar hans frá Þýskalandi, BMW-ásinn og A-Benzinn. Allir þessir bílar eru vel búnir í grunninn og bjóða líka upp á vel búnar útfærslur eins og blaðamaður Morgunblaðsins reyndi á dögunum.

Breytingarnar undir niðri

Við fyrstu sýn virðist A3 ekki hafa breyst mikið í útliti og er það í samræmi við áherslur annars staðar í VW-fjölskyldunni, því það sama var sagt um nýjustu kynslóð VW Golf. Líkt og í honum eru þó viðamiklar breytingar á ferðinni undir niðri og nýr A3 er nú orðinn léttari en helstu keppinautar hans. Það skiptir heilmiklu máli í flokki sem leggur ekki síst áherslu á aksturseiginleika samhliða hagkvæmni. Þökk sé nýja undirvagninum er A3 80 kg léttari en fyrri kynslóð en samt sterkari og rúmbetri. Sportleg axlarlína bílsins hækkar aftur með honum og breiðir C-bitar setja sportlegt yfirbragð á hann en um leið gerir þetta sitt til að minnka útsýni aftur með bílnum.

Þótt A3 sé ekki stærsti bíllinn í sínum flokki nýtir hann plássið vel og þá sérstaklega í aftursætunum. Aftursætum er vel fyrir komið og ráða þau vel við tvo barnabílstóla auk þriðja farþegans. Isofix-festingarnar eru einfaldar og aðgengilegar, sem er kostur sem ekki er alltaf fyrir hendi í bílum sem þessum. Framsætin eru rúmgóð og þægileg fyrir bíl í þessum stærðarflokki og í raun og veru er farangursrýmið eini staðurinn þar sem rýmið mætti vera örlítið meira. Góð opnun hlerans bætir þar úr en fyrir þá sem vilja meira pláss þar má einfaldlega bíða eftir langbaknum.

Einfaldlega gott mælaborð

Það er langt síðan blaðamaður hefur prófað bíl með jafnvel uppsettu mælaborði og í Audi A3. Þar eru það litlu atriðin sem skipta máli og hlutir sem gera aksturinn einfaldari en ekki flóknari. Til dæmis er mælaborðið aðeins tveir hringir með upplýsingaskjá á milli. ¾ af hraðamælishringnum sýna hraða bílsins en afgangurinn hita vélarinnar, og hægra megin er hringnum skipt í snúningshraða- og bensínmæli. Allar margmiðlunarupplýsingar koma fram á sjö tommu upplýsingaskjá sem sprettur upp úr miðjustokki þegar bíllinn er ræstur, líkt og í dýrari gerðum Audi. Þaðan má stjórna aksturstölvu, símabúnaði og í þessu tilfelli öflugum Bang & Olufsen-hljómtækjum gegnum svokallað MMI-kerfi. Það er í raun og veru snertivænn hnappur sem auðveldar allar aðgerðir á skjánum líkt og stóru kúlumýsnar gerðu fyrir heimilistölvurnar. Blaðamaður hefði þó kosið að einfalda hlutina enn frekar með snertiskjá líkt og í Golf en því er ekki að heilsa. Þeim tökkum sem ekki er hægt að koma fyrir í margmiðlunarpakkanum er einfaldlega raðað á sömu línu og álröndin sem nær þvert yfir allt mælaborðið. Þar eru þeir aðgengilegir á fljótlegan máta og maður veltir því fyrir sér af hverju öll mælaborð eru ekki svona einföld í notkun.

Aflmikil en sparneytin

Í nýjum Audi A3 eru allar vélar sem í boði eru nýjar eða endurhannaðar.

Með 1,4 lítra vélinni næst fram góð blanda sparneytni og afls, sem er vel viðunandi. Því miður hafa margir framleiðendur farið þá leið í eltingaleik sínum við sífellt lægri eyðslutölur að minnka vélarnar sem í boði eru. Hjá Audi er 1,4 lítra vélin næstminnsta vélin og sú minnsta sem hér er í boði, en skilar samt 122 hestöflum og heilum 200 Newtonmetrum. Samt er CO-gildi hennar aðeins 116 g/km og eyðslan fimm lítrar á hundraðið samkvæmt framleiðanda vel að merkja. Þetta næst með því að nota kerfi sem kallast „Audi cylinder on demand“ eða strokk eftir þörfum. Þegar ekki er lengur þörf á öllu afli vélarinnar slekkur hún á tveimur strokkum og minnkar þannig bæði eyðslu og útblástur.

Akstur bílsins er léttur og þægilegur, fjöðrun mátulega stíf án þess að vera höst á ört fjölgandi hraðahindrunum borgarinnar. Stýrið er snöggt að bregðast við hreyfingum en það sama er ekki hægt að segja um tölvustýrða „Fly by wire“-bensíngjöfina. Við létt ástig virkar hún sein að taka við sér og það er ekki fyrr en stigið er snöggt á hana sem manni finnst hún skila réttu viðbragði.

Keppinautar kosta svipað

Grunnverð Audi A3 er 4.640.000 kr. og sjálfskiptur eins og prófunarbíllinn var kostar hann rétt tæpar fimm milljónir. Það er nánast sama verð og í ásnum frá BMW og A-línu Benz. Fjórði keppinautur væri einnig Volvo V40 sem er aðeins fáanlegur með dísilvélum en ódýrasti V40-bíllinn kostar 4.790.000 kr. Því þarf að bera saman grunnbúnað þegar þessir bílar eru bornir saman en þar munar nokkru milli gerða eftir vélarstærðum og þess háttar.

Eins er aukabúnaður ekki gefins í þessum bílum og kostar til að mynda einfaldur búnaður eins og bakkskynjari að aftan heilar 100 þús. krónur í Audi A3.

njall@mbl.is