Erlendir ökumenn sem leið eiga um Kambrúarskíri í Englandi (Cambridgeshire) hirða lítt um að borga í stöðumæla. Fyrir bragðið verður sýslan af vænum tekjum.

Erlendir ökumenn sem leið eiga um Kambrúarskíri í Englandi (Cambridgeshire) hirða lítt um að borga í stöðumæla. Fyrir bragðið verður sýslan af vænum tekjum.

Hér er um að ræða bíla með erlendum númeraplötum, en heildarskuld þeirra við bílastæðasjóð skírisins fyrir 2012 og það sem af er ári nemur 118 þúsund pundum, jafnvirði um 22 milljóna króna.

1.682 skulduðu

Um mánaðamótin skulduðu 1.682 ökumenn erlendra bíla stöðusektir á bilinu 50 til 70 pund, eða frá 9-13 þúsund krónur.

Talsmaður Kambrúarskíris segir að allt verði gert til að reyna að innheimta sektir en til þess hafa þau eitt ár frá því sektarmiði var gefinn út. „Við ætlumst til þess af ökumönnum sem gómaðir eru fyrir að leggja ólöglega að borga sekt sína, alveg óháð því hvar bíll þeirra er skráður,“ segir hann.

Vita upp á sig skömmina

Ekki er víst að það reynist svo auðvelt því Bretar vita sjálfir upp á sig skömm í þessum efnum; fyrir að borga ekki sektir fyrir að leggja ólöglega í öðrum ríkjum Evrópusambandsins. Nær öll sendiráð ESB-landanna í London hafa nefnilega kvartað undan tregðu og seinagangi við að upplýsa um eigendur slíkra bíla. Þegar þær upplýsingar eru loks veittar er frestur til að innheimta skuldir, eitt ár og einn dagur frá því sektarmiði var skrifaður, svo gott sem runninn út.

agas@mbl.is