Völlurinn Ungir knattspyrnumenn leika sér á heimavelli KV í Vesturbænum en samkvæmt reglum KSÍ ber félögum í 1. deild skylda til að tefla fram liðum í yngri flokkum. Þá er áhorfendaaðstaða á vellinum ekki til staðar í dag.
Völlurinn Ungir knattspyrnumenn leika sér á heimavelli KV í Vesturbænum en samkvæmt reglum KSÍ ber félögum í 1. deild skylda til að tefla fram liðum í yngri flokkum. Þá er áhorfendaaðstaða á vellinum ekki til staðar í dag. — Morgunblaðið/Golli
Fótbolti Tómas Þór Þórðarson tomas@mbl.is Knattspyrnufélag Vesturbæjar, KV, sem samanstendur mestmegnis af gömlum KR-ingum og vinum úr Vesturbænum, vann það magnaða afrek að komast upp í 1.

Fótbolti

Tómas Þór Þórðarson

tomas@mbl.is

Knattspyrnufélag Vesturbæjar, KV, sem samanstendur mestmegnis af gömlum KR-ingum og vinum úr Vesturbænum, vann það magnaða afrek að komast upp í 1. deild karla í fótbolta um helgina en þetta kornunga félag fagnaði fyrir viku níu ára afmæli sínu.

Félagið spilar heimaleiki sína á gervigrasvelli KR, 100 metra frá aðalvellinum, en þar er engin aðstaða fyrir áhorfendur og stenst hann að mörgu leyti ekki leyfiskröfur KSÍ fyrir lið í 1. deild. KV-menn þurfa að taka til hendinni á næstu vikum og mánuðum til að komast í gegnum leyfiskerfið en formaður félagsins lofar því að KV muni spila á heimavelli sínum sem jafnan er kallaður KV-Park.

Frestur til eins árs

„Félag sem kemur nýtt upp um deild fær frest til aðlögunar (undanþágu). KV þarf í raun stúku með 300 sæti auk þess að uppfylla aðrar mannvirkjakröfur,“ segir Ómar Smárason, leyfisstjóri KSÍ, í samtali við Morgunblaðið en það þýðir að KV getur spilað á heimavelli sínum næsta sumar að því gefnu að það leggi fram verkáætlun um nýja stúku.

„Það þarf framkvæmdaáætlun með staðfestingu á hvenær verkinu á að vera lokið og þvíumlíkt. Fresturinn er aðeins til eins árs en síðan hefur félagið líka möguleika á að spila annars staðar eins og á KR-vellinum eða úti á Gróttu til dæmis,“ segir Ómar sem vill þó meina að erfiðast fyrir KV verði að uppfylla skilyrði um yngri flokka starf.

„Það verður stóra áskorunin fyrir KV í þessu máli. Svona eru reglurnar og ég veit ekki til þess að það hafi eitthvað verið rætt að breyta þeim. Ef menn ætla að spila í deild þar sem þarf að undirgangast leyfiskerfi verða menn að gangast við því,“ segir Ómar Smárason.

Gerir kröfu að KSÍ hjálpi KV

Páll Kristjánsson er þjálfari og formaður KV. „Eina sem ég get sagt í þessum efnum er að KV mun uppfylla öll þau skilyrði sem þarf til að spila í 1. deild,“ segir hann við Morgunblaðið en hefur svona „vinalið“ efni á að kaupa steypu og járn fyrir milljónir króna?

„Það er ekkert leyndarmál að við vöðum ekkert í peningum en engu að síður myndum við vilja að KSÍ aðstoði okkur í þessum efnum. Við erum aðildarfélag sambandsins og við kjósum þessa menn til að vinna fyrir okkur. Ég geri því kröfu til þess að það hjálpi okkur að leysa öll þau vandamál sem koma upp. Annars erum við með góða verktaka á okkar snærum sem myndu gera þetta fyrir lítið. Okkar velgjörðarmenn myndu líka hjálpa til og jafnvel vinir okkar í KR. Við erum byrjaðir að kynna okkur þetta og munum uppfylla öll skilyrði sem þarf,“ segir Páll, en kemur ekki til greina að spila á Gróttuvellinum sem er stutt frá og uppfyllir öll skilyrði? „Við myndum aldrei leita út á Seltjarnarnes,“ segir Páll ákveðinn.

Þjónar ekki íslenskum fótbolta

Formaðurinn hefur engar áhyggjur af kröfum KSÍ um unglingastarf hjá liðum í 1. deild og ætlar ekki einu sinni að spá í það fyrr en snúið verður upp á hendurnar á mönnum.

„Ég trúi ekki að KSÍ geri þá kröfu að við förum í samkeppni við Gróttu og KR um krakka í Vesturbænum. KSÍ getur ekki ætlast til þess. Ég hef ekki nokkrar áhyggjur af þessu enda veit ég að þetta eru almennt skynsamir menn sem vita að það þjónar ekki íslenskum fótbolta að KV sé með unglingastarf,“ segir Páll en ef þeirri kröfu verður framfylgt þá verður því bjargað eins og öðru.

„Ef menn vilja að það sé verið að leika í kringum reglurnar þá gerum við það bara. Ég veit ekki til þess að tilgangurinn með þessu sé að menn séu að komast framhjá reglunum en ef til þess kemur gerum við það.“

Aðspurður að lokum hvort formaðurinn lofi stuðningsmönnum KV að liðið spili á heimavelli sínum næsta sumar og 2015 haldi liðið sér uppi svarar Páll um hæl: „Það er engin spurning!“

Reglur KSÍ
um unglingastarf
» Gerð er krafa um tiltekinn fjölda unglingaliða hjá leyfisumsækjanda sem eru skilgreindur hluti af félaginu, eða bundin félaginu á löggildan hátt samkvæmt keppnisreglum KSÍ. Miða skal við eftirfarandi:
» a) A.m.k. tvö (eitt í 1. deild) unglingalið á aldrinum 15-19 ára (2. og 3. flokkur)
» b) A.m.k. tvö unglingalið á aldrinum 11-14 ára (4. og 5. flokkur)
» c) A.m.k. eitt lið fyrir aldurinn 10 ára og yngri (6. flokkur).