Skilti Börkur hélt uppi skilti þar sem á stóð: „Sekur uns sakleysi er sannað?“ þegar hann mætti í Hæstarétt í gærmorgun. Mál á hendur honum og Annþóri Kristjáni var tekið fyrir og var viðbúnaður lögreglu mikill.
Skilti Börkur hélt uppi skilti þar sem á stóð: „Sekur uns sakleysi er sannað?“ þegar hann mætti í Hæstarétt í gærmorgun. Mál á hendur honum og Annþóri Kristjáni var tekið fyrir og var viðbúnaður lögreglu mikill.
Andri Karl Kristinn Ingi Jónsson Saksóknari viðurkenndi fyrir Hæstarétti í gær að rannsókn lögreglu í máli ákæruvaldsins á hendur Annþóri Kristjáni Karlssyni og Berki Birgissyni hefði ekki verið gallalaus.

Andri Karl

Kristinn Ingi Jónsson

Saksóknari viðurkenndi fyrir Hæstarétti í gær að rannsókn lögreglu í máli ákæruvaldsins á hendur Annþóri Kristjáni Karlssyni og Berki Birgissyni hefði ekki verið gallalaus. Hann tók einnig undir athugasemdir verjenda um að samantektir lögreglu úr skýrslutökum hefðu ekki verið nægjanlega nákvæmar.

Annþór og Börkur mættu í Hæstarétt í gærmorgun þegar mál á hendur þeim var tekið fyrir. Þeir voru ákærðir fyrir sérstaklega hættulegar líkamsárásir, ólögmæta nauðung, frelsissviptingu og tilraunir til fjárkúgunar og hlutu sjö og sex ára fangelsi fyrir í héraði.

Eins og ævinlega þegar þeir koma fyrir dóm var lögregla með mikinn viðbúnað. Þannig fengu þeir ekki að sitja saman heldur voru lögreglumenn á milli þeirra og einnig beggja vegna við þá. Þá voru fleiri lögreglumenn í dómsalnum. Ekkert óvænt kom þó upp og voru Annþór og Börkur líkastir kórdrengjum þar sem þeir fylgdust með málflutningi. Börkur hélt hins vegar uppi skilti þar sem á stóð: „Sekur uns sakleysi er sannað?“

Einn bar sakir á Börk

Saksóknari hóf málfutninginn og fór fram á að Hæstiréttur þyngdi refsingu þeirra. Mest var fjallað um 1. ákærulið en minna um ákæruliði 2 og 4. Í 1. ákærulið var níu karlmönnum gefin að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás með því að hafa að kvöldi 4. janúar 2012 í íbúð í Mosfellsbæ veist að fjórum mönnum. Í ákæru segir að mennirnir hafi sameiginlega tekið ákvörðun um að fara þangað vopnum búnir. Fyrstir inn í húsið hafi farið Annþór og Börkur, með leyfi húsráðanda, en Annþór hafi svo gefið hinum merki um inngöngu og þeir farið inn í heimildarleysi. Þar hafi þeir veist að húsráðanda og öðrum með hættulegum vopnum og bareflum, þar á meðal sleggju, handlóðum og golfkylfum.

Saksóknari sagði framburð [K], eins þeirra sem dæmdur var fyrir árásina, hjá lögreglu afar mikilvægan en hann sagðist hafa séð Börk ráðast á húsráðanda. Maðurinn breytti framburði sínum þegar hann gaf skýrslu fyrir dómi og sagðist hafa logið til að losna úr gæsluvarðhaldi. Saksóknari sagði hins vegar ljóst þegar skýrslutakan er skoðuð að [K] var sáttur þegar hann gaf skýrsluna og tók sér meira að segja hlé til að ræða við verjanda sinn í gegnum síma. Í næstu skýrslutöku hafi hann svo staðfest það sem hann sagði.

Jafnframt sagði saksóknari framburð Annþórs og Barkar um að þeir hefðu ætlað að innheimta skuld hjá húsráðanda hafa verið einkennilegan, en um var að ræða 50 þúsund krónur. „Er þetta upphæð sem krefst þess að hún sé rukkuð í þessum flýti? Af hverju lá svona á? Það má færa rök fyrir því að þarna hafi verið um að ræða átyllu sem menn hafi gert sér upp til að komast inn í húsnæðið.“

Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Annþórs, fór fram á að dómurinn yrði ómerktur, en til vara að Annþór yrði sýknaður eða refsing felld niður. Hann gerði miklar athugasemdir við rannsóknaraðgerðir lögreglunnar og sagði byggt á því að lögregla hefði ekki fylgt skyldu sinni um að gæta bæði atriða sem horfa til sýknu og sektar. Þá sagði hann að samantektum lögreglu upp úr skýrslutökum hefði verið stórkostlega ábótavant. Því sleppt sem horfði til sýknu og orðalagi breytt sakborningum í óhag.

Jafnframt tók hann eitt atriði út. Það er að aðrir sakborningar tjáðu sig ekki um þátt Annþórs og Barkar í skýrslutökum hjá lögreglu en gerðu það fyrir dómi. Var þá framburður þeirra talinn ótrúverðugur. Hann spurði hvort framburðurinn hefði verið talinn ótrúverðugur ef þeir hefðu borið gegn Annþóri og Berki.

Saksóknari viðurkenndi í ræðu sinni að rannsókn lögreglu hefði ekki verið gallalaus. Hins vegar hafi hún ekki verið haldin slíkum annmörkum að það varði ómerkingu dómsins. Engin meiriháttar mistök hafi verið gerð og engin meiriháttar gögn hafi vantað.

Hann tók undir með verjendum að samantektir lögreglu af skýrslutökum hafi ekki verið nægjanlega nákvæmar. Þess vegna hafi orðrétt endurrit verið lögð fram fyrir Hæstarétti. Þá bendir hann á að í forsendum Héraðsdóms Reykjaness komi fram að héraðsdómur hafi horft á allar skýrslutökur í hljóði og mynd. Dómurinn hafi því ekki byggt á samantektunum.

Gagnrýnir lögregluna

Sveinn Guðmundsson, verjandi Barkar Birgissonar, hélt því fram fyrir Hæstarétti að mál á hendur skjólstæðingi sínum væri runnið undan rifjum lögreglunnar. Ekki sé tilviljun að upp komi tvö mál á sama tíma og það bendi til miðlægrar stýringar. Héraðsdómurinn hafi verið sleggjudómur og allt hengt á þá Annþór og Börk.

Hann gagnrýndi harðlega að það væri engin bein frásögn í skýrslutökum lögreglu heldur hefðu rannsakendur stýrt þeim í einu og öllu. Þá hafi nánast engin vettvangsrannsókn verið gerð og brotavettvangur ekki skoðaður. Blóðsýni hafi verið tekið mörgum mánuðum eftir meint brot og þó svo að fundist hafi merki um blóð á gólfinu hafi ekki verið kannað úr hverjum það var.