— Morgunblaðið/Rósa Braga
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is Elsa alvitra nefnist nýtt tónleikhúsverk eftir Þórunni Grétu Sigurðardóttur sem frumflutt verður á opnunartónleikum tónleikaraðarinnar Jaðarbers í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu, í kvöld kl. 20.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

Elsa alvitra nefnist nýtt tónleikhúsverk eftir Þórunni Grétu Sigurðardóttur sem frumflutt verður á opnunartónleikum tónleikaraðarinnar Jaðarbers í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu, í kvöld kl. 20. Flytjendur eru Heiða Árnadóttir sópran í hlutverki Elsu, Gísli Magnason tenór í hlutverki Hans, Melkorka Ólafsdóttir á flautu, Tinna Þorsteinsdóttir á píanó, Kristine Tjøgersen á klarínettu og Ane Marthe Sørlien Holen á slagverk, en tveir síðastnefndu tónlistarmennirnir eru meðlimir norska tónlistarhópsins Ensemble neoN.

„Tónleikhúsverk er listaverk á mörkum tónlistar og leiklistar, sem hvorki lýtur lögmálum óperunnar né söngleiksins,“ segir Þórunn Gréta og bendir máli sínu til stuðning á að hljóðfæraleikarar verksins séu leikarar til jafns við söngvarana. „Ég hef það að markmiðið að hljóðfæraleikararnir séu frjálsir á sviðinu og ég vil ekki hafa stjórnanda, þannig að ég bý til spunavélar og skrifa inn hreyfingar,“ segir Þórunn Gréta sem lýkur meistaranámi sínu í tónsmíðum frá Tónlistarháskólanum í Hamborg í janúar 2014.

Að sögn Þórunnar Grétu er tónleikhúsverkið Elsa alvitra afrakstur rannsóknar hennar á tónleikhúsinu sem listform. Verkefnið er styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna og leiðbeinendur voru Atli Ingólfsson og Steinunn Knútsdóttir. Spurð hvort hún hyggist semja fleiri tónleikhúsverk svarar Þórunn Gréta því játandi. „Eins og mér líður í dag langar mig bara til að semja tónleikhúsverk, enda er sköpunarferlið búið að vera svo skemmtilegt en um leið mikil áskorun,“ segir Þórunn Gréta og bendir á að sér þyki spennandi að vinna tónsköpun sína í náinni samvinnu við flytjandur á æfingatímanum í stað þess bara að afhenda flytjendum nóturnar og heyra afraksturinn fyrst á tónleikum.

Spurð um yrkisefni Elsu alvitru segir Þórunn Gréta efniviðinn sóttan í lítt þekkt, samnefnt ævintýri úr safni Grimms bræðra. „Sagan fjallar um nútímakvilla á borð við einbeitingarskort, verkkvíða og áhyggjur af því að standa undir kröfum samfélagsins. Þessi saga talaði því sterkt til mín bæði út af innihaldinu en ekki síður forminu. Þannig sá ég í henni mörg músíkölsk element, s.s. klifanir og endurtekningar,“ segir Þórunn Gréta að lokum.

Þess má geta að aðeins verður þessi eini flutningur á Elsu alvitru og aðgangur er ókeypis.