Ómar Sigurðsson
Ómar Sigurðsson
Eftir Ómar Sigurðsson: "Í vitrun sá ég allt hið vélandi ráð./Með viljann sem hikar, ef skín hans stjarna (EB)."

Síðastliðið vor skrifaði Ingibjörg Sólrún grein þar sem hún velti upp þeirri spurningu hvort Ísland væri eineltissamfélag. Greinin vakti mikla athygli. Í kjölfarið birtust greinar eftir lærða sem leika. Hjá flestum var niðurstaðan að Ísland sé eineltissamfélag. Í þessum greinum var kirkjan, stjórnmálin, fyrirtæki og jafnvel mannræktarsamtök nefnd, svo ótrúlegt sem það er, að slíkt fái að grassera þar sem fólk er að vinna að mannbótum og mannrækt.

Ég hef tekið að mér að halda fyrirlestra fyrir samtök um einelti og ræða við forystumenn um úrbætur, þar sem maður átti von á að vel yrði tekið í málið, þar fóru menn í fýlu. Fýla er stjórntæki hjá veikum leiðtogum, þegar þeir lenda í blindgötu og geta ekki útskýrt framkomu sína, nota þeir gjarnan fýlu. Fýla er andlegt ofbeldi og samskipti sem einkennast af fýlu eru óheiðarleg og skemmandi. Þau eru ein hliðin af einelti. Hinn kosturinn er að ræða málin á heiðarlegan hátt, segja hug sinn allan og vinna að því að komast að viðunandi niðurstöðu. Ég hef séð menn sem vilja láta taka sig alvarlega, verða sér til ævarandi skammar fyrir einelti og klíkuskap. Sjálfur hef ég nýlega lent í slíku, þar sem forystumaður og taglhnýtingar hans treystu á að gamli skipstjórinn hefði sig hægan. Ég er ekki og verð aldrei fórnarlamb. Ef við viljum betra samfélag eigum við að berjast gegn hverskyns ofbeldi og yfirgangi, og það mun ég gera.

Í vitrun sá ég allt hið vélandi ráð,

með viljann sem hikar, ef skín hans stjarna,

með gleði sem andast, ef óskinni er náð.

Með augað á hisminu blind á hvern kjarna.

(EB)

Þetta vekur kannski næstu spurningu: Er Ísland klíkusamfélag? Við höfum öll séð hvernig stjórnmálaflokkarnir vinna, ekki síst síðustu fimm ár. Tveir ráðherrar voru dæmdir sekir af dómstólum landsins og í báðum málunum er klíkuskapur undirrótin. Fjöldi ráðninga án auglýsingar var langt umfram það sem eðlilegt má teljast. Nýjasta dæmið er að ráða Björn Val í stjórn Seðlabankans. Björn Valur hefur enga menntun eða reynslu til starfans. Þarna er um grímulausan klíkuskap að ræða á kostnað almennings. En það er víðar sem klíkuskapur er stórt vandamál. Þegar stjórnsýslan er skoðuð kemur ýmislegt í ljós, ég tel að ýmsar ráðningar stjórnsýslunnar til hinna og þessara verkefna séu að minnsta kosti á gráu svæði, ég ætla að bíða með að nefna dæmi þar um. Stundum er nauðsynlegt að bregðast við klíkuskap, klíkuskapur er eins og einelti, ofbeldi. Það þarf að taka á því þegar menn misnota vald sitt. Það eru til leiðir til að takast á við of mikla stjórnsemi, og þvinganir stjórnenda, sem oftar en ekki eru til þess að safna um sig taglhnýtingum, sem bíða eftir að brauðmoli hrökkvi af borði valdsmannsins. Veikir leiðtogar veikja þann málstað sem þeir gefa sig út fyrir að berjast fyrir. Fall ýmissa leiðtoga má rekja til þess að þeir hafa safnað að sér jámönnum sem eru fljótir að snúa við þeim bakinu þegar á reynir.

Höfundur er skipstjóri.