Vinna Flest barnanna starfa við landbúnað en mörg við framleiðslu.
Vinna Flest barnanna starfa við landbúnað en mörg við framleiðslu. — AFP
Vinnandi börnum hefur fækkað um þriðjung síðan árið 2000; úr 246 milljónum í 168 milljónir, samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

Vinnandi börnum hefur fækkað um þriðjung síðan árið 2000; úr 246 milljónum í 168 milljónir, samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Þá hefur börnum sem vinna störf sem geta verið skaðleg andlegri eða líkamlegri heilsu þeirra fækkað úr 171 milljón í 85 milljónir en Constance Thomas, sem leiðir átak Alþjóðavinnumálastofnunarinnar gegn barnavinnu, segir ólíklegt að því takmarki verði náð að útrýma hættulegri barnavinnu árið 2016.

Um það bil 11% barna í heiminum stunda vinnu í stað náms, flest á Asíu-Kyrrahafssvæðinu. Flest þeirra, eða um 59%, vinna í landbúnaði en sífellt fleiri starfa einnig við ýmiskonar framleiðslu. Meðal þeirra landa þar sem góður árangur hefur náðst í baráttunni gegn barnavinnu eru Úganda, Kamerún og Madagaskar en í Rúanda og Mongólíu hefur málum farið aftur.

„Ef okkur er alvara með það að uppræta þá plágu sem barnavinna er í náinni framtíð þurfum við að gefa umtalsvert í á öllum sviðum. Fyrir því höfum við 168 milljón góðar ástæður,“ segir framkvæmdastjóri Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, Guy Ryder.

Í skýrslunni er sérstaklega tekið fram að góður árangur hafi náðst varðandi vinnandi stúlkur en þeim hefur fækkað um 40% á síðustu tólf árum. Stúlkum sem vinna hættuleg störf hefur fækkað um meira en helming á sama tíma.

Tölurnar taka þó ekki til heimilisstarfa, sem eru mun oftar unnin af stúlkum en drengjum.