Magnús fæddist í Reykjavík 9. mars 1936. Hann lést á líknardeild Landspítalans 7. september 2013.

Útför Magnúsar fór fram frá Hallgrímskirkju 20. september 2013.

Magnús Einarsson gerðist heimsóknarvinur hjá Rauða krossinum í Reykjavík í mars 2007. Verkefnið var alfarið Kvennadeildarverkefni frá 1966-2006 en þá var undirrituð ráðin sem verkefnisstjóri hjá Rauða krossinum í Reykjavík. Markmiðið var m.a. að stækka hópinn og að fá karlmenn til að taka þátt í verkefninu. Þegar ég hugsa til baka til þeirra karlmanna sem gengu til liðs við hóp kvenna, sem höfðu flestar til margra ára sinnt starfinu, get ég ekki annað en dáðst að karlmönnunum fyrir jákvæð viðhorf, fordómaleysi og áræði.

Magnús hafði einstaklega góða nærveru og sinnti starfi sínu sem heimsóknarvinur af alúð, samviskusemi og natni.

Félagar Magnúsar nutu frásagnarhæfi hans og glettni en eitt af því sem Magnús tók að sér var að segja nýliðum frá sinni reynslu sem sjálfboðaliði og sömuleiðis að fylgja þeim í fyrstu heimsókn.

2007 fór Magnús í fyrstu heimsókn til manns sem þá var 93 ára. Heimsóknirnar stóðu yfir í tæp þrjú ár eða þar til maðurinn lést. Þremur mánuðum síðar hitti Magnús nýjan gestgjafa, sem hann heimsótti þar til Magnús hætti vegna veikinda sinna, haustið 2011.

Eitt sinn kom upp sú hugmynd á fundi heimsóknarvina að safna saman sögum úr heimsóknarþjónustunni. Magnús brá skjótt við og skrásetti sögu um heimsóknir til fyrri gestgjafa síns, sem þá var látinn.

Sést vel í þeirri frásögn hversu þolinmóður og fær Magnús var í mannlegum samskiptum.

Við kveðjum góðan félaga með þakklæti í huga fyrir frábært samstarf og óeigingjarnt vinnuframlag. Við sendum fjölskyldu Magnúsar hugheilar samúðarkveðjur.

Fyrir hönd heimsóknarþjónustu Rauða krossins í Reykjavík,

Kristín H. Guðmundsdóttir verkefnisstjóri.