Jón Steinar Gunnlaugsson
Jón Steinar Gunnlaugsson
Eftir Jón Steinar Gunnlaugsson: "Hjálpin sem ég þáði á sínum tíma hefur enst mér allt fram á þennan dag."

Fyrir rúmlega 34 árum leitaði ég mér hjálpar vegna áfengisneyslu sem ég hafði ekki stjórn á. Hjálpina fékk ég hjá sjúkrastofnun SÁÁ, sem þá var rekin við frekar frumstæð skilyrði á Silungapolli hér fyrir ofan Reykjavík. Nokkrum árum síðar byggðu samtökin sjúkrahúsið Vog sem verður 30 ára í desember á þessu ári. Sú bygging hefur svo sannarlega þjónað hlutverki sínu vel og mun gera það áfram. Nú stendur til að ráðast í viðbyggingu, sem talin er nauðsynleg til þess að unnt verði að veita hinum veikustu meiri hjálp en nú er.

Hjálpin sem ég þáði á sínum tíma hefur enst mér allt fram á þennan dag. Ég hef ekki bragðað áfengi þennan tíma en það sem meira er þá held ég að mér hafi tekist í auknum mæli að tileinka mér þá afstöðu til lífsins sem hjálpin byggðist á, að taka sjálfur ábyrgð á eigin lífi. Í mínum huga fellur starfsemi SÁÁ undir það að geta kallast mannræktarstarfsemi. Líf fjölda fólks hefur breyst til hins betra fyrir tilstuðlan samtakanna.

Það er því óhætt að hvetja fyrirtæki og einstaklinga til að styðja, svo sem hver og einn hefur getu til, með fjárframlögum bygginguna sem ráðist hefur verið í. Gerum SÁÁ kleift að reisa þessa byggingu án þess að þurfa að fá framlög af skattfé til þess.

Höfundur er lögfræðingur.