— Morgunblaðið/Júlíus
Félagar í samtökunum Hraunavinir stóðu vaktina í Gálgahrauni allan liðlangan gærdaginn. Framkvæmdir áttu að hefjast þar í gærmorgun en um 20 mótmælendur stóðu fyrir framan tvær gröfur og neituðu að færa sig.

Félagar í samtökunum Hraunavinir stóðu vaktina í Gálgahrauni allan liðlangan gærdaginn. Framkvæmdir áttu að hefjast þar í gærmorgun en um 20 mótmælendur stóðu fyrir framan tvær gröfur og neituðu að færa sig. Lögregla var kölluð til af verktakafyrirtækinu Íslenskum aðalverktökum en að sögn Ómars Ragnarssonar, sem var meðal mótmælenda, kom lögreglan alls þrisvar. Í eitt skiptið fjarlægði hún eina gröfuna sem var, að sögn Ómars, „ólögleg og óskoðuð“.

Vilja mótmælendurnir að verktakarnir haldi að sér höndum þar til skorið verður úr um lögmæti framkvæmdanna fyrir dómstólum.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni í gær segir að meginregla íslensks réttarfars sé að höfðun dómsmáls frestar ekki framkvæmdum. Ómar segir það vera rangt. „Lögbann er sett til að stöðva framkvæmdir ef stefnir í stjórtjón sem hægt er að komast hjá með því að frysta málið. Við erum í lögbannsmáli og lögbann stöðvar framkvæmdir. Það hefur margsinnis gerst.“ kij@mbl.is