[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is Hlutverk bókasafna er að lána út bækur. Enn sem komið er er ekki hægt að fá íslenskar rafbækur að láni þrátt fyrir að bækurnar séu fáanlegar á stafrænu formi.

Baksvið

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

Hlutverk bókasafna er að lána út bækur. Enn sem komið er er ekki hægt að fá íslenskar rafbækur að láni þrátt fyrir að bækurnar séu fáanlegar á stafrænu formi. Ýmislegt er í deiglunni í umræðunni um rafbókavæðinguna hér á landi. Hvorki er komin heildarlausn á fyrirkomulag útlána né hvernig aðilar geta lánað rafbók sín á milli enda eru þær oftar en ekki læstar með afritunarvörn.

Samráðsnefnd um bókaútgáfu var skipuð af menntamálaráðuneytinu. Hún átti að skila af sér skýrslu í september en stefnt er að skýrsluskilum í byrjun október. Skýrslan er um framtíðarsýn og starfsumhverfi íslenskrar bókaútgáfu, miðlun og bókmenningu, kennsluefni og fagefni fyrir skóla og fyrirtæki svo og almenna bókaútgáfu.

„Ég hefði viljað sjá tilraunaverkefni með útlán rafbóka í samstarf við íslenska bókaútgefendur,“ segir Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður. Hún segir að umhverfið í kringum rafbókina sé á „miklu flugi“ og fyrirferðarmikil umræða sé um hvernig best sé að hátta miðlun á rafbókinni og útlánum. „Við setjum okkar það markmið að fylgjast með hvernig markaðurinn þróast.“

Hins vegar er hægt að fá erlendar rafbækur, einkum fræðibækur, lánaðar hjá Landsbókasafni. Í upphafi þessa árs keypti safnið rafbókapakka með blönduðu efni, aðallega fræðiefni, af útgefandanum Springer. Hann er annar stærsti útgefandi fræðibóka í heimi.

Samningurinn tekur til þriggja ára, um þrjú þúsund titlar koma inn árlega, nýir titlar daglega, að þremur árum liðnum verða titlarnir komnir í níu þúsund. Bækurnar eru á ensku og skiptast niður í fimm flokka, m.a. tölvunarfræði, lögfræði og jarðfræði.

Þrátt fyrir að titlarnir séu einkum ætlaðir háskólasamfélaginu á almenningur einnig eftir að geta fundið sér ýmislegt nytsamlegt.

Allir, sem eru með tölvu skráða á Íslandi, geta náð sér í þessar bækur í gegnum svokallaðan landsaðgang á vefsíðunum hvar.is og leitir.is. Hægt er að hlaða niður heilli bók eða einstökum köflum. Engar afritunarvarnir eru á bókunum. Verkin verða aðgengileg með þessu móti um ófyrirsjánlega framtíð. Margir hafa nýtt sér þetta og er fjöldi bóka og titla sóttur daglega, að sögn bókasafnsfræðings.

Rétta módelið ekki enn fundið

Engar rafbækur eru til útláns á Borgarbókasafni. „Tæknilega séð er þetta hægt en ekki er búið að semja ennþá t.d. við útgefendur um höfundarrétt og annað í þeim dúr. Ekki er búið að finna rétta módelið,“ segir Pálína Magnúsdóttir borgarbókavörður. Hún segir að fylgst sé náið með hvað sé að gerast erlendis þar sem bókasöfn séu að prófa sig áfram í þessum efnum. Hún bendir á að málið sé þónokkuð flókið.

Sænskar rafbækur

Hægt er að fá að láni rafbækur í Norræna húsinu, þó enn sem komið er aðeins á sænsku. Safnið, sem er almenningsbókasafn, gerði samning við sænska fyrirtækið Elib um útlán raf- og hljóðbóka. Margrét Ásgeirsdóttir, yfirbókavörður Norræna hússins, segir ástæðu þess að eingöngu sé boðið upp á sænskar bækur þá að hinar Norðurlandaþjóðirnar séu ekki komnar eins langt á veg í því að lána út rafbækur í gegnum bókasöfn. „Við erum á byrjunarreit í þessum efnum. Svíar eru komnir lengst, en það er spurning um að kanna málin hjá Dönum á næsta ári, ef við höfum efni á því,“ segir Margrét og bætir við að fjárskortur hái bókasöfnum í heiminum. Þau fá yfirleitt ekki aukafjárveitingu til þessa nýja forms til lestrar.

Rafbækurnar eru dýrar í útláni og kosta safnið um 20 sænskar krónur hver, sem gerir um 380 íslenskar krónur. Hægt er að nota öll lestæki til að lesa bókina nema kindil. Aðgangurinn að bókinni lokast eftir 28 daga. Getur hver notandi eingöngu náð sér í tvær raf- eða hljóðbækur á viku. Hljóðbækurnar eru streymandi í gegnum netið, en rafbókunum er hlaðið niður. Árgjald í bókasafninu er 1.500 kr.