— Morgunblaðið/Alfons
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Með aukinni fiskveiðistjórnun og þróun kvótakerfa hefur dregið úr ofveiði og hnignun fiskistofna í heiminum.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Með aukinni fiskveiðistjórnun og þróun kvótakerfa hefur dregið úr ofveiði og hnignun fiskistofna í heiminum. Þetta var meðal þess sem fram kom í framsöguerindi Ragnars Árnasonar, prófessors við Háskóla Íslands, við setningarathöfn ársfundar Alþjóðahafrannsóknaráðsins í Hörpu í gær.

Ragnar fjallaði um fiskveiðar og fiskveiðistjórnun á heimsvísu, hvað hefur áunnist og hvaða áskoranir eru fram undan.

Í samtali við Morgunblaðið sagði Ragnar að minnsta kosti 22 þjóðir hefðu tekið upp kvótakerfi í líkingu við það sem notað væri hér á landi. Þetta væru einkum vestrænar þjóðir sem öfluðu um fjórðungs af heimsaflanum. Íslenska kerfið væri fyrirmynd í þessum efnum, en Ragnar segir að kvótakerfið á Nýja Sjálandi sé enn fullkomnara og því frekar fyrirmynd annarra.

Hann segir að með ofveiði og ofsókn hefðu fiskistofnar verið á hraðri niðurleið frá því um 1950. Þessi þróun hefði gengið mjög langt og stofnstærð margra verðmætra fiskistofna hefði minnkað mjög mikið og í sumum tilvikum allt að lífvænlegum mörkum.

Hægt á hnignun fiskistofna – vandamál í þróunarlöndum

„Á þessari þróun hefur hægt vegna bættrar fiskveiðistjórnunar, einkum og sér í lagi í hinum vestræna heimi,“ segir Ragnar. „Í þessum löndum hefur dregið verulega úr ofsókn og hægt hefur á hnignun fiskistofna að jafnaði og sums staðar hefur þetta snúist við eins og við þekkjum frá Íslandi varðandi síld, þorsk, ýsu og fleiri tegundir. Þetta hefur gerst á síðustu 20 árum, en með vaxandi hraða því það tekur tíma að byggja upp fiskistofna á nýjan leik. Sérstaklega hefur dregið úr sókn á Norður-Atlantshafi og Norður-Kyrrahafi. Jafnframt hefur afkoman í fiskveiðunum batnað stórlega.

Vandamálin eru enn í ríkum mæli í þróunarlöndunum og þar hefur ástandið haldið áfram að versna, en kannski ekki alveg jafn hratt og áður. Ástæðan er sú að þessar þjóðir eiga mjög erfitt með að taka upp góða fiskveiðistjórnun eftir þessum línum.

Þar sem milljónir veiðimanna veiða fisk á milljónum báta er ekki stjórnunargeta til að fylgja eftir kvótakerfum. Þessar þjóðir gætu tekið upp kerfi sem byggist á veiðirétti fiskveiðiþorpa og -bæja á tilteknum afmörkuðum svæðum sem íbúarnir hefðu þá fyrir sig,“ segir Ragnar.

Vaxandi fiskeldi

Fiskeldi í heiminum hefur vaxið hröðum skrefum síðustu ár og hefur aukningin verið um 5-8% á ári. Vöxtur er í greininni um allan heim, en mestur í Suðaustur-Asíu þar sem skilyrði eru mjög góð. Ragnar Árnason segir mikilvægt að Íslendingar og aðrar fiskveiðiþjóðir átti sig á því að meira en helmingur af fiski til manneldis í heiminum komi nú frá eldi. Þetta valdi því að mikill þrýstingur myndist til lækkunar á fiskverði. Í framtíðinni verði fiskverð í raun í námunda við framleiðslukostnað í fiskeldi.