Ólöf Helgadóttir fæddist í Stafni í Reykjadal 3. mars 1930. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga 13. september 2013.

Útför Ólafar fór fram frá Einarsstaðakirkju 21. september 2013.

Elsku amma Olla mín, nú hefur þú kvatt okkur og það, að mér finnst, alltof fljótt. En þér líður betur núna og ég veit að afi hefur tekið brosandi á móti þér. Minningar mínar um þig eru svo ótal margar og allar góðar því þú varst einstök kona. Eitt mesta hrós sem ég hef fengið var þegar ágætur frændi okkar sagði við mig að ég væri nú líklega bara dálítið lík henni ömmu minni og nöfnu. Þetta hrós mun ég geyma hjá mér og reyna eftir fremsta megni að standa undir því.

Amma horfði á hlutina frá skemmtilegu sjónarhorni og var ekki að flækja hlutina að óþörfu. Fyrir einhverjum árum sátum við nokkur og töluðum um einhvern mann sem væri svo leiðinlegur en þá heyrist í ömmu: „Nei, krakkar mínir, það er enginn leiðinlegur, fólk er bara misjafnlega skemmtilegt.“ Þessi orð hennar man ég oft þegar ég býsnast yfir einhverjum sem er mér ekki að skapi.

Ég veit að ég er nú líklega ekki ein um það að eiga margar minningar um ömmu tengdar mat eða öðru gotteríi því hún hafði gaman af því að gefa fólki að borða. Ég man eftir kvöldi í Stafni þar sem amma var með fullt eldhús af börnum og var að gefa öllum að borða. Það endaði þannig að engir tveir fengu það sama að borða; allir fengu sem sagt það sem þeir vildu helst. Þarna var ég barn en greinilega orðin það stálpuð að átta mig á því að þetta væri nú kannski fullmikið af því góða en í minningunni er þetta afar lýsandi fyrir ömmu. Oft er minnst á söguna af því þegar amma kemur eitt sinn með pönnukökur til okkar í Glaumbæ en hafði óvart sett möndludropa í þær í staðinn fyrir vanilludropa. Þarna var ég ekki há í loftinu en setti nú eitthvað út á undarlegt bragðið af pönnukökunum og átti bágast með að trúa því að hún amma hefði virkilega bakað vondar pönnukökur.

Elsku amma, takk fyrir allt og ég mun hugsa til þín þegar ég sit með prjónana mína.

Blessuð sé minning þín.

Er sárasta sorg okkur mætir

og söknuður huga vorn grætir

þá líður sem leiftur úr skýjum

ljósgeisli af minningum hlýjum.

(H.J.H.)

Ólöf (Olla litla).

Fyrir nokkrum vikum hélt ég fyrirlestur fyrir hundruð grunnskólakennara í Reykjavík um tækni og skólaþróun og þá fannst mér passa að segja þeim m.a. frá því þegar ég var sendur í sveit sem barn ásamt bróður mínum, norður í land, á hverju sumri frá sex ára aldri og fram á unglingsár.

Ég sagði kennurunum að þarna hefði ég lært að prófa, gera og framkvæma og þar hefði ég lært að tala eins og fólkið í sveitinni, sem hafði tamið sér að hugsa áður en það talaði. Ég sýndi myndir af sveitinni og sagði líka frá því að þetta væri fallegasta sveit á Íslandi og sú næstfallegasta væri þar skammt fyrir austan og héti Mývatnssveit.

Ég var auðvitað að tala um Stafn og Stafnshverfi í Reykjadal í Þingeyjarsýslu. Og fólkið sem ég var að vísa til voru Helgi bóndi og Jófríður afasystir okkar, Kristján bóndi og Ólöf dóttir Helga og Jófríðar. Þetta var fólkið sem ásamt öðrum í sveitinni tók okkur bræður að sér þriðjung úr ári alla okkar barnæsku.

Ég vissi ekki þegar ég hélt þennan fyrirlestur fyrir kennarana að þá var Ólöf frænka mín, sem ég kann ekki að kalla annað en Ollu, í rannsóknum hjá læknum sem sögðu henni að þeir hefðu greint hana með sjúkdóm, sem nú hefur leitt hana til dauða, nokkrum vikum síðar.

Ég hef oft velt því fyrir mér hversu flókið það hljóti að hafa verið fyrir Ollu að ganga okkur bræðrum í móður stað hluta úr ári, árum saman, annast okkur og sinna ásamt öðrum börnum og sínum eigin börnum. Það hefur ekki eingöngu verið líkamlegt erfiði og fyrirhöfn sem fylgir svona umhyggju. Það þarf einstaka manngæsku og yfirvegun til að geta annast annarra börn af slíkri ástúð og hlýju en jafnframt geta látið sín eigin börn upplifa að þau séu hennar raunverulegu börn sem hún hljóti að elska meira en allt annað og gera þetta án þess að nokkur í þessum hópi hafi fundið til mismununar eða ójafnræðis.

Ég hitti Ollu ekki oft hin seinni ár og í dag er ég miður mín út af því. Sveitin mín og fólkið mitt þar er svo stór hluti af þeirri manneskju sem ég er í dag og mér finnst að ég hefði ekki bara átt að vera með hugann við Stafn í öll þessi ár heldur fara þangað oftar.

Fyrir tíu árum kom Olla ásamt systrum sínum í fermingu Marteins sonar míns og ég á af þeim mynd ásamt mömmu minni. Þetta er illa tekin mynd á lélega myndavél en engin tækni í heimi gæti samt gert hana verðmætari fyrir mig í dag. Fáum árum síðar kom ég svo í Stafn í tvígang með Guðrúnu dóttur mína sem þá var nýkomin til mín alla leið frá Kína. Ég á af þeim fallega mynd saman þar sem Guðrún Edda situr í fanginu á Ollu. Mér þótti miklu skipta að þær fengju að hittast.

Ég átti einlæg samtöl við Ollu í þessum heimsóknum og hún horfði með mér yfir farinn veg og sagði það sérstakt hlutskipti að vera orðin einskonar gestur á heimilinu sem hún fæddist inn á. Ég gat skilið það. Svo ræddi ég um hversu mörg ár væru liðin síðan ég var þarna í sveit en þó væri eins og það væri svo stutt síðan og þá svaraði Olla mér, með sinni einstöku ró og yfirvegun, „Já Hörður minn, ein mannsævi er svo óskaplega fljót að líða“.

Hörður Svavarsson.