Sigurður Brynjólfsson fæddist í Reykjavík 11. desember 1942. Hann lést á Landspítalanum 25. febrúar 2013.

Foreldrar hans voru Jóna Gíslína Sigurðardóttir og Brynjólfur Magnússon. Systkini hans eru Guðríður, f. 3.9. 1930, d. 18.5. 1988, Margrét Sigríður Karlsdóttir, f. 27.9. 1931, og Karlotta Ósk, f. 18.2. 1935, d. 8.12. 1935.

Hinn 17. júní 1965 kvæntist hann konu sinni Guðborgu (Stellu) Kristínu Olgeirsdóttir. Þau eignuðust þrjú börn, þau eru: 1) Brynjólfur, f. 12.4. 1965, börn hans eru Erik Vídalín, Jóhanna Selma og Nadía Líf. 2) Olgeir, f. 10.10. 1967, d. 27.1. 2011, dætur hanns eru Ástrós Perla og Dagbjört Kristín. 3) Jóhanna Selma, f. 16.11. 1972, hún á eina dóttur, Söru Kristínu Hlynsdóttur.

Sigurður fór til sjós 15 ára gamall. Árið 1962 fór hann að læra til þjóns, hann lærði í Klúbbnum og útskrifaðist 1965. Þá fór hann að vinna á Hótel Loftleiðum árið 1966 og var þar til 1990 þegar hann fór að vinna hjá Kirkjugörðum Reykjavíkur og hætti þar árið 2001.

Útför Sigurðar fór fram 7. mars 2013.

Með miklum trega dreg ég upp blað og penna til að skrifa minningargrein um hann pabba minn sem yfirgaf þennan heim hinn 25. febrúar. Ég hef átt erfitt með að skrifa um hann því ég hef bara ekki trúað þessu, þótt það sé kominn þessi langi tími síðan hann lést. Ég bíð stundum eftir því að bílskúrsdyrnar opnist til að hann setji bílinn inn eða hann komi labbandi upp stigann. Hann var alltaf í góðu skapi og mikill grínisti. Hann var mér góður pabbi. Ef ég var að kaupa bíl var hann alltaf til í að hjálpa mér og hann fann alltaf fyrir mig bíl enda mikill bílakall. Ég fékk að búa hjá mömmu og pabba þar til ég var 35 ára, þá ákvað ég að flytja út í mitt eigið enda komin með barn sem var fimm ára þegar við fluttum. Pabbi var dóttur minni mjög góður afi, hann gerði nánast allt fyrir Söru sína og þótti mjög vænt um hana. Hún bjó líka á heimili hans fyrstu fimm árin sín og hann fékk að fylgjast með henni alla daga. Þau voru voða miklir vinir og Sara mín missti mikið er hún missti afa sinn sem var henni mjög góður. Og til heiðurs honum vildi hún Sara Kristín syngja í jarðarför afa síns og fékk Ástrós Perlu frænku sína til að syngja með sér. Söngur þeirra í kirkjunni var yndislega fallegur, pabbi minn, afi þeirra, hefði verið svo stoltur af þeim. Alltaf leyfðu mamma og pabbi okkur systkinunum að koma með vini okkar á gamlárskvöld og hann tók þar þátt í gleðinni með sínum hressleika. Hann þurfti ekki vín til að skemmta sér og öðrum. Hann var mikið fyrir leiklist, dans og bíla. Alltaf kom hann heim með bílablöð þegar hann var búinn að vera á bílasýningum. Hann var líka í leiklist í hópi sem heitir Snúður og Snælda og það fannst honum gaman. Svo fór hann í dans einu sinni eða tvisvar í viku og honum fannst dýrmætt að geta farið með vini sínum, honum Guðna, að dansa.

Þegar ég var yngri fór ég með pabba og mömmu í utanlandsferðir og í bústaðinn, sem hann skírði Draumaland. Við pabbi gátum talað um allt og ekkert, við deildum en rifumst aldrei. Hann var tekinn allt of snöggt og snemma frá okkur og ég sakna hans meira en mikið. Ég veit að hann vakir yfir okkur hér og ég verð ekki hrædd þegar minn tími kemur því ég veit hverjir taka á móti mér; það verða pabbi minn og Olli bróðir minn.

Ég gæti skrifað margar fallegar og skemmtilegar minningar hér um góðan pabba en ég mun geyma þær allar í hjartanu. Ég þakka honum allar frábærar og góðar stundir sem við áttum saman.

Pabbi minn, ég bara elska þig og kveð þig með trega, tárum og með mikinn söknuð í hjarta.

Þín dóttir,

Jóhanna Selma Sigurðardóttir (Litla Budd).

Ég vil minnast elskulega afa míns og besta vinar. Við áttum góðar stundir saman þegar við vorum að þvo bílinn hans. Hann var mjög mikill bílakarl og fór mjög vel með bílana sína. Ég var önnur sem fékk að vita þegar hann keypti nýja bílinn sinn sem hann átti þar til hann fór. Hann keyrði mig oft í frístundirnar mínar þegar mamma gat ekki keyrt mig. Afi minn var alltaf tilbúinn að hjálpa mér með allt sem ég var í vandræðum með. Hann var ekki bara afi minn, hann var líka besti vinur minn. Ég man þegar við fórum í Elliðaárdalinn í gönguferðir, það var mikið rætt saman í þessum göngutúrum. Hann vissi mikið um fugla, tré og blóm. Það var alltaf stutt í grínið hjá honum og hann galdraði oft fyrir mig og vinkonur mínar. Hann sagði mér líka oft sögur af sér síðan hann var lítill og ég sagði honum að segja sögurnar aftur og aftur því hann sagði svo skemmtilega frá. Ég veit að hann gerði margt gott fyrir mig þegar ég var lítil. Þegar hann endaði á spítala fór ég alltaf í heimsókn til hans afa míns. Ég mun aldrei gleyma síðasta deginum sem ég átti með honum uppi á spítala því það var svo sárt að horfa upp á hann afa minn og besta vin minn svona veikan eins og hann var síðasta daginn.

Með þessum orðum vil ég minnast afa míns og besta vinar míns og þakka honum allar góðu og skemmtilegu stundirnar sem ég hef upplifað með honum, ég sakna hans meira en orð geta lýst og elska hann til tunglsins og til baka og allt um kring. Nú kveð ég afa minn með sár í hjarta og með miklum söknuði.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum)

Þín besta vinkona og barnabarn,

Sara Kristín

Hlynsdóttir.