Dómstóll í Kaupmannahöfn dæmdi í gær þrjá Íslendinga og tvo Dani í sex til tíu ára fangelsi fyrir umfangsmikið fíkniefnasmygl. Er Íslendingunum jafnframt meinað að ferðast aftur til Danmerkur.

Dómstóll í Kaupmannahöfn dæmdi í gær þrjá Íslendinga og tvo Dani í sex til tíu ára fangelsi fyrir umfangsmikið fíkniefnasmygl. Er Íslendingunum jafnframt meinað að ferðast aftur til Danmerkur.

Mennirnir voru fundnir sekir um smygl á miklu magni amfetamíns frá Hollandi til Danmerkur, að því er segir í dönskum fjölmiðlum.

Þá var einn Íslendingur dæmdur til vistunar á geðsjúkrahúsi og annar þarf að gangast undir geðrannsókn en refsing yfir honum verður ákveðin að rannsókninni lokinni.

Málið snýst um smygl á um 70 kílóum af amfetamíni í þremur ferðum, frá nóvember á árinu 2011 til septembermánaðar ársins 2012, en aðild mannanna að smyglinu var mismikil.

Meintur höfuðpaur smyglaranna, Guðmundur Ingi Þóroddsson, var dæmdur í tólf ára fangelsi í júnímánuði síðastliðnum. Þeir Heimir Sigurðsson og Sturla Þórhallsson voru síðan dæmdir í tíu ára fangelsi í ágúst.

Daninn Peter Baungaard, sem sagður er vera annar höfuðpaurinn í málinu, var í gær dæmdur í tíu ára fangelsi, sem og Íslendingurinn Ágúst Csillaq, sem er 21 árs gamall.

Mads Malmquist Rasmussen, sem er 29 ára Dani, var dæmdur í sjö ára fangelsi og þeir Enzo Rinaldi, fertugur Íslendingur, og Erlingur Karlsson, 24 ára Íslendingur, voru dæmdir í sex ára fangelsi hvor.

Ánægður saksóknari

Saksóknarinn Anders Larsen kvaðst vera afar ánægður með niðurstöðuna, eftir því sem fram kemur á vef Jyllands-Posten . „Ég er mjög ánægður. Þetta er niðurstaða fyrirtaks lögreglurannsóknar. Þetta er alvarlegt mál sem snýst um mikið magn amfetamíns, og það sést á því hversu þungir dómarnir eru,“ sagði Larsen. kij@mbl.is